Fótskriða á hálu svelli Þorsteinn Pálsson skrifar 5. júlí 2014 07:00 Sjávarútvegsráðherra hefur fundið fyrir því í vikunni að svellið er ekki besti staður til að vera á þegar ákvarðanir eru teknar. Umræðurnar um flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar benda ótvírætt til þess að ráðherranum hafi skrikað fótur þegar sú ákvörðun var tekin. Segja má að sjávarútvegsráðherra hafi þessa daga fengið að reyna á eigin skinni hver munurinn er á því að vanda ákvarðanir og byggja þær á málefnalegum forsendum eða taka þær með fótskriðu á hálu svelli. Á sama tíma og tilkynningin um flutning Fiskistofu var birt tók ráðherrann aðra ákvörðun um heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár. Viðbrögðin við henni voru allt önnur. Sú ákvörðun er sannarlega með stærri efnahagslegu ráðstöfunum ár hvert. Þar eru í húfi heildarhagsmunir þjóðarbúskaparins, atvinna í einstökum byggðarlögum og afkoma sjávarútvegsfyrirtækja. Átök um svo stórt mál eru því í sjálfu sér eðlileg. En svo bregður við að heildaraflaákvörðunin gengur þegjandi og hljóðalaust fyrir sig. Skýringin er sú að hún er í einu og öllu byggð á vísindalegum niðurstöðum og áður mótaðri pólitískri langtímastefnu. Þrátt fyrir alla hagsmunatogstreitu stóð ráðherrann ekki á neinu svelli þegar hann komst að niðurstöðu í því máli. Miklu minna mál á þjóðhagslegan mælikvarða veldur aftur á móti gríðarlegu írafári. Þetta segir þá sögu eina að þó að ákvarðanir snerti hagsmuni tiltölulega fárra þarf að finna þeim málefnalegar undirstöður rétt eins og þeim stærri. Ráðherrann gætti sín ekki á því.Skyldurnar við landsbyggðina Hugmyndir um að ríkið hafi skyldum að gegna við staðsetningu opinberra starfa á landsbyggðinni geta haft margt til síns ágætis. En þær geta ekki vikið til hliðar málefnalegum sjónarmiðum sem lúta að faglegri þekkingu og hagsmunum starfsfólks í rótgrónum stofnunum og atriðum sem lúta að þjónustu við þá sem samskipti eiga við opinberar stofnanir. Augljóst er að auðveldara getur verið að taka ákvarðanir um að setja nýja starfsemi á vegum ríkisins á fót utan höfuðborgarsvæðisins. Það er þó ekki einhlítt. Þegar Fiskistofu var ýtt úr vör á sínum tíma var verið að sameina stjórnsýsluverkefni sem ýmist höfðu heyrt undir ráðuneytið eða verið vistuð annars staðar. Þá var því gefinn nokkur gaumur hvort tækt væri að staðsetja nýja stofnun úti á landsbyggðinni. Það þótti ekki rétt. Ástæðurnar voru einkum þær að slíkur flutningur starfa myndi raska um of stöðu og högum fólks sem þegar vann að þessum verkefnum undir öðrum höttum. Jafnframt efuðust margir um að hagsmunum þeirra sem samskipti eiga við stofnunina væri best borgið með þeim hætti. Tæknibyltingin hefur í einhverjum mæli dregið úr gildi seinni röksemdarinnar en sú fyrri stendur. Opinberar stofnanir þurfa lagalegar undirstöður og fjármagn. Markmið þeirra er þjónusta en ekki atvinnusköpun. En það er fólk sem gerir þær að virkum veruleika í samfélaginu. Þegar ákvarðanir eru teknar án þess að taka þá einföldu staðreynd með í reikninginn er hætta á að illa fari. Þar með er ekki sagt að illa ígrundaðar ákvarðanir af þessu tagi geti ekki á endanum gengið upp. En aðrar leiðir að sama marki kunna að vera skynsamlegri og hafa í för með sér minni sóun þekkingar og fjármuna.Skyndibitapólitík Standi vilji manna í raun og veru til þess að færa opinber störf út á landsbyggðina er hyggilegt að beina augunum að viðfangsefnum sem styrkja innviðina í byggðunum. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem standa nær þeim sem þjónustunnar eiga að njóta, er til að mynda rökréttur kostur. Með því er heldur ekki verið að gera eitt fyrir þetta sveitarfélag í dag og eitthvað annað fyrir hitt á morgun. Tæknibyltingin hefur líka auðveldað flutning á ýmsum verkefnum sem vinna má hvar sem er án þess að það bitni á þjónustu eða hafi afgerandi áhrif á hag og stöðu þess fólks sem fyrir hefur reynslu og þekkingu og sanngjarnt er að taka tillit til. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að flytja Fiskistofu ber á hinn bóginn öll einkenni þess að vera eins konar pólitísk skyndibitaaðgerð. Hún er ekki hluti af vel undirbúnum skipulagsbreytingum. Ákvörðunin getur vakið fögnuð á Akureyri en hún bætir ekki þjónustuna við þá sem búa á öðrum landshornum. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig Framsókn er að færa sig til í pólitíkinni. Skyndiákvarðanir eða pólitísk púðurskot sem vekja eiga stundarvinsældir hjá afmörkuðum hópum verða smám saman fyrirferðarmeiri um leið og heildarsýn og langtímamarkmið víkja. Þó að skyndibitapólitík af þessu tagi sé ekkert nýmæli og einkenni oftar litla flokka en stóra er áhyggjuefni ef engin pólitísk þungavigt er lengur til að spyrna á móti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Sjávarútvegsráðherra hefur fundið fyrir því í vikunni að svellið er ekki besti staður til að vera á þegar ákvarðanir eru teknar. Umræðurnar um flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar benda ótvírætt til þess að ráðherranum hafi skrikað fótur þegar sú ákvörðun var tekin. Segja má að sjávarútvegsráðherra hafi þessa daga fengið að reyna á eigin skinni hver munurinn er á því að vanda ákvarðanir og byggja þær á málefnalegum forsendum eða taka þær með fótskriðu á hálu svelli. Á sama tíma og tilkynningin um flutning Fiskistofu var birt tók ráðherrann aðra ákvörðun um heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár. Viðbrögðin við henni voru allt önnur. Sú ákvörðun er sannarlega með stærri efnahagslegu ráðstöfunum ár hvert. Þar eru í húfi heildarhagsmunir þjóðarbúskaparins, atvinna í einstökum byggðarlögum og afkoma sjávarútvegsfyrirtækja. Átök um svo stórt mál eru því í sjálfu sér eðlileg. En svo bregður við að heildaraflaákvörðunin gengur þegjandi og hljóðalaust fyrir sig. Skýringin er sú að hún er í einu og öllu byggð á vísindalegum niðurstöðum og áður mótaðri pólitískri langtímastefnu. Þrátt fyrir alla hagsmunatogstreitu stóð ráðherrann ekki á neinu svelli þegar hann komst að niðurstöðu í því máli. Miklu minna mál á þjóðhagslegan mælikvarða veldur aftur á móti gríðarlegu írafári. Þetta segir þá sögu eina að þó að ákvarðanir snerti hagsmuni tiltölulega fárra þarf að finna þeim málefnalegar undirstöður rétt eins og þeim stærri. Ráðherrann gætti sín ekki á því.Skyldurnar við landsbyggðina Hugmyndir um að ríkið hafi skyldum að gegna við staðsetningu opinberra starfa á landsbyggðinni geta haft margt til síns ágætis. En þær geta ekki vikið til hliðar málefnalegum sjónarmiðum sem lúta að faglegri þekkingu og hagsmunum starfsfólks í rótgrónum stofnunum og atriðum sem lúta að þjónustu við þá sem samskipti eiga við opinberar stofnanir. Augljóst er að auðveldara getur verið að taka ákvarðanir um að setja nýja starfsemi á vegum ríkisins á fót utan höfuðborgarsvæðisins. Það er þó ekki einhlítt. Þegar Fiskistofu var ýtt úr vör á sínum tíma var verið að sameina stjórnsýsluverkefni sem ýmist höfðu heyrt undir ráðuneytið eða verið vistuð annars staðar. Þá var því gefinn nokkur gaumur hvort tækt væri að staðsetja nýja stofnun úti á landsbyggðinni. Það þótti ekki rétt. Ástæðurnar voru einkum þær að slíkur flutningur starfa myndi raska um of stöðu og högum fólks sem þegar vann að þessum verkefnum undir öðrum höttum. Jafnframt efuðust margir um að hagsmunum þeirra sem samskipti eiga við stofnunina væri best borgið með þeim hætti. Tæknibyltingin hefur í einhverjum mæli dregið úr gildi seinni röksemdarinnar en sú fyrri stendur. Opinberar stofnanir þurfa lagalegar undirstöður og fjármagn. Markmið þeirra er þjónusta en ekki atvinnusköpun. En það er fólk sem gerir þær að virkum veruleika í samfélaginu. Þegar ákvarðanir eru teknar án þess að taka þá einföldu staðreynd með í reikninginn er hætta á að illa fari. Þar með er ekki sagt að illa ígrundaðar ákvarðanir af þessu tagi geti ekki á endanum gengið upp. En aðrar leiðir að sama marki kunna að vera skynsamlegri og hafa í för með sér minni sóun þekkingar og fjármuna.Skyndibitapólitík Standi vilji manna í raun og veru til þess að færa opinber störf út á landsbyggðina er hyggilegt að beina augunum að viðfangsefnum sem styrkja innviðina í byggðunum. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem standa nær þeim sem þjónustunnar eiga að njóta, er til að mynda rökréttur kostur. Með því er heldur ekki verið að gera eitt fyrir þetta sveitarfélag í dag og eitthvað annað fyrir hitt á morgun. Tæknibyltingin hefur líka auðveldað flutning á ýmsum verkefnum sem vinna má hvar sem er án þess að það bitni á þjónustu eða hafi afgerandi áhrif á hag og stöðu þess fólks sem fyrir hefur reynslu og þekkingu og sanngjarnt er að taka tillit til. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að flytja Fiskistofu ber á hinn bóginn öll einkenni þess að vera eins konar pólitísk skyndibitaaðgerð. Hún er ekki hluti af vel undirbúnum skipulagsbreytingum. Ákvörðunin getur vakið fögnuð á Akureyri en hún bætir ekki þjónustuna við þá sem búa á öðrum landshornum. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig Framsókn er að færa sig til í pólitíkinni. Skyndiákvarðanir eða pólitísk púðurskot sem vekja eiga stundarvinsældir hjá afmörkuðum hópum verða smám saman fyrirferðarmeiri um leið og heildarsýn og langtímamarkmið víkja. Þó að skyndibitapólitík af þessu tagi sé ekkert nýmæli og einkenni oftar litla flokka en stóra er áhyggjuefni ef engin pólitísk þungavigt er lengur til að spyrna á móti.