Sorglegur viðskilnaður Jón Kaldal skrifar 22. júlí 2009 05:45 Lýsingar lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu á starfsumhverfi sínu eru ekki gæfulegar. Lögregluliðið er of fámennt, tækjakosturinn ófullnægjandi og álagið er fyrir vikið að sliga mannskapinn. Þetta ástand þarf því miður ekki að koma á óvart. Því hefur verið haldið fram um árabil að grunnþjónusta löggæslunnar hafi verið vanrækt. Sökin á þessari afleitu stöðu er ekki núverandi stjórnvalda heldur fyrst og fremst þeirra ríkisstjórna sem á undan fóru. Umfram allt situr Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, uppi með mikla ábyrgð í þessum efnum. Björn var dómsmálaráðherra frá 2003 til 2009 og það var hans hlutverk að verja þá málaflokka sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Björn sýndi ákveðna framsýni á ýmsum sviðum, til dæmis frumkvæði að stofnun greiningardeilda og eflingu sérsveitar lögreglunnar. Uppskar hann að mörgu leyti ómaklega og ósanngjarna gagnrýni fyrir þau verk sín. Björn getur hins vegar ekki vikið sér undan því að viðskilnaður hans við grunnþjónustu löggæslunnar er hörmulegur. Sá þáttur er nánast ein rjúkandi rúst. Ástæðan er ekki flókin. Eins og Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, benti á í viðtali við Vísi í gær hefur lögreglunni verið gert að skera niður í fjölmörg ár. „Það er búið að skera fituna og vöðvana í burtu. Það er ekkert eftir nema beinagrindin," sagði Snorri. Staðan í kjölfar góðærisins er sem sagt sú að lögreglan er komin að fótum fram eftir áralangt fjársvelti. Þetta er auðvitað skelfilegt ástand og í raun illskiljanlegt að stjórnvöld hafi leyft málum að fara á þennan veg. Af hverju þetta hefur gerst er sérstakt rannsóknarefni. Nógu voru fyrirheitin metnaðarfull og skynsamleg eins og þau voru framsett í Löggæsluáætlun 2007-2011, sem dómsmálaráðuneytið gaf út vorið 2007. Þar var mörgum orðum eytt í eflingu nærþjónustu og sýnilegrar löggæslu. Þróunin hefur þó verið á hinn veginn; afturför á báðum sviðum. Þessi útgáfa dómsmálaráðuneytisins er gott dæmi um að orð vega einskis ef þeim fylgja ekki athafnir. Tónninn í lögreglumönnunum er örvæntingarfyllri nú en áður hefur heyrst. Stjórnvöld geta ekki annað en brugðist við. Það verður að finna leiðir til að létta af lögreglunni kröfum um niðurskurð og sparnað. Núverandi ríkisstjórn verður að bæta þann skaða sem hefur verið unninn á löggæslunni. Það er óásættanlegt að lögreglan geti ekki staðið undir þeirri grunnþjónustu sem þjóðfélagið þarf á að halda. Það gengur heldur alls ekki að þeir menn og þær konur, sem sinna þessu grundvallarstarfi, séu að niðurlotum komin vegna fámennis og ófullnægjandi tækjakostar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Lýsingar lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu á starfsumhverfi sínu eru ekki gæfulegar. Lögregluliðið er of fámennt, tækjakosturinn ófullnægjandi og álagið er fyrir vikið að sliga mannskapinn. Þetta ástand þarf því miður ekki að koma á óvart. Því hefur verið haldið fram um árabil að grunnþjónusta löggæslunnar hafi verið vanrækt. Sökin á þessari afleitu stöðu er ekki núverandi stjórnvalda heldur fyrst og fremst þeirra ríkisstjórna sem á undan fóru. Umfram allt situr Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, uppi með mikla ábyrgð í þessum efnum. Björn var dómsmálaráðherra frá 2003 til 2009 og það var hans hlutverk að verja þá málaflokka sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Björn sýndi ákveðna framsýni á ýmsum sviðum, til dæmis frumkvæði að stofnun greiningardeilda og eflingu sérsveitar lögreglunnar. Uppskar hann að mörgu leyti ómaklega og ósanngjarna gagnrýni fyrir þau verk sín. Björn getur hins vegar ekki vikið sér undan því að viðskilnaður hans við grunnþjónustu löggæslunnar er hörmulegur. Sá þáttur er nánast ein rjúkandi rúst. Ástæðan er ekki flókin. Eins og Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, benti á í viðtali við Vísi í gær hefur lögreglunni verið gert að skera niður í fjölmörg ár. „Það er búið að skera fituna og vöðvana í burtu. Það er ekkert eftir nema beinagrindin," sagði Snorri. Staðan í kjölfar góðærisins er sem sagt sú að lögreglan er komin að fótum fram eftir áralangt fjársvelti. Þetta er auðvitað skelfilegt ástand og í raun illskiljanlegt að stjórnvöld hafi leyft málum að fara á þennan veg. Af hverju þetta hefur gerst er sérstakt rannsóknarefni. Nógu voru fyrirheitin metnaðarfull og skynsamleg eins og þau voru framsett í Löggæsluáætlun 2007-2011, sem dómsmálaráðuneytið gaf út vorið 2007. Þar var mörgum orðum eytt í eflingu nærþjónustu og sýnilegrar löggæslu. Þróunin hefur þó verið á hinn veginn; afturför á báðum sviðum. Þessi útgáfa dómsmálaráðuneytisins er gott dæmi um að orð vega einskis ef þeim fylgja ekki athafnir. Tónninn í lögreglumönnunum er örvæntingarfyllri nú en áður hefur heyrst. Stjórnvöld geta ekki annað en brugðist við. Það verður að finna leiðir til að létta af lögreglunni kröfum um niðurskurð og sparnað. Núverandi ríkisstjórn verður að bæta þann skaða sem hefur verið unninn á löggæslunni. Það er óásættanlegt að lögreglan geti ekki staðið undir þeirri grunnþjónustu sem þjóðfélagið þarf á að halda. Það gengur heldur alls ekki að þeir menn og þær konur, sem sinna þessu grundvallarstarfi, séu að niðurlotum komin vegna fámennis og ófullnægjandi tækjakostar.