Maðkur Guðmundur Steingrímsson skrifar 6. október 2007 00:01 Því er oft haldið fram að á Íslandi sé lítil spilling. Þetta kann að vera rétt. Vísast eru fáir sem stunda myrkraverk eins og mútur og svoleiðis hér á landi, enda eru allir jú svo góðir vinir hvort sem er. Né heldur tel ég það algengt að fólk vakni upp við hlið afskorins hrosshauss í rúmi sínu, eins og í kvikmyndinni Godfather. MAFÍUR á Íslandi hafa líka alltaf verið hálfvandræðalegar. Íslendingar hafa aldrei tekið þær sérstaklega alvarlega. Samt hefur ekki skort á umfangið. Stórbrotin verðsamráð fyrirtækja hafa átt sér stað, sem bitnað hafa á almenningi um áratugaskeið, en einhvern veginn hefur aldrei neinn þurft að axla ábyrgð og helst hefur þótt eftirtektarvert að í einu slíku samráði skuli menn hafa hist í Öskjuhlíð. Hvers vegna hittust mennirnir úti? ÞANNIG að spillingarhugtakið hefur aldrei náð að festa rætur í tungumálinu, þótt ærin tilefni hafi verið til. Einstaka menn hafa hrópað þetta orð úr ræðupúlti en það er eins og Íslendingar fari bara hjá sér og roðni þegar það er gert. Notkun orðsins þykir fremur benda til þess að viðkomandi sé í ójafnvægi. HINS vegar er athyglisvert hversu mörg orðtök Íslendingar eiga yfir það, að hlutir séu svona einhvernveginn ekki alveg í lagi. Ekki beint spilling, og þó. Við eigum endalaus orðtök um það að eitthvað grunsamlegt sé á seyði. Að það sé óþefur af einhverju. ÞESSI nálgun á veröldina virðist eiga djúpar rætur í þjóðarsálinni. Við tölum um að fólk hafi óhreint mjöl í pokahorni, að það sé maðkur í mysunni, að ekki sé allt sem sýnist og þess háttar. Flagð undir fögru skinni. Uppáhaldið mitt af öllum þessum orðtökum er þegar sagt er að það sé fiskur undir steini. Þetta er ákaflega myndrænt. Maður veltir við steini og þar er, viti menn, fiskur. Grunaði ekki Gvend. Þetta orðtak minnir líka skemmtilega á enska orðtakið „something fishy", sem er einnig í uppáhaldi. ÞAÐ er við hæfi að taka dæmi úr samtímanum. Hópur manna, sem hefur verið ráðinn til starfa án auglýsingar í dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur fær kaupréttarsamning sem mögulega gerir þá moldríka. Hér myndu einhverjir vilja segja „spilling", en líklega segja fleiri, sposkir á svip, að það sé óþefur af þessu. Fiskur undir steini. Skítalykt. Maðkur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Steingrímsson Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun
Því er oft haldið fram að á Íslandi sé lítil spilling. Þetta kann að vera rétt. Vísast eru fáir sem stunda myrkraverk eins og mútur og svoleiðis hér á landi, enda eru allir jú svo góðir vinir hvort sem er. Né heldur tel ég það algengt að fólk vakni upp við hlið afskorins hrosshauss í rúmi sínu, eins og í kvikmyndinni Godfather. MAFÍUR á Íslandi hafa líka alltaf verið hálfvandræðalegar. Íslendingar hafa aldrei tekið þær sérstaklega alvarlega. Samt hefur ekki skort á umfangið. Stórbrotin verðsamráð fyrirtækja hafa átt sér stað, sem bitnað hafa á almenningi um áratugaskeið, en einhvern veginn hefur aldrei neinn þurft að axla ábyrgð og helst hefur þótt eftirtektarvert að í einu slíku samráði skuli menn hafa hist í Öskjuhlíð. Hvers vegna hittust mennirnir úti? ÞANNIG að spillingarhugtakið hefur aldrei náð að festa rætur í tungumálinu, þótt ærin tilefni hafi verið til. Einstaka menn hafa hrópað þetta orð úr ræðupúlti en það er eins og Íslendingar fari bara hjá sér og roðni þegar það er gert. Notkun orðsins þykir fremur benda til þess að viðkomandi sé í ójafnvægi. HINS vegar er athyglisvert hversu mörg orðtök Íslendingar eiga yfir það, að hlutir séu svona einhvernveginn ekki alveg í lagi. Ekki beint spilling, og þó. Við eigum endalaus orðtök um það að eitthvað grunsamlegt sé á seyði. Að það sé óþefur af einhverju. ÞESSI nálgun á veröldina virðist eiga djúpar rætur í þjóðarsálinni. Við tölum um að fólk hafi óhreint mjöl í pokahorni, að það sé maðkur í mysunni, að ekki sé allt sem sýnist og þess háttar. Flagð undir fögru skinni. Uppáhaldið mitt af öllum þessum orðtökum er þegar sagt er að það sé fiskur undir steini. Þetta er ákaflega myndrænt. Maður veltir við steini og þar er, viti menn, fiskur. Grunaði ekki Gvend. Þetta orðtak minnir líka skemmtilega á enska orðtakið „something fishy", sem er einnig í uppáhaldi. ÞAÐ er við hæfi að taka dæmi úr samtímanum. Hópur manna, sem hefur verið ráðinn til starfa án auglýsingar í dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur fær kaupréttarsamning sem mögulega gerir þá moldríka. Hér myndu einhverjir vilja segja „spilling", en líklega segja fleiri, sposkir á svip, að það sé óþefur af þessu. Fiskur undir steini. Skítalykt. Maðkur.