Sykurfjallið Bergur Ebbi skrifar 4. mars 2016 07:00 Viðbættur sykur. Hvað er það? Er ekki kók alltaf tekið sem dæmi? 10,6 grömm í hverjum hundrað millilítrum sem þýðir 106 grömm í hverjum lítra. En við skiljum ekki alltaf svoleiðis tölur þannig að Lýðheilsustöð hefur einfaldað þetta fyrir okkur og og talar um 106 sykurmola í tveggja lítra flösku. Hundrað og sex molar! Það yrði fimmtíu cm hár turn ef honum væri staflað upp. Það þýðir að hörðustu kókistar, þeir sem drekka tæpan lítra á dag, eru að drekka sykurmolastæðu sem er ígildi Hallgrímskirkjuturns á hæð árlega. Þetta er sérvalið dæmi því Hallgrímur Pétursson var algjörlega sykurvana maður. Hann lést árið 1674 og smakkaði aldrei unninn sykur. Á 17. öld þurfti fólk að totta rófur til að fá hið minnsta sykurbragð. Það var þó ekki í boði á Íslandi því hér hófst ekki ræktun á rófum fyrr en á 19. öld. Auk þess eru rófur varla til þess fallnar að koma fólki í sykurvímu. Í rófum er svo mikið af trefjum og leiðindum að totta þarf þær af áfergju til að komast nálægt því að finna bragð af sykri.Historía pínunnar Ég hugsa stundum til Hallgríms í Saurbænum þar sem hann orti um þjáningu Krists. Hann vildi allt fyrir lambið gera og tók lönguföstu alvarlega. En hvað nákvæmlega var hann að neita sér um? Það var hvorki til klám né sykur og enn þá tvær aldir í rófutott. Nútímamaðurinn ætti ekki erfitt með að fylla 50 sálma af lýsingum á þjáningarfullum lífsstíl 17. aldar Íslendings. Það yrði sannkölluð „Historia pínunnar“. En það borgar sig ekki að píslgera Hallgrím. Hann talaði ekki vel um gyðinga í sálmum sínum og maður gæti fengið Simon Wiesenthal-stofnunina upp á móti sér ef maður upphefur hans pínu. Það eru reyndar ýkjur. Ísraelskir gáfumenn hafa margt betra við tímann að gera en að elta uppi fólk sem lofsyngur sálmaskáld sem töluðu niður gyðinga í ljóðum á 17.?öld. En það yrði örugglega ekki vinsælt. Það er ekki stemning fyrir því. Vinsælt. Stemning. Stimplum þetta aðeins inn áður en við höldum áfram.Kókaín-rotturnar Það er hálf sorglegt að hugsa til þess að við séum háð einhverju sem fólk gat svo auðveldlega lifað án öldum saman. Það er sagt að sykur sé meira ávanabindandi en kókaín. Þetta var sannað með tilraun á rottum, 94% þeirra völdu sykur framyfir kókaín. Það er samt gott að vita til þess að 6% rottanna hafi valið kókaínið. Það hefði litið mjög illa út ef allar rotturnar hefðu valið sykurinn – við gefum nú einu sinni börnum sykur. Ég hugsa stundum til kókaín-rottanna. Þær eru vísast dauðar núna en það hefði mátt gera eitthvað fyrir þær sem þakklætisvott. Ég er nánast hissa á að gosdrykkjaframleiðendur hafi ekki nýtt tækifærið og gefið þessum rottum eitthvað, til dæmis nýtt búr eða hamstrahjól. Það hefði litið vel út á Facebook-síðunni, skapað læk og sýnt að fyrirtækin eru góðir gæjar sem víla ekki fyrir sér að hampa kókaínrottum – styðja minnimáttar og þá sem synda á móti straumnum. Við hlæjum stundum að læk-leikjum fyrirtækja. Það er broslegt að fylgjast með hárgreiðslustofum byrja með Facebook-síðu. Fyrstu tuttugu sem læka síðuna fá 50% afslátt á litun eða eitthvað álíka hallærislegt. En hláturinn lifir ekki lengi – allavega ekki hjá mér. Ég er bara einstaklingur, sæmilega vel liðinn af fjölskyldu og vinum, en samt held ég óumbeðinn úti mínum prívat læk-leik alla tíma sólarhringsins, alla daga ársins. Við erum sum orðin háð þessu. Það skiptir máli að það sem við segjum sé vel líkað, að skoðanir okkar séu ekki óvinsælar, að það sem við lesum, horfum á og njótum fái staðfestingu frá hinum.Paradísarmissir Titill þessa pistils er ekki vísun í sykurinn í kókinu heldur strákinn í hettupeysunni í Menlo Park í Kaliforníu. Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook. Hér er ekki verið að persónugera hluti – þvert á móti – sykurfjallinu er ætlað að vera safnheiti yfir þá menningu sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur samfélagsmiðla. Fíknina í viðurkenningu. Fíknina í eitt lítið korn í viðbót sem kallar á annað korn og að lokum þúsund korn sem samt eru bara lítill sykurmoli og jafnvel þó við fáum milljón mola þá verðum við aldrei södd. Samt erum við enn að totta rófur. Sykurfjallið hefur ekki enn birst okkur í allri sinni dýrð en ég get sagt ykkur að það er svakalegt. Fyrr í þessum pistli hyllti ég rotturnar hugrökku sem völdu kókaín fram yfir sykur. Þær voru um það bil ein af hverjum tuttugu. En sykurfjallið býður ekki upp á slíka tölfræði. Það vilja allir vera líkaðir. Það vilja allir vera með í stemningunni. Það þarf að bjóða upp á eitthvað sterkara en kókaín eða coca-cola til að stýra huga okkar frá því að fá korn-skammtinn úr fjallinu. Þessi pistill er um samhengi og samanburð. Eitthvað ræddi ég um þjáningu fyrr í þessum pistli. Fíkn er þjáning. Bara djöfulsins pest og þjáning. Hér eru ekki boðuð nein sannindi, engin nýmæli – þessu er bara ætlað að setja hluti í samhengi. Mark Zuckerberg og læk-takkinn hans er áhrifameiri en atómsprengjan, áhrifameiri en rokktónlist, áhrifameiri en nokkurt eiturlyf, glassúr eða góðmeti. Þetta er manífestó. Yfirlýsing um vanmátt, kannski líka smá aðdáun, en einkum vanmátt og vanþóknun. Það er ekki fyndinn endir á þessum pistli. Alls ekki. Lesið Passíusálmana. Ekki monta ykkur af því. Blaðið bara í þeim og grípið hugsanir hér og þar. Ef eitthvað fer af stað í heilabúinu grípið þá rakleiðis Paradísarmissi eftir Milton. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Halldór 30.11.2024 Halldór Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skrópað á Alþingi Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun
Viðbættur sykur. Hvað er það? Er ekki kók alltaf tekið sem dæmi? 10,6 grömm í hverjum hundrað millilítrum sem þýðir 106 grömm í hverjum lítra. En við skiljum ekki alltaf svoleiðis tölur þannig að Lýðheilsustöð hefur einfaldað þetta fyrir okkur og og talar um 106 sykurmola í tveggja lítra flösku. Hundrað og sex molar! Það yrði fimmtíu cm hár turn ef honum væri staflað upp. Það þýðir að hörðustu kókistar, þeir sem drekka tæpan lítra á dag, eru að drekka sykurmolastæðu sem er ígildi Hallgrímskirkjuturns á hæð árlega. Þetta er sérvalið dæmi því Hallgrímur Pétursson var algjörlega sykurvana maður. Hann lést árið 1674 og smakkaði aldrei unninn sykur. Á 17. öld þurfti fólk að totta rófur til að fá hið minnsta sykurbragð. Það var þó ekki í boði á Íslandi því hér hófst ekki ræktun á rófum fyrr en á 19. öld. Auk þess eru rófur varla til þess fallnar að koma fólki í sykurvímu. Í rófum er svo mikið af trefjum og leiðindum að totta þarf þær af áfergju til að komast nálægt því að finna bragð af sykri.Historía pínunnar Ég hugsa stundum til Hallgríms í Saurbænum þar sem hann orti um þjáningu Krists. Hann vildi allt fyrir lambið gera og tók lönguföstu alvarlega. En hvað nákvæmlega var hann að neita sér um? Það var hvorki til klám né sykur og enn þá tvær aldir í rófutott. Nútímamaðurinn ætti ekki erfitt með að fylla 50 sálma af lýsingum á þjáningarfullum lífsstíl 17. aldar Íslendings. Það yrði sannkölluð „Historia pínunnar“. En það borgar sig ekki að píslgera Hallgrím. Hann talaði ekki vel um gyðinga í sálmum sínum og maður gæti fengið Simon Wiesenthal-stofnunina upp á móti sér ef maður upphefur hans pínu. Það eru reyndar ýkjur. Ísraelskir gáfumenn hafa margt betra við tímann að gera en að elta uppi fólk sem lofsyngur sálmaskáld sem töluðu niður gyðinga í ljóðum á 17.?öld. En það yrði örugglega ekki vinsælt. Það er ekki stemning fyrir því. Vinsælt. Stemning. Stimplum þetta aðeins inn áður en við höldum áfram.Kókaín-rotturnar Það er hálf sorglegt að hugsa til þess að við séum háð einhverju sem fólk gat svo auðveldlega lifað án öldum saman. Það er sagt að sykur sé meira ávanabindandi en kókaín. Þetta var sannað með tilraun á rottum, 94% þeirra völdu sykur framyfir kókaín. Það er samt gott að vita til þess að 6% rottanna hafi valið kókaínið. Það hefði litið mjög illa út ef allar rotturnar hefðu valið sykurinn – við gefum nú einu sinni börnum sykur. Ég hugsa stundum til kókaín-rottanna. Þær eru vísast dauðar núna en það hefði mátt gera eitthvað fyrir þær sem þakklætisvott. Ég er nánast hissa á að gosdrykkjaframleiðendur hafi ekki nýtt tækifærið og gefið þessum rottum eitthvað, til dæmis nýtt búr eða hamstrahjól. Það hefði litið vel út á Facebook-síðunni, skapað læk og sýnt að fyrirtækin eru góðir gæjar sem víla ekki fyrir sér að hampa kókaínrottum – styðja minnimáttar og þá sem synda á móti straumnum. Við hlæjum stundum að læk-leikjum fyrirtækja. Það er broslegt að fylgjast með hárgreiðslustofum byrja með Facebook-síðu. Fyrstu tuttugu sem læka síðuna fá 50% afslátt á litun eða eitthvað álíka hallærislegt. En hláturinn lifir ekki lengi – allavega ekki hjá mér. Ég er bara einstaklingur, sæmilega vel liðinn af fjölskyldu og vinum, en samt held ég óumbeðinn úti mínum prívat læk-leik alla tíma sólarhringsins, alla daga ársins. Við erum sum orðin háð þessu. Það skiptir máli að það sem við segjum sé vel líkað, að skoðanir okkar séu ekki óvinsælar, að það sem við lesum, horfum á og njótum fái staðfestingu frá hinum.Paradísarmissir Titill þessa pistils er ekki vísun í sykurinn í kókinu heldur strákinn í hettupeysunni í Menlo Park í Kaliforníu. Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook. Hér er ekki verið að persónugera hluti – þvert á móti – sykurfjallinu er ætlað að vera safnheiti yfir þá menningu sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur samfélagsmiðla. Fíknina í viðurkenningu. Fíknina í eitt lítið korn í viðbót sem kallar á annað korn og að lokum þúsund korn sem samt eru bara lítill sykurmoli og jafnvel þó við fáum milljón mola þá verðum við aldrei södd. Samt erum við enn að totta rófur. Sykurfjallið hefur ekki enn birst okkur í allri sinni dýrð en ég get sagt ykkur að það er svakalegt. Fyrr í þessum pistli hyllti ég rotturnar hugrökku sem völdu kókaín fram yfir sykur. Þær voru um það bil ein af hverjum tuttugu. En sykurfjallið býður ekki upp á slíka tölfræði. Það vilja allir vera líkaðir. Það vilja allir vera með í stemningunni. Það þarf að bjóða upp á eitthvað sterkara en kókaín eða coca-cola til að stýra huga okkar frá því að fá korn-skammtinn úr fjallinu. Þessi pistill er um samhengi og samanburð. Eitthvað ræddi ég um þjáningu fyrr í þessum pistli. Fíkn er þjáning. Bara djöfulsins pest og þjáning. Hér eru ekki boðuð nein sannindi, engin nýmæli – þessu er bara ætlað að setja hluti í samhengi. Mark Zuckerberg og læk-takkinn hans er áhrifameiri en atómsprengjan, áhrifameiri en rokktónlist, áhrifameiri en nokkurt eiturlyf, glassúr eða góðmeti. Þetta er manífestó. Yfirlýsing um vanmátt, kannski líka smá aðdáun, en einkum vanmátt og vanþóknun. Það er ekki fyndinn endir á þessum pistli. Alls ekki. Lesið Passíusálmana. Ekki monta ykkur af því. Blaðið bara í þeim og grípið hugsanir hér og þar. Ef eitthvað fer af stað í heilabúinu grípið þá rakleiðis Paradísarmissi eftir Milton.