Byrjað á öfugum enda Ólafur Stephensen skrifar 20. ágúst 2011 06:00 Tuttugu þúsund hafa skrifað undir áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna um afnám verðtryggingarinnar. Skiljanlega er fólki í nöp við hana; eftir hrun hafa skuldir hækkað um tugi prósenta, greiðslubyrðin þyngzt að sama skapi og lífskjörin versnað sem því nemur. Þó er í raun byrjað á öfugum enda með því að krefjast afnáms verðtryggingarinnar. Undirrót hennar og hið raunverulega vandamál sem við er að etja er ónýtur gjaldmiðill. „Sveigjanleiki“ krónunnar er aðallega niður á við. Það má sjá með einföldu dæmi. Þegar myntbreytingin var gerð 1980 og tvö núll skorin aftan af krónunni eftir margra ára óðaverðbólgu var ein íslenzk króna jafngild einni danskri krónu. Nú, 31 ári síðar, þarf 22 íslenzkar krónur til að kaupa eina danska. Sá sem lánar út peninga, sérstaklega til langs tíma eins og til að mynda lán til húsnæðiskaupa, vill auðvitað fá jafnverðmætar krónur til baka og hann lánaði upphaflega. Verðtryggingin hefur því reynzt ill nauðsyn vegna stöðugrar rýrnunar gjaldmiðilsins. Óvíst er að lántakendur væru betur settir án hennar ef ekkert annað breyttist. Lánveitendur myndu þá tryggja sig fyrir óvissunni með gífurlega háum vöxtum. Verðtryggingin er í rauninni aðeins sjúkdómseinkenni í efnahagslífinu. Sjúkdómurinn sjálfur er ónýtur gjaldmiðill. Án nýs og stöðugri gjaldmiðils er vandamálið áfram til staðar. Nærtækasta leiðin til að fá nýjan gjaldmiðil er að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og taka upp evru. Nóg er af úrtölumönnum þessa dagana sem segja að allt sé í kalda koli á evrusvæðinu og evran muni brátt heyra sögunni til. Engin ástæða er til að gera lítið úr þeim vanda sem við er að glíma í ýmsum ríkjum sem nota evruna. Það vill þó fara framhjá fólki að vandinn er ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur hallarekstri ríkisins og skuldasöfnun í einstökum ríkjum. Í sumum evruríkjum er ástandið ágætt, til dæmis í Eistlandi þar sem ríkisfjármálin voru tekin föstum tökum og upptaka evrunnar um síðustu áramót hefur að mati Eista sjálfra eflt erlenda fjárfestingu, útflutning og atvinnu. Hvað sem um vanda evrusvæðisins má segja hefur almenningur þar ekki lent í því sama og íbúar krónusvæðisins hér á Íslandi, að húsnæðisskuldir hafi hækkað um tugi prósenta og verðbólgan ætt af stað vegna hruns gjaldmiðilsins. Sérkennilegt er að stjórnmálamenn sem hafa engar lausnir fram að færa í peningamálum vilji nú loka þeirri leið fyrir Íslendingum að eiga kost á nýjum gjaldmiðli í gegnum ESB-aðild. Hvað ef evruríkin leysa vanda sinn og verða komin á lygnan sjó eftir eitt til tvö ár? Viljum við þá vera búin að skella dyrunum í lás? Nær væri fyrir þá sem vilja losna við verðtrygginguna að efna til undirskriftasöfnunar og fara fram á að viðræður við ESB verði kláraðar, þannig að við eigum áfram kost á nýjum gjaldmiðli. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Halldór 30.11.2024 Halldór Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun Skrópað á Alþingi Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun
Tuttugu þúsund hafa skrifað undir áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna um afnám verðtryggingarinnar. Skiljanlega er fólki í nöp við hana; eftir hrun hafa skuldir hækkað um tugi prósenta, greiðslubyrðin þyngzt að sama skapi og lífskjörin versnað sem því nemur. Þó er í raun byrjað á öfugum enda með því að krefjast afnáms verðtryggingarinnar. Undirrót hennar og hið raunverulega vandamál sem við er að etja er ónýtur gjaldmiðill. „Sveigjanleiki“ krónunnar er aðallega niður á við. Það má sjá með einföldu dæmi. Þegar myntbreytingin var gerð 1980 og tvö núll skorin aftan af krónunni eftir margra ára óðaverðbólgu var ein íslenzk króna jafngild einni danskri krónu. Nú, 31 ári síðar, þarf 22 íslenzkar krónur til að kaupa eina danska. Sá sem lánar út peninga, sérstaklega til langs tíma eins og til að mynda lán til húsnæðiskaupa, vill auðvitað fá jafnverðmætar krónur til baka og hann lánaði upphaflega. Verðtryggingin hefur því reynzt ill nauðsyn vegna stöðugrar rýrnunar gjaldmiðilsins. Óvíst er að lántakendur væru betur settir án hennar ef ekkert annað breyttist. Lánveitendur myndu þá tryggja sig fyrir óvissunni með gífurlega háum vöxtum. Verðtryggingin er í rauninni aðeins sjúkdómseinkenni í efnahagslífinu. Sjúkdómurinn sjálfur er ónýtur gjaldmiðill. Án nýs og stöðugri gjaldmiðils er vandamálið áfram til staðar. Nærtækasta leiðin til að fá nýjan gjaldmiðil er að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og taka upp evru. Nóg er af úrtölumönnum þessa dagana sem segja að allt sé í kalda koli á evrusvæðinu og evran muni brátt heyra sögunni til. Engin ástæða er til að gera lítið úr þeim vanda sem við er að glíma í ýmsum ríkjum sem nota evruna. Það vill þó fara framhjá fólki að vandinn er ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur hallarekstri ríkisins og skuldasöfnun í einstökum ríkjum. Í sumum evruríkjum er ástandið ágætt, til dæmis í Eistlandi þar sem ríkisfjármálin voru tekin föstum tökum og upptaka evrunnar um síðustu áramót hefur að mati Eista sjálfra eflt erlenda fjárfestingu, útflutning og atvinnu. Hvað sem um vanda evrusvæðisins má segja hefur almenningur þar ekki lent í því sama og íbúar krónusvæðisins hér á Íslandi, að húsnæðisskuldir hafi hækkað um tugi prósenta og verðbólgan ætt af stað vegna hruns gjaldmiðilsins. Sérkennilegt er að stjórnmálamenn sem hafa engar lausnir fram að færa í peningamálum vilji nú loka þeirri leið fyrir Íslendingum að eiga kost á nýjum gjaldmiðli í gegnum ESB-aðild. Hvað ef evruríkin leysa vanda sinn og verða komin á lygnan sjó eftir eitt til tvö ár? Viljum við þá vera búin að skella dyrunum í lás? Nær væri fyrir þá sem vilja losna við verðtrygginguna að efna til undirskriftasöfnunar og fara fram á að viðræður við ESB verði kláraðar, þannig að við eigum áfram kost á nýjum gjaldmiðli.