BRNR ótrúlegur hjá Ármanni gegn Atlantic

Snorri Rafn Hallsson skrifar
brnr

Ármann og Atlantic mæltu sér mót í Anubis og þó Atlantic ynni hnífalotuna valdi liðið að byrja í sókn. Liðin skiptust á mönnum í upphafi skammbyssulotunnar og Atlantic kom sprengjunni fyrir. Hundzi og Ofvirkur náðu hins vegar að fella Bjarna og LeFluff og vinna lotuna. Atlantic sparaði í annarri lotu svo Ármann átti auðvelt með þá, en eftir það tókst Atlantic að setja saman beittan sóknarleik. Pandaz var einstaklega hittinn og braut Atlantic leið inn á sprengjusvæðin þar sem góðar fléttur komu liðinu í 5–2.

Ármann breytti þá um aðferð, Ofvirkur og Vargur munduðu báðir vappa á BRNR lék á als oddi. Lásu þeir vel í leik Atlantic og náðu að skella í lás með öruggum lotum og margföldum fellum frá BRNR og Ofvirkum. Ármann komst þannig í 7–5 áður en liðin skiptu með sér síðustu lotunum. 

Staðan í hálfleik: Ármann 8 – 7 Atlantic

Leikmenn Atlantic voru hvergi nærri hættir og náðu forystunni aftur í upphafi síðari hálfleiks. Tóku þeir framarlegar stöður snemma í lotunum til að koma Ármanni á afturlappirnar. Stórhættulegar handsprengjur héldu aftur af Ármanni auk þess sem einvígin á sprengjusvæðunum féllu með Atlantic. Eftir sex lotur var staðan því orðin 12–9 fyrir Atlantic.

Einhverju þurfti Ármann þá að brydda upp á til að koma sér aftur inn í leikinn. Liðið tók leikhlé til að ráða ráðum sínum og kom tvíeflt til baka. Leikmenn liðsins fóru þéttara um kortið og gátu þannig stutt betur hvor við annan. Þreföld fella frá Ofvirkum minnkaði muninn í 12–10 og BRNR bjargaði næstu lotu fyrir horn 1 gegn 2 á meðan sprengjan tikkaði. Fjárhagur Atlantic var þá orðinn slakur og lentu þeir í miklu basli. Ármann virtist vera með öll svörin á reiðum höndum, jafnvel þótt Atlantic ætti góðar opnanir.

Endurtók Ármann því frábæra endurkomu sína gegn Dusty fyrr á tímabilinu. BRNR var hreint út sagt ótrúlegur, hafði rofið 30-fellu múrinn strax í 24. lotu og með Ofvirkan í fantaformi sér við hlið brutu þeir Atlantic algjörlega á bak aftur. Ofvirkur rak svo smiðshöggið á sigurinn í 28. lotu þegar hann felldi LeFluff.

Lokastaða: Ármann 16 – 12 Atlantic

Næstu leikir:

15. umferð Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO verður leikin í heild sinni á Ofurlaugardegi 21. janúar og er dagskráin eftirfarandi:

  • Atlantic – Dusty, laugardaginn 21/1 kl. 17:00
  • FH – Breiðablik, laugardaginn 21/1 kl. 18:00
  • Ármann – LAVA, laugardaginn 21/1 kl. 19:00
  • Þór – TEN5ION, laugardaginn 21/1 kl. 20:00
  • Viðstöðu – Fylkir, laugardaginn 21/1 kl. 21:00

Sýnt verður frá leikjunum í beinni á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir