Tími til að rífa kjaft Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 16. maí 2015 07:00 Eitt sinn seldi ég grískum bónda mótorfák. Var mikill völlur á honum og samningaviðræðurnar því fjörlegar. Við komumst svo að samkomulagi um að hann greiddi 40 þúsund drökmur fyrir. Þá hrifsar hann 30 þúsund úr vasanum, réttir mér og býst til brottferðar. „Eh, við sögum 40 þúsund,“ sagði ég þá. Hann lítur þá á mig með vandlætingu og segir: „Þú ert ekki fyrr kominn með pening en þú byrjar að rífa kjaft.“ Hann var svo sannfærandi að eitt andartak fékk ég sektarkennd fyrir framhleypnina þar sem ég stóð með útreidda seðla eins og blómvönd. Þetta er eitt albesta bragðið í bókinni þegar maður vill komast upp með óréttlæti. Og það klikkar ekki, ósvífnin lamar andstæðinginn. Eitt almesta áhyggjuefni heimsins í dag er ójöfnuður en ég held að allir geti verið sammála um að hann er eins og sýking á samfélögum þar sem hann er mikill. Afleiðingarnar oftast aukið ofbeldi, eymd, siðleysi og óöryggi svo eitthvað sé nefnt. Metnaður yfirvalda ætti að vera á þá lund að draga úr honum en á Íslandi er stjórnin á annarri vegferð. Í sjávarútvegi er sífellt verið að hlaða meiru á færri hendur. Stjórnin lækkar líka veiðigjaldið, afnemur auðlegðarskattinn en hækkar skatt á matvæli og komugjaldið á heilsugæslu og ekki þarf svo að undra að svona stjórnvöld telji sig hafa lítið ráðrúm til að leggja fátækum þjóðum lið. Stórfyrirtæki fá líka hér prísa sem pöpullinn má helst ekki frétta af og fjármálaráðuneytið blessar bónusana sem áður afvegaleiddu þessa þjóð. Baráttan virðist líka ætla að ná tilætluðum árangri því eitt prósent ríkustu skattgreiðenda á nú þegar um fjórðung af auði alls landsmanna. Þú sem ert utan við þessa skjaldborg og berst fyrir bættum kjörum færð hins vegar að kenna á bragði gríska bóndans sem stjórnin beitir af krafti. Þú ert að valda sýkingunni sem fer út í verðbólguna, þú ert að ögra stöðugleikanum: ÞÚ ert að keyra allt um koll! Þjóðin hefur síðustu ár áttað sig á bolabragðinu og brugðist við með því að kjósa í auknum mæli pönkara til áhrifa. Má þar nefna Jón Gnarr, Birgittu Jónsdóttur og Óttar Proppé. Það er líka kominn tími til að rífa kjaft. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið Halldór 30.11.2024 Halldór Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun Skrópað á Alþingi Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun
Eitt sinn seldi ég grískum bónda mótorfák. Var mikill völlur á honum og samningaviðræðurnar því fjörlegar. Við komumst svo að samkomulagi um að hann greiddi 40 þúsund drökmur fyrir. Þá hrifsar hann 30 þúsund úr vasanum, réttir mér og býst til brottferðar. „Eh, við sögum 40 þúsund,“ sagði ég þá. Hann lítur þá á mig með vandlætingu og segir: „Þú ert ekki fyrr kominn með pening en þú byrjar að rífa kjaft.“ Hann var svo sannfærandi að eitt andartak fékk ég sektarkennd fyrir framhleypnina þar sem ég stóð með útreidda seðla eins og blómvönd. Þetta er eitt albesta bragðið í bókinni þegar maður vill komast upp með óréttlæti. Og það klikkar ekki, ósvífnin lamar andstæðinginn. Eitt almesta áhyggjuefni heimsins í dag er ójöfnuður en ég held að allir geti verið sammála um að hann er eins og sýking á samfélögum þar sem hann er mikill. Afleiðingarnar oftast aukið ofbeldi, eymd, siðleysi og óöryggi svo eitthvað sé nefnt. Metnaður yfirvalda ætti að vera á þá lund að draga úr honum en á Íslandi er stjórnin á annarri vegferð. Í sjávarútvegi er sífellt verið að hlaða meiru á færri hendur. Stjórnin lækkar líka veiðigjaldið, afnemur auðlegðarskattinn en hækkar skatt á matvæli og komugjaldið á heilsugæslu og ekki þarf svo að undra að svona stjórnvöld telji sig hafa lítið ráðrúm til að leggja fátækum þjóðum lið. Stórfyrirtæki fá líka hér prísa sem pöpullinn má helst ekki frétta af og fjármálaráðuneytið blessar bónusana sem áður afvegaleiddu þessa þjóð. Baráttan virðist líka ætla að ná tilætluðum árangri því eitt prósent ríkustu skattgreiðenda á nú þegar um fjórðung af auði alls landsmanna. Þú sem ert utan við þessa skjaldborg og berst fyrir bættum kjörum færð hins vegar að kenna á bragði gríska bóndans sem stjórnin beitir af krafti. Þú ert að valda sýkingunni sem fer út í verðbólguna, þú ert að ögra stöðugleikanum: ÞÚ ert að keyra allt um koll! Þjóðin hefur síðustu ár áttað sig á bolabragðinu og brugðist við með því að kjósa í auknum mæli pönkara til áhrifa. Má þar nefna Jón Gnarr, Birgittu Jónsdóttur og Óttar Proppé. Það er líka kominn tími til að rífa kjaft.