Satt og logið um vistheimilið að Varpholti/Laugalandi Ingjaldur Arnþórsson og Áslaug Herdís Brynjarsdóttir skrifa 14. október 2024 09:02 Inngangur Á árunum 1997-2007 rak ég ásamt þáverandi eiginkonu minni Áslaugu Herdísi Brynjarsdóttur meðferðarheimili fyrir stúlkur með fjölþættan vanda. Heimilið var fyrst rekið að Varpholti í Hörgárbyggð, en síðar að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Það var rekið samkvæmt þjónustusamningi við Barnaverndarstofu (héreftir skrifað BVS) sem var ábyrgt fyrir utanumhaldið, innlögn vistbarna og eftirliti með meðferðarheimilinu. Þetta var áhugaverð reynsla og oft gefandi en starfinu fylgdi líka mikið álag. Í nokkur skipti komu upp atvik þar sem við vorum óviss um hvernig við ættum að bregðast við aðstæðum. Slík tilvik koma upp í öllu meðferðarstarfi enda var forsendan fyrir rekstri heimila af þessu tagi úrræðaleysi heimila, skóla og barnaverndarkerfisins. Aldrei varð álagið af því að sinna erfiðum unglingsstúlkum þó neitt í líkingu við það álag sem fylgir þeim ærumeiðingum sem við Áslaug höfum setið undir síðustu árin. Meiðyrðin hafa að nokkru leyti beinst að eftirlitisaðilum líka en fyrst og fremst að mér og Áslaugu. Meðal þess sem haldið hefur verið fram um Varpholt/Laugaland er eftirfarandi: Að ekkert raunverulegt eftirlit hafi verið með heimilinu enda hafi eftirlitsaðilar verið persónulegir vinir forstöðuhjónanna. Að stúlkurnar hafi ekkert getað leitað vegna þess harðræðis sem þær bjuggu við á heimilinu því fagfólk og eftirlitsaðilar hafi lekið trúnaðarupplýsingum í forstöðumann. Að starfsemin hafi grundvallast á annarlegum siðferðis- og trúarviðhorfum. M.a. hafi stúlkur sem vistaðar voru hjá okkur, verið sendar til kvensjúkdómalæknis í þeim tilgangi að athuga hvort þær væru hreinar meyjar. Einnig hafi stúlkunum verið gert að stunda samkomur í Hvítasunnukirkjunni. Að ég, forstöðumaðurinn, hafi beitt viststúlkur líkamlegu ofbeldi, m.a. á ég að hafa barið þær, að ég hafi dregið stúlkur á hárinu, dregið þær berfættar eftir malarvegi, að unglingur sem strauk heim til sín hafi komið sundurskorinn frá okkur þannig að það þurfti að sauma skurðina, hent stúlkum niður stiga, ekki einu sinni heldur oft og þrengt að öndunarvegi þeirra. Að þær hafi þurft að vera í einangrun á herbergi sínu allt að tvær vikur, og að tvær stúlkur hafa þurft að sofa á milli forstöðuhjónanna í refsingaskini og að þær hafi verið viktaðar alla föstudaga, svo fátt eitt sé nefnt. Að stúlkunar hafi verið hræddar til hlýðni með öskrum og hótunum og að við höfum svívirt þær í orðum, m.a. með því að kalla þær samkynhneigðar, hórur, druslur, tíkur og illa innrættar. Þá er því haldið fram að við höfum réttlætt ofbeldi og glæpi gegn skjólstæðingum okkar. M.a. eigum við að hafa dregið þær sjálfar til ábyrgðar fyrir kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir. Að meðferðaraðferðir hafi einkennst af andlegu ofbeldi, þ.á.m. mjög ströngum reglum og niðurbrjótandi þrepakerfi og að haldnir hafi verið fundir þar sem ein stúlka í einu var tekin fyrir og niðurlægð í návist hópsins. Að stúlkur sem misstigu sig hafi sætt óvenjulegum og ómannúðlegum refsingum. M.a. að sérstakur klæðnaður hafi verið notaður til að niðurlægja þær sem sættu viðurlögum vegna brota á húsreglum. Einnig að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við stúlkur sem væru í mótþróa. Að stúlkunar hafi verið beittar félagslegri einangrun og tengsl þeirra við fjölskyldur og vini rofin. Foreldrum hafi verið meinaður aðgangur að heimilinu, stúlkunum hafi verið bannað að tala við foreldra sína nema símtöl þeirra væru hlustuð og sumum bannað að fara heim í fríum. Ekkert af þessu er satt. Aftur á móti sjá þeir sem til þekkja af hvaða rótum þessar sögur eru runnar. Í meðförum meintra þolenda verður einn flugufótur að skrímslinu úr kvikmynd David Cronenberg, “The Fly” frá árinu 1986. Fjölmiðlar taka lyginni fagnandi enda bera fréttamenn ekki ábyrgð á því sem þeir hafa eftir öðrum. Í okkar tilviki gekk þetta svo langt að stofnun á vegum ríkisins gaf út opinbera skýrslu þar sem brotið var gegn persónuverndarlögum. Persónuvernd sá ástæðu til að leggja bann við birtingu hennar. Það dugði þó síður en svo til þess að kveða niður skipulagða rógsherferð gegn okkur. Hvenær á maður að svara fyrir sig? Sú rógsherferð sem staðið hefur yfir á fjórða ár gegn okkur Áslaugu, er að því leyti sérstök að stofnun á vegum ríkisins, þ.e. Gæða og eftirlitsnefnd velferðarmála tók þátt í að dreifa rógburðinum með útgáfu fyrrnefndrar skýrslu sem stóðst ekki lágmarkskröfu um fagleg vinnubrögð. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem við verðum fyrir opinberum ærumeiðingum og öðrum brotum gegn friðhelgi einkalífs okkar. Árið 2009 voru Áslaugu dæmdar miskabætur vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem runnin var undan rifjum bróður míns sem í áraraðir hefur haft horn í síðu minni. Enginn af fyrrnefndum aðilum hafði þó fyrir því að kynna sér hina hlið málsins, hvorki hjá okkur, starfsfólki eða öðrum þeim sem umgengust vistunglingana á hverjum degi. Hvorugt okkar Áslaugar hefur svarað þeim ásökunum sem við höfum setið undir síðustu árin fyrr en nú. Við höfum auðvitað rætt það hvernig við ættum að bregðast við, ekki síst vegna þess að ríkisvaldið sjálft á stærstan þátt í því að bera út villandi og afbakaðar frásagnir, dylgjur og í sumum tilvikum sögur sem enginn fótur er fyrir. Í fyrsta lagi þá veldur það töluverðu áfalli að verða fyrir ærumeiðingum. Jafnvel þegar um hreinan uppspuna er að ræða, ganga dylgjur, illmælgi og ljótar sögur nærri sjálfsmynd þess sem fyrir því verður. Frá því að þessi gagnrýnislausa umræða hófst fyrir meira en þremur árum má líkja þessu við múgsefjun. Öll fjölskyldan verður fyrir höggi. Rógurinn skaðar alla möguleika þess sem fyrir honum verður, eyðileggur samskipti, atvinnumöguleika og tekur toll af andlegri og líkamlegri heilsu. Þegar við ofurefli er að etja getur virst skárra að liggja kyrr og láta sparka í sig en að verjast. Í öðru lagi væri flest af því sem á okkur er borið ekki svaravert nema vegna þess að margir virðast leggja trúnað á ávirðingarnar. Lengi töldum við ólíklegt að almenningur tryði því að tvö hreinræktuð illmenni hefðu í 10 ár vaðið uppi með andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn miklum fjölda ungmenna, algerlega óátalið. Að allt starfsfólk heimilisins, kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, sálfræðingar og eftirlitsaðilar hefðu litið fram hjá því eða beinlínis sammælst um það. Að meintir þolendur hefðu ekkert munað eftir öllum hryllingnum fyrr en eftir að ríkið fór að greiða börnum sem höfðu sætt illri meðferð á opinberum stofnunum sanngirnisbætur. Í þriðja lagi er ekkert einfalt fyrir þann sem bundinn er þagnarskyldu gagnvart sakaráberanum að svara fyrir sig. Hvernig á maður að bera af sér sakir þegar maður má ekki lýsa því sem gerðist og setja það í samhengi? En nú er mál að linni. Eftir að gerður var sjónvarpsþáttur sem sýndur var á Stöð 2 í sumar, þar sem enn er bætt í lýsingar sem eiga sér litla, ef nokkra stoð í raunveruleikanum, höfum við Áslaug sammælst um að óboðlegt sé að sitja undir þessu lengur. Nú sé kominn tími á að svara því sem logið er og setja í samhengi það litla sem nokkur fótur er fyrir. Markmið unglingaheimila og eftirlit með Varpholti/Laugalandi 1. hluti Þegar við Áslaug gerðum samning við Barnaverndarstofu um rekstur unglingaheimilis í byrjun ársins 1997, var mikil stemming í þjóðfélaginu um átak í málefnum unglinga með alvarlegan hegðunar/neysluvanda. Herferðin "Vímuefnalaust Ísland árið 2000" ber vitni um tíðarandann, en aldrei í Íslandssögunni hafði neysla barna verið jafn almenn og þá var. Nú átti að taka á vandanum af alvöru. Sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár. Barnaverndarstofa sem þá hafði nýlega tekið til starfa hófst handa um uppbyggingu meðferðarúrræða sem var stærri í sniðum en áður hafði þekkst hérlendis. Neyðarmóttaka fyrir unglinga var opnuð að Stuðlum í Grafarvogi og mörgum meðferðarheimilum var komið á fót, víðs vegar um landið. Vakning varð á meðal foreldra og Foreldrahús var stofnað og sveitarfélög fóru að fylgja útivistarreglum eftir. Tilgangurinn með stofnun meðferðarheimila var að hjálpa unglingum með áfengis- og vímuefnavanda eða annan hegðunarvanda í heimilislegu umhverfi, en um leið að setja þeim skýr mörk. Helstu markmiðin voru þau að öll börn lykju grunnskólanámi á þann hátt að þau kæmust í framhaldsskóla og hefðu jafnframt nægilega sjálfstjórn til þess að taka þátt í samfélaginu. Verkefni þeirra sem ráku meðferðarheimili voru að veita unglingum með andfélagsleg viðhorf enduruppeldi, gera þá húsum hæfa og draga úr líkum á því að þeir brytu áframhaldandi allar brýr að baki sér. Nánast öll ungmenni sem vistuðust á þessu heimili voru með svo alvarlegan vanda að þau höfðu ýmist flosnað upp úr skóla eða foreldrar gefist upp við uppeldi þeirra nema hvort tveggja væri. Auðveldustu tilvikin? Ástæða er til að gera athugasemd við þá fullyrðingu þáttargerðarmanns á Stöð 2, að á Laugalandi hafi dvalið auðveldustu unglingarnir af þeim sem vistaðir voru á vegum barnaverndaryfirvalda. Ekki kemur fram hvaðan þáttagerðarmaður hefur þetta og ég hef ekki heyrt það áður. Þær stúlkur sem voru vistaðar hjá okkur komu ekki að eigin frumkvæði eða af því að þær hefðu góða innsýn í vanda sinn og væru tilbúnar til að taka meðferð. Þvert á móti komu langflestir okkar skjólstæðinga nauðugir og í miklum mótþróa. Flestir höfðu áður vistast á Stuðlum og fjórðungur hafði verið skjólstæðingar Barna-og unglingageðdeildar Landsspítala, BUGL. Vandi þeirra var þá búinn að vera lengi til staðar og þrátt fyrir mjög ólíkan bakgrunn áttu flestar það sameiginlegt að hafa tekið yfir alla stjórn á lífi sínu og voru ekki til samvinnu hvorki við foreldra né skóla. Allar stúlkur sem voru vistaðar hjá okkur höfðu orðið fyrir áföllum sem mótuðu viðhorf þeirra og framkomu og voru m.a. rót að sjálfskaðandi hegðun. Þær stóðu oft illa í námi og í flestum tilvikum, ef ekki öllum, höfðu þær misst mikið úr skóla. Þar var slæleg ástundun alltaf vandamál en það var þó aukaatriði. Ástæðan fyrir því að foreldrarnir og skólarnir gáfust upp á þeim var fyrst og fremst hegðunarvandi, þ.á.m. ofbeldishegðun. Foreldrar þeirra réðu ekki við þær, margar þeirra voru í slagtogi við fullorðna afbrotamenn og mörgum þeirra hafði lögreglan þurft að leita að, sumum oftar en einu sinni. Sumar stúlknanna gátu ekki búið heima hjá foreldrum sínum þar sem þær höfðu gengið svo í skrokk á öðrum fjölskyldumeðlimum að yngri systkinum og jafnvel foreldrum stóð ógn af þeim. Ekkert af þessu gæti réttlætt þá svívirðu sem okkur Áslaugu er gefin að sök. Þó er erfitt að bera saman ólíkann vanda unglinga, því unglingur með ofbeldissögu þarf ekki að vera erfiðari að vinna með en unglingur í mótþróa og undirferli. Stjórnendur og eftirlit Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt við rekstur Varpholts/Laugalands er það að menntun og reynslu okkar forstöðuhjóna hafi verið ábótavant. Þessu hefur ítrekað verið haldið fram án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir því hvaða kröfur voru gerðar og hvaða menntun og reynslu við höfðum. Ég skal manna fyrstur taka undir það sjónarmið að meiri menntun og reynsla starfsfólks hefði verið æskileg, ekki aðeinis hjá okkur heldur einnig á öðrum vistheimilum. Í fullkomnum heimi hefði hámenntað fagfólk með áratuga reynslu af meðferðarstarfi veitt þessum heimilum forstöðu og valinn maður verið í hverju rúmi. En raunveruleikinn er sá að meðferðarheimili fyrir unglinga voru nýmæli á Íslandi á þessum tíma og Ísland bjó ekki yfir slíkri fagþekkingu að það væri raunhæft að manna heimilin með sérfræðingum. Menntun og starfsreynsla okkar Áslaugar fullnægði þeim kröfum sem gerðar voru til rekstraraðila. Það var aldrei gert ráð fyrir því að fagfólk sæi um daglegt heimilishald, heldur var gert ráð fyrir því að utanaðkomandi fagfólk kæmi að starfinu og veitti handleiðslu og stuðning. Allan starfstíma okkar voru sálfræðingar, uppeldisfræðingar og annað fagfólk okkur til halds og trausts og voru leiðandi um meðferðarstefnu og starf heimilisins. Því hefur einnig verið haldið fram að ekkert virkt eftirlit hafi verið með heimilinu heldur hafi eftirlitsaðilar verið persónulegir vinir okkar og eftirlitsferðir verið notaðar til þess að fara saman út að borða og fleira í þeim dúr. Þetta er uppspuni. Samskipti okkar við eftirlitsaðila voru góð en það er af og frá að eftirlitsferðir hafi verið einhverskonar vinafundir. Fulltrúar Barnaverndarnefnda sem áttu frumkvæði að ráðstöfun barns á heimilið, komu ásamt foreldrum á inntökufund og á samráðsfundi á tveggja til þriggja mánaða fresti að jafnaði. Hér má benda á að stúlkur sem vistaðar voru hjá okkur hafa haldið því fram að þegar von var á eftirliti hafi húsið verið þrifið hátt og lágt. Má af þeim skilja að það hafi ekki verið venjuleg þrif eins og fram fara þegar von er á gestum, heldur höfum við verið mjög stressuð yfir hverju rykkorni. Það stemmir illa við þá hugmynd að væntanlegir gestir hafi verið návinir okkar. Sannleikurinn er sá að húsið var þrífið á hverjum fimmtudegi á sama hátt, án tillits til þess hvort von var á gestum eða ekki. Eftirliti Barnaverndarstofu Eftirliti með heimilinu var þannig háttað að eftirlitsaðilar BVS heimsóttu heimilið reglulega. Þær/þau ræddu við meðferðaraðila og hvern vistungling í einrúmi. Þessar heimsóknir áttu sér stað tvisvar sinnum á hvorri skólaönn, annað skiptið skipulagt en hitt óvænt. Frá árinu 2003 var einnig haft ytra eftirlit með meðferðarheimilum. Það var í höndum óháðs sálfræðings sem einnig ræddi einslega við hvern vistungling. Einnig kom þáverandi forstjóri BVS í heimsókn fjórum til fimm sinnum á ári. Hann sinnti eftirliti með framkvæmd þjónustusamnings, t.d. að fullnægjandi sálfræði- og önnur sérfræðiþjónusta væri veitt af heimilinu. Oft þótti skjólstæðingum okkar reglur of strangar, eins og vænta má þegar unglingur sem lengi hefur ráðið sér sjálfur þarf skyndilega að fara eftir reglum, en aldrei komu þó fram ásakanir um ofbeldi í þessum viðtölum. Auk starfsfólks heimilisins höfðu stúlkurnar aðgang að kennurum og heilbrigðisstarfsfólki. Þær gátu jafnframt hringt í foreldra sína og farið heim í fríum, allt eftir því á hvaða þrepi þær voru staddar á en að því verður vikið síðar. Þá er það rangt að eftirlitsaðilar og annað fagfólk hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni. Trúnaðarskylda gagnvart barni á vistheimili nær auðvitað ekki til þess að þegja yfir ofbeldi eða öðrum atriðum sem varða velferð þess enda snýst barnaverndarstarf einmitt um að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og veita barni aðstoð við að vinna úr áföllum. Þeir fagaðilar sem önnuðust meðferð unglingana höfðu þá stefnu að segja frá þeim hluta samtals við ungling, sem að gagni mætti koma í meðferð viðkomandi og mikilvægt að okkur væri kunnugt um. Upplýsingar frá eftirlitsaðilum komu ekki inn á okkar borð nema unglingur hefði samþykkt það eða óskaði sjálfur eftir því. Af þessu má augljóst vera að BVS brást ekki eftirlitshlutverki sínu. Meydómsrannsóknir og trúarofstæki 2. hluti Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að unglingar sem í mörg ár hafa ráðið sér sjálfir og haldið oft á tíðum bæði heimilum sínum og skólum í herkví, upplifi það sem ofbeldi þegar þeim eru sett mörk. Það kemur aftur á móti verulega á óvart að í umfjöllun um Varpholt/Laugaland sé dregin upp mynd af heimili sem grundvallist á siðferðilegum eða trúarlegum áherslum. Ég trúi því að margir unglingana hafi upplifað það sem ofbeldi að þurfa að fylgja reglum. En ég trúi því hins vegar ekki að nokkur einasta þeirra hafi talið sig vera lentar í einhverskonar trúarkölti. Meydómsrannsóknir Stúlkur sem vistaðar voru á Varpholti/Laugalandi hafa haldið því fram að þær hafi verið sendar til kvensjúkdómalæknis vegna þess að forstöðumenn heimilisins hafi viljað komast að því hvort þær væru hreinar meyjar. Ekkert er hæft í því og erfitt að gera sér í hugarlund hvaða tilgangi þær upplýsingar hefðu átt að þjóna fyrir meðferðarstarfið. Vandi þessara stúlkna var ekki sá að þær hefðu stundað kynlíf heldur sá að börn í áfengis- og vímuefnavanda eru oft útsett fyrir kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, kynsjúkdómum og ótímabærum getnaði. Í meðförum meintra þolenda voru það ekki bara “vonda fólkið” sem ráku heimilið sem höfðu óeðlilegan áhuga á kynhegðun stúlknanna heldur á heilbrigðisstarfsfólk að hafa tekið þátt í því líka, Á þessum tíma, rétt eins og nú, giltu lög um skyldur heilbrigðisstarfsfólks og réttindi sjúklinga. Í umræðunni um Varpholt/Laugaland hefur ekkert komið fram um það að nokkur læknir hafi framkvæmt meintar meydómsrannsóknir, enda var aldrei um slíkt að ræða. Engin stúlka á Varpholti/Laugalandi fór til læknis að tilefnislausu. Sérlækningar voru alltaf í boði fyrir stúlkurnar, kæmu upp aðstæður þar sem sjúkdómseinkenna var vart. Þar með talið á sviði kvensjúkdómalækninga. Trúarofstæki Nokkrar stúlknanna sem dvöldu hjá okkur hafa gefið til kynna að starfsemi heimilisins hafi verið á trúarlegum grundvelli og einkennst af trúarofstæki. Því hefur m.a. verið haldið fram að stúlkurnar hafi verið þvingaðar til að sækja samkomur hjá Hvítasunnukirkjunni. Það á sér enga stoð í raunveruleikanum. Varpholt/Laugaland var ekki og átti aldrei að vera rekið sem kristið heimili. Þegar Varpholt hóf starfssemi sína var hugsunin sú að þarna væri rekin meðferð fyrir unglinga með áfengis-og vímuefnavanda. Það var vitað að sú meðferð yrði aldrei rekin með sama hætti og meðferð fyrir fullorðna einstaklinga. Eitt af því sem tekið var upp frá byrjun var að fara með Faðirvorið í lok kvöldfunda og Æðruleysisbænina í lok morgunfunda eins og oft tíðkast á AA fundum. Þegar fram liðu stundir fóru að koma unglingar með annarskonar vanda og farið var að leggja áherslu á aðra þætti í meðferðinni, þessi siður hélst þó áfram. Um tíma starfaði hjá okkur einstaklingur sem tilheyrði Hvítasunnukirkjunni. Við áttum líka vinafólk sem komu stundum í heimsókn til okkar m.a. afmælisveislur og aðra viðburði tengda heimilinu. Góður vinskapur varð milli nokkurra vistunglinga og unglingana í kirkjunni og þeim var leyft að taka þátt í unglingastarfinu þar. Þetta varð til þess að unglingar frá kirkjunni kom og spiluðu fótbolta með vistunglingum og starfsfólki einu sinni í viku. Einnig fóru vistunglingar með kunningjum sínum úr kirkjunni í ferð til Færeyja. Þátttaka vistunglinga í þessu starfi var algerlega á forsendum þeirra sjálfra því trúarstarf var aldrei hluti af meðferðinni. Ýmislegt annað var gert stúlkunum til afþreyingar um helgar, t.d. voru oft farnar skíðaferðir í Hlíðarfjall á veturnar og í gönguferðir á sumrin. Stundum voru farnar lengri ferðir, t.d. í Grímsey, Hrísey, uppá öræfi og í tjaldútilegur.Einnig var farið í utanlandsferðir, það gat þó farið eftir ástandinu í húsinu hverju sinni. Meintar líkamsárásir 3. hluti Í umræðunni um Varpholt/Laugaland beinast alvarlegustu ásakanirnar að mér persónulega. Lýsingar á kerfisbundnum líkamsárásum gjarnan lífshættulegum, sem mér eru eignaðar, eru efni í hryllingsmynd. Einnig hefur Áslaug verið sökuð um líkamlegt ofbeldi. Ekkert er þó sem bendir til að þessar ásakanir eigi við rök að styðjast. Ofbeldi eða lögmæt valdbeiting? Ég hafna því alfarið að hafa gengið fram með ofbeldi gagnvart skjólstæðingum mínum. Hitt er svo annað mál að í öllu barnaverndarstarfi og reyndar meðferðarstarfi almennt, er gert ráð fyrir því að upp geti komið tilvik þar sem nauðsynlegt er að grípa til valdbeitingar til þess að stöðva óásættanlega hegðun eða að koma skjólstæðingnum úr aðstæðum sem gera illt ástand verra. Það getur t.d. þurft að stöðva sjálfskaðandi hegðun, hegðun sem ógnar öryggi og velferð annarra, eða afstýra skemmdarverkum. Slík valdbeiting er lögmæt og miðar ekki að því að meiða skjólstæðinginn, heldur að koma á friðsamlegu ástandi. Lögmæt valdbeiting getur falist í því að færa viðkomandi af einum stað á annan eða halda skjólstæðingnum kyrrum þar til hann hefur náð ró sinni. Á þeim tíu árum sem heimilið var rekið kom því miður sex sinnum til þess að grípa þurfti til lögmætrar valdbeitingar. Lögmæt valdbeiting felur ekki í sér barsmíðar, hrindingar, kyrkingartak, að fólk sé dregið á hárinu, dregið berfætt eftir vegi eða að manneskju sé kastað niður stiga, hvað þá að vistunglingur hafi verið einangraður í herbergi í tvær vikur. Ekkert er hæft í þeim sögum enda hefur enginn starfsmaður staðfest neitt í þá veru. Það verður að teljast ósennilegt að starfsmennirnir væru slík vesælmenni að þeir hefðu horft upp á stórhættulegar líkamsárásir hvað eftir annað án þess að bregðast við á nokkurn hátt. Afbakaðar og rangar atvikslýsingar Sögur um að ég hafi barið stúlkurnar sundur og saman, kýlt þær í andlitið, dregið þær á hárinu, dregir þær eftir malarvegi, þrengt að öndunarvegi þeirra eða einangrað ungling í tvær vikur eru uppspuni frá rótum. Í umfjöllum fjölmiðla segja einnig margar af stúlkunum að þeim hafi verið hent niður stiga. Ekkert er hæft í þeim ásökunum. Það er vægast sagt undarlegt að tilkynningar um margítrekaðar, lífshættulegar líkamsárásir hafi ekki komið fram á þeim tíma sem þær eiga að hafa átt sér stað. Þá er stórfurðulegt að annað starfsfólk eða kennarar í Þelamerkurskóla og síðar Hrafnagilsskóla, sem komu alla virka daga á heimilið hafi ekkert orðið vart við þær misþyrmingar sem ítrekað hefur verið lýst í fjölmiðlum og að barnaverndaryfirvöld hafi ekki brugðist við slíkum tilkynningum. Það skyldi þó ekki vera að barnaverndaryfirvöld hafi haft aðrar upplýsingar en blaðamenn. Óttastjórnun og andlegt ofbeldi 4. hluti Í umfjöllun um vistheimilið að Varpholti/Laugalandi hafa fyrrum viststúlkur lýst andlegu ofbeldi. Staðhæft er að starfsemin hafi einkennst af óttastjórnun, stúlkurnar hafi verið hræddar til hlýðni með öskrum og hótunum. Einnig eigum við Áslaug að hafa svívirt þær í orðum m.a. með því að kalla þær samkynhneigðar, hórur, druslur, tíkur og illa innrættar. M.a. eigum við að hafa dregið stúlkurnar sjálfar til ábyrgðar fyrir kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi sem þær kunnu að hafa orðið fyrir. Ekki er nokkur fótur fyrir slíkum ásökunum. Óttastjórnun Ég kannast ekki við þá harðstjórnartakta sem mér eru ætlaðir, hvorki hvað varðar líkamlegar misþyrmingar né meinta óttastjórnun. Meðferðarkerfið sem við unnum eftir var þrepakerfi sem ætlað var til þess að hjálpa stúlkunum til að átta sig á stöðu sinni hverju sinni. Markmiðin voru skýr og þær vissu nákvæmlega hvað þær þyrftu að gera til að komast upp á næsta þrep og njóta þeirra fríðinda sem því fylgdi. Sömuleiðis vissu þær nákvæmlega að ef þær uppfylltu ekki þær kröfur sem tilheyrðu þrepinu myndu þær færast aftur niður um þrep. Starfsfólkið þurfi því ekki að standa í málalengingum við þær um ábyrgð og ábyrgðarleysi, það var á þeirra ábyrgð að standa sig. Vissulega kom það fyrir að starfsmaður þyrfti að byrsta sig enda er það eðlilegt að unglingar sem hvorki hafa rekist í skóla né á heimili láti reyna á það hvar mörkin liggja. En það stóð enginn á öskrinu eða sýndi af sér annað stjórnleysi. Aftur á móti ræddum við afleiðingar þess að fara ekki eftir reglum. Það telst ekki óttastjórnun að benda unglingi á að hegðun hans sé að nálgast það stig að hann geti búist við að það hafi afleiðingar. Það er heldur ekki óttastjórnun að gera barni á afbrotabraut grein fyrir því að lífsstíll þess, félagsskapurinn sem það velur sér, framkoma þess við aðra og þau viðhorf sem það ræktar með sér, geti ráðið úrslitum um það hvort næsti viðkomustaður þess verði framhaldsskóli eða fangelsi. Það er heldur ekkert hæft í því að stúlkurnar hafi setið undir svívirðingum af hálfu forstöðumanna eða annars starfsfólks. Mögulega er rótin að aðdróttunum um að við höfum kallað stúlkunar aumingja sú að við ræddum auðvitað það líferni sem þær voru að koma úr og sóttu margar í áfram. Ég kannast við að hafa spurt hvað þær héldu að yrði um þær ef þær héldu áfram á þeirri braut. Ég kannast ekki við að hafa kallað nokkra stúlku hóru, hvað þá að hafa látið sem þær bæru ábyrgðina á nauðgunum og öðru ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir. En ég kannast við að hafa bent á að vímuefnaneysla og önnur áhættuhegðun auki líkur á ofbeldi og öðrum áföllum. Svívirðingar og andlegt niðurrif Það eru ósannindi að við forstöðuhjónin höfum svívirt skjólstæðinga okkar í orðum. Ekkert er hæft í því að við höfum kallað stúlkurnar hórur, druslur, tíkur eða öðrum ónefnum. Það er líka fjarri sannleikanum að við höfum sagt stúlkunum að það yrði aldrei neitt úr þeim og þær myndu enda sem aumingjar og hórur eða annað í þá veru. Þvert á móti lögðum við áherslu á að þær hefðu það sjálfar í hendi sér hver framtíð þeirra yrði. Það er auðvitað ekkert skemmtilegt að horfast í augu við að partýið er búið. Það er alltaf sárt fyrir þann sem er búinn að mála sig út í horn að skoða sjálfan sig með augum annarra. En það er ekki andlegt niðurrif að reyna að fá viðkomandi til þess, heldur er það mikilvægur þáttur í meðferð. Á þeim tíma sem heimilið var rekið var oft talað um að meðferð gæti falist í því að "brjóta einstaklinginn niður og byggja hann síðan upp aftur". Þetta orðalag veldur oft misskilningi. Í fræðunum er ekki átt við að meðferðaraðilar eigi að svipta skjólstæðinga sína sjálfsvirðingunni, heldur er stefnt að því að brjóta niður falskt sjálfsöryggi sem birtist í áhættuhegðun, hroka og yfirgangi og leiða skjólstæðinginn inn á braut sem gefur grundvöll til sjálfsvirðingar sem innistæða er fyrir. Það á ekkert skylt við andlegt ofbeldi að gera unglingi grein fyrir því að áhættuhegðun sé ekki töff heldur til þess fallin að valda margskonar tjóni. Ég sé reyndar ekki að það sé hægt að veita unglingum með vímuefnavanda aðstoð án þess að reyna að fá þá til að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem þeir eru í. Meðferðin á vistheimilinu 5. hluti Eitt af því sem okkur, stjórnendum Varpholts/Laugalands hefur verið legið á hálsi fyrir, er það að reglur hafi verið allt of strangar og meðferðaraðferðir skaðlegar. Ég hef enn ekki heyrt nein dæmi um það hvaða reglur það voru sem þóttu svona strangar. Var það reglan um að allir ættu að taka þátt í daglegum heimilisstörfum? Eða reglan um að allir ættu að fara á fætur á morgnana? Eða reglan um að ekki mætti nota áfengi og vímuefni? Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að við höfum hvergi misstigið okkur en þar sem lýsingar nokkurra fyrrum skjólstæðinga okkar eru illilega afbakaðar er rétt að fjalla aðeins um meðferðina sjálfa. Þrepakerfið Hvað varðar meðferðaraðferðir þá voru þær í eðli sínu ekkert frábrugðnar því sem gerist almennt í meðferð sem miðar að því að breyta hegðun og viðhorfum. Við unnum eftir þrepakerfi sem var í þróun megnið af þeim tíma sem heimilið var rekið. Hugmyndin á bak við þrepakerfi í meðferð er sú að skjólstæðingurinn hagnist á því að vera til samstarfs. Eftir að hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru á hverju þrepi í tiltekinn tíma fékk unglingurinn umbun og færðist upp um þrep. Hverju þrepi fylgdu ákveðin fríðindi sem voru ekki í boði á lægri þrepum. Það þurfti því ekkert að ræða það hvort stúlka fengi t.d. helgarleyfi því það fylgdi tilteknu þrepi og stúlkan vissi nákvæmlega hvað hún þyrfti að gera til að komast á það þrep. Allir vistunglingar sem komu í meðferð til okkar byrjuðu áfyrsta þrepi þar sem þeir voru undir miklu eftirliti. Hugmyndin var ekki sú að refsa fyrir að hafa lent í óreglu, heldur að taka af unglingnum ráðin, árétta að þetta væri ný byrjun og gera það ljóst frá upphafi að leiðin að betra lífi væri í þeirra eigin höndum. Stúlka sem var að hefja meðferð dvaldi heimavið fyrstu þrjá dagana áður en hún fékk að taka þátt í leik og starfi utan heimilisins. Eftir þessa þrjá daga var það undir stúlkunni komið hvert framhaldið yrði. Ef vel hafði gengið þessa þrjá daga færðist stúlkan strax upp um þrep. Ef stúlka var í mótþróa og vildi ekki fara eftir reglum var henni velkomið að dvelja lengur á fyrsta þrepi eða þar til hún yrði tilbúin að taka þátt í meðferðinni. Stúlka sem stóð ekki undir þeim kröfum sem gerðar voru á því þrepi sem hún var á, færðist niður um þrep. Að sjálfsögðu upplifir unglingur það sem refsingu að færast niður um þrep, rétt eins og sumum nemendum finnst ósanngjarnt að falla á prófi. Það er langt frá því að þessi meðferð hafi verið einstök. Flest vistheimili fyrir unglinga sem rekin voru með samningi við BVS á þessum tíma studdust við þrepakerfi af einhverju tagi. Ég kannast ekki við að á Varpholti og Laugalandi hafi gilt strangari reglur en annarsstaðar. Eitt sem ég vildi t.d. ekki taka upp var að taka fíkniefnapróf af skjólstæðingum okkar þegar þeir komu aftur eftir heimfararleyfi. Flest sem sagt hefur verið um meðferðina á vistheimilinu í fjölmiðlum er komið mjög langt frá veruleikanum. Rangfærslur um refsingar Rétt er að taka tvö dæmi sem mest hafa afbakast í meðförum fyrrum vistbarna okkar annað um meinta refsingu og hitt um meðferðaraðferð. Því hefur verið haldið fram að þegar stúlkur brutu reglur hafi þeim verið refsað með því að þeim hafi verið gert að klæðast sérstökum galla og að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við þær. Þetta er ömurleg hugmynd sem minnir helst á tossahattinn sem víða tíðkaðist á fyrri öldum og ekki að furða þótt fólk hneykslist þegar það veit ekki sannleikann í málinu. Upphaf þess að Russelgallinn var keyptur var sá að ein stúlknanna stakk upp á því að keyptur yrði þægilegur og hlýr galli sem hún fengi að nota á meðan hún væri á byrjunar þrepi. Notkun gallans breyttist þó fljótt og varð hann síðan notaður af unglingum sem komu tilbaka eftir strok. Að einhverjum tíma liðnum hvarf gallinn, þegar unglingur strauk í honum. Staðhæfingar um að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við stúlku sem klæddist gallanum eru uppspuni frá rótum. Unglingur sem var í þessum galla tók ekki þátt í hefðbundinni dagskrá útávið, hvorki skóla né félagslífi. Einnig fullyrðir einn vistunglingur að hún hafi þurft að sofa á milli okkar hjónana í refsingaskini fyrir að vilja ekki fara með Faðirvorið í lok kvöldfundar. Þessi fullyrðing á sér enga stoð í raunveruleikanum og óskiljanlegt hvernig nokkrum dettur í hug að halda slíku fram. Það kom fyrir að unglingur neitaði að taka þátt og það var allt í lagi. Annar unglingur hefur greint frá því að allir hafi verið viktaðir á föstudögum. Ekkert er hæft í þeirri fullyrðingu enda erfitt að ímynda sér hver væri tilgangurinn með því. Hálfsannleikur um meðferðaraðferðir Það sem helst hefur verið nefnt sem skaðleg og niðurlægjandi meðferðaraðferð eru fundir þar sem ein stúlknanna hafi verið tekin fyrir og brotin niður. Í fjölmiðlum hefur framsetningin verið með þeim hætti að lesandi/áhorfandi sem veit ekkert um málið, ályktar að starfsfólk hafi tekið eina stúlku í senn fyrir, án þess að hún hefði neitt um það að segja og niðurlægt hana fyrir framan hinar stúlkurnar. Þetta er illa afbökuð mynd af veruleikanum. Meðferðaraðferðin sem verið er að vísa til hefur verið kölluð „speglun“. Hún er ekki mitt hugarfóstur heldur hefur hún verið notuð í meðferðarstarfi víða um heim m.a.í áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi. Þessi aðferð er hugsuð sem aðstoð jafningja við að skoða sjálfan sig með augum annarra og er ætluð fyrir fólk í meðferð sem langar að vita hvort það sé á réttri leið með sjálfsvinnuna og vill fá „speglun“ til að skoða hvort það geti gert eitthvað frekar til ná þeim árangri sem að er stefnt í meðferðinni. Fólk var aldrei sett í „speglun“ gegn vilja sínum enda væri þá útilokað að fá viðkomandi til að taka til sín það sem betur má fara. Sá sem er til umræðu getur gert ráð fyrir því að fá að heyra neikvæða hluti um sjálfan sig, ekki þá frá meðferðaraðilum heldur fyrst og fremst frá öðrum vistunglingum og þarf að vera tilbúinn til að vinna úr því. Hlutverk meðferðaraðilans á fundinum er að leiða umræðuna þannig að hún gagnist skjólstæðingnum og m.a. að koma í veg fyrir að fundurinn fari út í ómálefnalegar árásir og eða einelti. Við vorum hikandi við að nota þessa aðferð með svo ungu fólki en ákváðum að láta á það reyna. Fljótlega komust við að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki hentug aðferð fyrir unglinga. Stúlkurnar voru dómharðar hver við aðra og gagnrýni þeirra oftar en ekki allt of vægðarlaus til þess að vera uppbyggileg. Við tókum því þessa aðferð því út af dagskránni eftir skamma notkun. Félagsleg einangrun og rofin tengsl við fjölskyldur 6. hluti Auk þess sem stúlkur á Varpholti og Laugalandi eiga að hafa búið við alvarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi, trúarinnrætingu, ómannúðlegar meðferðaraðferðir og refsingar í stíl 19. aldar, hefur því verið haldið fram að þær hafi sætt félagslegri einangrun og þeim hafi verið bannað að tala við foreldra í síma nema staðið væri yfir þeim. Við eigum m.a.s. að hafa banna heimför um jól. Það er ekki rétt að foreldrum hafi verið meinaður aðgangur að unglingunum. Hið rétta er að á heimilinu giltu reglur um heimsóknir. Þetta var meðferðarheimili en jafnframt heimili okkar. Það var ákveðin dagskrá sem þurfti að taka tillit til og því ekki heppilegt að gestir væru að banka upp á án þess að gera boð á undan sér. Við stóðum aldrei í vegi fyrir að foreldri kæmi og ætti skipulagða samverustund með unglingnum sínum ef farið var fram á það. Það kom þó sjaldan fyrir þar sem stúlkurnar fengu regluleg heimfararleyfi, allt eftir því hversu langt þær voru komnar í meðferðinni. Foreldrar komu á samráðsfundi á þriggja mánaða fresti og oftar ef með þyrfti. Einnig voru haldnar sameiginlegar fjölskylduhelgar með foreldrum og unglingum að Gistiheimilinu á Öngulstöðum, einu sinni á hvorri skólaönn í umsjá okkar og utanaðkomandi fagaðila. Þá hélt fagfólk m.a. fyrirlestra um samskipti foreldra og barna og um eflingu foreldrafærni, fjölskyldusamtöl voru haldin með unglingunum og viðkomandi fjölskyldu og unglingarnir nutu samvista við foreldra sína. Enginn fótur er fyrir því að við höfum komið í veg fyrir heimferðir vistbarna um jól eða í öðrum fríum. Satt að segja erum við ekkert frábrugðin öðru fólki að því leyti að jólafrí í friði og ró með fjölskyldunni var vel þegið. Ef unglingur var hjá okkur yfir hátíðar þá voru allt aðrar ástæður fyrir því en okkar óskir eða ákvörðun. Vistunglingar dvöldu að jafnaði 30 til 50 daga á ári hjá fjölskyldum sínum. Á þessum 10 árum gerðist það tvisvar að unglingar voru hjá okkur yfir áramót að ósk foreldra og í einu páskaleyfi kom foreldri og dvaldi með sínu barni á heimilinu meðan við rekstraraðilar voru fjarverandi. Það eina sem hæft er í ásökunum um einangrun stúlknanna frá fjölskyldum sínum er það að á fyrsta þrepi fengu skjólstæðingar okkar símtöl undir eftirliti. Fyrir því var einkum ein ástæða. Unglingar sem eru skikkaðir í meðferð eru oft mjög reiðir við foreldra sína, sem sjálfir eru að reyna að vinna sig út úr meðvirkni, eru niðurbrotnir af samviskubiti og þurfa síst á því að halda að hlusta á ásakanir og ljót orð. Ég leyfi mér að fullyrða að hafi tengsl vistbarna okkar við fjölskyldur sínar rofnað, þá sé orsökin fyrir því önnur en sú að þeim hafi í þrjá daga, verið synjað um tækifæri til að tala við aðstandendur í einrúmi. Áður en til inntöku gat komið, var haldin kynningarfundur með unglingnum, foreldrum, fulltrúa barnarverndarnefndar, rekstraraðilum og sálfræðingi heimilisins. Þar var meðferðin kynnt og farið yfir reglur og þrepakerfi. Inntökufundur sömu aðila var oftast haldin tveimur vikun síðar. Á þessum fundum var farið yfir mikilvægi þess að meðferðaraðilar væru viðstaddir þegar unglingurinn hringdi heim til foreldra sinna fyrstu þrjá dagana, þegar mótþróinn er sem mestur. Tilgangurinn var að hlífa foreldrum við ásökunum og reiði unglingsins. Í nokkur skipti kom til þess að slíta þurfti samtali. Lokaorð Sú rógsherferð, sem staðið hefur yfir á fjórða ár náði hámarki með sýningu þáttaraðar um vistheimili á Íslandi, sem sýnd var á Stöð 2 í júní í sumar. Stúlkurnar hafa lagt áherslu á að þöggun ríki um þetta mál og lýsingarnar hafa orðið grófari og grófari eftir því sem tímin líður. Ekkert er sjáanlegt sem styður þær fullyrðingar. Þátturinn um Varphlt/Laugaland er að okkar mati byggður á ófaglegum forsendum þar sem þáttastjórnandi hafði ekki metnað í að kynna sér eða skoða málið frá sjónarhóli starfsfólks, kennara, skólastjórnenda, sálfræðinga, eftirlitsaðila og/eða annarra sem komu að daglegri meðferð unglingana. Við erum afskaplega stolt af því starfi sem unnið var á Varpholti/Laugalandi. Af 66 vistunglingum luku nánast allir grunnskólaprófi með sóma, mikill fjöldi fór í framhaldsnám og margir hafa lokið háskólanámi. Meirihluti skjólstæðinga okkar náði tökum á vandamálum sínum og margir þeirra héldu sambandi við okkur í mörg ár eftir að meðferð lauk. Við hörmum þá ákvörðun stjórnvalda að hafa lagt niður unglingaheimilin sem gátu þegar mest lét, veitt allt að 50 unglingum meðferð í senn og á þann hátt létt miklu álagi af unglingunum, heimilum þeirra, skólum og samfélagi. Leiða má líkum að því að þau vandamál sem við er að etja í málefnum unglinga í dag væri viðráðanlegri ef þau sem stærstan vandann hafa fengju aðstoð af því tagi sem fannst á þessum heimilum. Með þessari grein erum við Áslaug að svara þessum ásökunum í eitt skipti fyrir öll. Við höfum ekkert meira um málið að segja að svo stöddu, enda eru málaferli framundan þessu tengdu. Þessa vegna frábiðjum við okkur símtöl eða viðtöl við fréttamiðla. Þær ávirðingar sem á okkur hafa verið bornar eru mun fleiri en þær sem við höfum reynt að svara hér, enda væri að æra óstöðugan að ætla að svara þeim öllum í einni grein. Að öðru leyti vísum við í lögfræðing okkar Evu Hauksdóttur, hdl. Október 2024 Ingjaldur Arnþórsson Áslaug Herdís Brynjarsdóttir Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Vistheimili Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Skoðun Skoðun Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf Guðbjörg Elísa Hafsteinsdóttir skrifar Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason skrifar Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno skrifar Skoðun Bað- og búningsklefar okkar kvenna Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar Skoðun Stórkostleg tímaskekkja Sigrún Perla Gísladóttir skrifar Skoðun Vinstri græn - þrátt fyrir þverpólitíska ríkisstjórn Aðalbjörg Ísafold Þorkelsdóttir skrifar Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir skrifar Skoðun Kosningalimran 2024 Arnar Ingi Ingason,Freyr Snorrason skrifar Skoðun Viðreisn ætlar að forgangsraða – nýta skattfé miklu betur Þorvaldur Ingi Jónsson skrifar Skoðun Sigrar vinnast – spár bregðast Þorvaldur Örn Árnason skrifar Skoðun Af hverju Viðreisn? Eva Rakel Jónsdóttir skrifar Skoðun Pólitískar ofsóknir í aðdraganda Alþingiskosninga Eldur S. Kristinsson skrifar Skoðun Talk about timing – degi fyrir kjördag Yngvi Sighvatsson skrifar Skoðun Hjarta og sál Heiðdís Geirsdóttir skrifar Skoðun ESB andstæðingar blekkja Íslendinga Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn: Fyrir budduna þína og framtíðina Gísli Stefánsson skrifar Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson skrifar Skoðun Að mynda ríkisstjórn - skipulagt val til vinstri Hlynur Már Ragnheiðarson skrifar Skoðun Viðreisn: öfgalaus nálgun fyrir öfgalaust samfélag Hanna Katrín Friðriksson skrifar Skoðun Kleppur er víða Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir skrifar Skoðun Að geta lesið sér mennsku til gagns Diljá Ámundadóttir Zoëga skrifar Skoðun Börðust afar okkar til einskis í Þorskastríðinu? Hugleiðing um ESB Haukur Ingi S. Jónsson skrifar Skoðun Á ferð um Norðvesturkjördæmi Arna Lára Jónsdóttir,Hannes Sigurbjörn Jónsson,Jóhanna Ösp Einarsdóttir,Magnús Eðvaldsson skrifar Skoðun Stöndum vörð um íslenska fjölmiðla Óli Valur Pétursson skrifar Skoðun Lögfestum félagsmiðstöðvar Guðmundur Ari Sigurjónsson,Friðmey Jónsdóttir skrifar Skoðun Flokkar sem vara við sjálfum sér Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Hver bjó til ehf-gat? Sigríður Á. Andersen skrifar Skoðun Lausnir eða kyrrstaða í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson skrifar Skoðun Aðventan – njóta eða þjóta? Hrund Þrándardóttir skrifar Skoðun Við kjósum blokkir Kjartan Valgarðsson skrifar Sjá meira
Inngangur Á árunum 1997-2007 rak ég ásamt þáverandi eiginkonu minni Áslaugu Herdísi Brynjarsdóttur meðferðarheimili fyrir stúlkur með fjölþættan vanda. Heimilið var fyrst rekið að Varpholti í Hörgárbyggð, en síðar að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Það var rekið samkvæmt þjónustusamningi við Barnaverndarstofu (héreftir skrifað BVS) sem var ábyrgt fyrir utanumhaldið, innlögn vistbarna og eftirliti með meðferðarheimilinu. Þetta var áhugaverð reynsla og oft gefandi en starfinu fylgdi líka mikið álag. Í nokkur skipti komu upp atvik þar sem við vorum óviss um hvernig við ættum að bregðast við aðstæðum. Slík tilvik koma upp í öllu meðferðarstarfi enda var forsendan fyrir rekstri heimila af þessu tagi úrræðaleysi heimila, skóla og barnaverndarkerfisins. Aldrei varð álagið af því að sinna erfiðum unglingsstúlkum þó neitt í líkingu við það álag sem fylgir þeim ærumeiðingum sem við Áslaug höfum setið undir síðustu árin. Meiðyrðin hafa að nokkru leyti beinst að eftirlitisaðilum líka en fyrst og fremst að mér og Áslaugu. Meðal þess sem haldið hefur verið fram um Varpholt/Laugaland er eftirfarandi: Að ekkert raunverulegt eftirlit hafi verið með heimilinu enda hafi eftirlitsaðilar verið persónulegir vinir forstöðuhjónanna. Að stúlkurnar hafi ekkert getað leitað vegna þess harðræðis sem þær bjuggu við á heimilinu því fagfólk og eftirlitsaðilar hafi lekið trúnaðarupplýsingum í forstöðumann. Að starfsemin hafi grundvallast á annarlegum siðferðis- og trúarviðhorfum. M.a. hafi stúlkur sem vistaðar voru hjá okkur, verið sendar til kvensjúkdómalæknis í þeim tilgangi að athuga hvort þær væru hreinar meyjar. Einnig hafi stúlkunum verið gert að stunda samkomur í Hvítasunnukirkjunni. Að ég, forstöðumaðurinn, hafi beitt viststúlkur líkamlegu ofbeldi, m.a. á ég að hafa barið þær, að ég hafi dregið stúlkur á hárinu, dregið þær berfættar eftir malarvegi, að unglingur sem strauk heim til sín hafi komið sundurskorinn frá okkur þannig að það þurfti að sauma skurðina, hent stúlkum niður stiga, ekki einu sinni heldur oft og þrengt að öndunarvegi þeirra. Að þær hafi þurft að vera í einangrun á herbergi sínu allt að tvær vikur, og að tvær stúlkur hafa þurft að sofa á milli forstöðuhjónanna í refsingaskini og að þær hafi verið viktaðar alla föstudaga, svo fátt eitt sé nefnt. Að stúlkunar hafi verið hræddar til hlýðni með öskrum og hótunum og að við höfum svívirt þær í orðum, m.a. með því að kalla þær samkynhneigðar, hórur, druslur, tíkur og illa innrættar. Þá er því haldið fram að við höfum réttlætt ofbeldi og glæpi gegn skjólstæðingum okkar. M.a. eigum við að hafa dregið þær sjálfar til ábyrgðar fyrir kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir. Að meðferðaraðferðir hafi einkennst af andlegu ofbeldi, þ.á.m. mjög ströngum reglum og niðurbrjótandi þrepakerfi og að haldnir hafi verið fundir þar sem ein stúlka í einu var tekin fyrir og niðurlægð í návist hópsins. Að stúlkur sem misstigu sig hafi sætt óvenjulegum og ómannúðlegum refsingum. M.a. að sérstakur klæðnaður hafi verið notaður til að niðurlægja þær sem sættu viðurlögum vegna brota á húsreglum. Einnig að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við stúlkur sem væru í mótþróa. Að stúlkunar hafi verið beittar félagslegri einangrun og tengsl þeirra við fjölskyldur og vini rofin. Foreldrum hafi verið meinaður aðgangur að heimilinu, stúlkunum hafi verið bannað að tala við foreldra sína nema símtöl þeirra væru hlustuð og sumum bannað að fara heim í fríum. Ekkert af þessu er satt. Aftur á móti sjá þeir sem til þekkja af hvaða rótum þessar sögur eru runnar. Í meðförum meintra þolenda verður einn flugufótur að skrímslinu úr kvikmynd David Cronenberg, “The Fly” frá árinu 1986. Fjölmiðlar taka lyginni fagnandi enda bera fréttamenn ekki ábyrgð á því sem þeir hafa eftir öðrum. Í okkar tilviki gekk þetta svo langt að stofnun á vegum ríkisins gaf út opinbera skýrslu þar sem brotið var gegn persónuverndarlögum. Persónuvernd sá ástæðu til að leggja bann við birtingu hennar. Það dugði þó síður en svo til þess að kveða niður skipulagða rógsherferð gegn okkur. Hvenær á maður að svara fyrir sig? Sú rógsherferð sem staðið hefur yfir á fjórða ár gegn okkur Áslaugu, er að því leyti sérstök að stofnun á vegum ríkisins, þ.e. Gæða og eftirlitsnefnd velferðarmála tók þátt í að dreifa rógburðinum með útgáfu fyrrnefndrar skýrslu sem stóðst ekki lágmarkskröfu um fagleg vinnubrögð. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem við verðum fyrir opinberum ærumeiðingum og öðrum brotum gegn friðhelgi einkalífs okkar. Árið 2009 voru Áslaugu dæmdar miskabætur vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem runnin var undan rifjum bróður míns sem í áraraðir hefur haft horn í síðu minni. Enginn af fyrrnefndum aðilum hafði þó fyrir því að kynna sér hina hlið málsins, hvorki hjá okkur, starfsfólki eða öðrum þeim sem umgengust vistunglingana á hverjum degi. Hvorugt okkar Áslaugar hefur svarað þeim ásökunum sem við höfum setið undir síðustu árin fyrr en nú. Við höfum auðvitað rætt það hvernig við ættum að bregðast við, ekki síst vegna þess að ríkisvaldið sjálft á stærstan þátt í því að bera út villandi og afbakaðar frásagnir, dylgjur og í sumum tilvikum sögur sem enginn fótur er fyrir. Í fyrsta lagi þá veldur það töluverðu áfalli að verða fyrir ærumeiðingum. Jafnvel þegar um hreinan uppspuna er að ræða, ganga dylgjur, illmælgi og ljótar sögur nærri sjálfsmynd þess sem fyrir því verður. Frá því að þessi gagnrýnislausa umræða hófst fyrir meira en þremur árum má líkja þessu við múgsefjun. Öll fjölskyldan verður fyrir höggi. Rógurinn skaðar alla möguleika þess sem fyrir honum verður, eyðileggur samskipti, atvinnumöguleika og tekur toll af andlegri og líkamlegri heilsu. Þegar við ofurefli er að etja getur virst skárra að liggja kyrr og láta sparka í sig en að verjast. Í öðru lagi væri flest af því sem á okkur er borið ekki svaravert nema vegna þess að margir virðast leggja trúnað á ávirðingarnar. Lengi töldum við ólíklegt að almenningur tryði því að tvö hreinræktuð illmenni hefðu í 10 ár vaðið uppi með andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn miklum fjölda ungmenna, algerlega óátalið. Að allt starfsfólk heimilisins, kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, sálfræðingar og eftirlitsaðilar hefðu litið fram hjá því eða beinlínis sammælst um það. Að meintir þolendur hefðu ekkert munað eftir öllum hryllingnum fyrr en eftir að ríkið fór að greiða börnum sem höfðu sætt illri meðferð á opinberum stofnunum sanngirnisbætur. Í þriðja lagi er ekkert einfalt fyrir þann sem bundinn er þagnarskyldu gagnvart sakaráberanum að svara fyrir sig. Hvernig á maður að bera af sér sakir þegar maður má ekki lýsa því sem gerðist og setja það í samhengi? En nú er mál að linni. Eftir að gerður var sjónvarpsþáttur sem sýndur var á Stöð 2 í sumar, þar sem enn er bætt í lýsingar sem eiga sér litla, ef nokkra stoð í raunveruleikanum, höfum við Áslaug sammælst um að óboðlegt sé að sitja undir þessu lengur. Nú sé kominn tími á að svara því sem logið er og setja í samhengi það litla sem nokkur fótur er fyrir. Markmið unglingaheimila og eftirlit með Varpholti/Laugalandi 1. hluti Þegar við Áslaug gerðum samning við Barnaverndarstofu um rekstur unglingaheimilis í byrjun ársins 1997, var mikil stemming í þjóðfélaginu um átak í málefnum unglinga með alvarlegan hegðunar/neysluvanda. Herferðin "Vímuefnalaust Ísland árið 2000" ber vitni um tíðarandann, en aldrei í Íslandssögunni hafði neysla barna verið jafn almenn og þá var. Nú átti að taka á vandanum af alvöru. Sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár. Barnaverndarstofa sem þá hafði nýlega tekið til starfa hófst handa um uppbyggingu meðferðarúrræða sem var stærri í sniðum en áður hafði þekkst hérlendis. Neyðarmóttaka fyrir unglinga var opnuð að Stuðlum í Grafarvogi og mörgum meðferðarheimilum var komið á fót, víðs vegar um landið. Vakning varð á meðal foreldra og Foreldrahús var stofnað og sveitarfélög fóru að fylgja útivistarreglum eftir. Tilgangurinn með stofnun meðferðarheimila var að hjálpa unglingum með áfengis- og vímuefnavanda eða annan hegðunarvanda í heimilislegu umhverfi, en um leið að setja þeim skýr mörk. Helstu markmiðin voru þau að öll börn lykju grunnskólanámi á þann hátt að þau kæmust í framhaldsskóla og hefðu jafnframt nægilega sjálfstjórn til þess að taka þátt í samfélaginu. Verkefni þeirra sem ráku meðferðarheimili voru að veita unglingum með andfélagsleg viðhorf enduruppeldi, gera þá húsum hæfa og draga úr líkum á því að þeir brytu áframhaldandi allar brýr að baki sér. Nánast öll ungmenni sem vistuðust á þessu heimili voru með svo alvarlegan vanda að þau höfðu ýmist flosnað upp úr skóla eða foreldrar gefist upp við uppeldi þeirra nema hvort tveggja væri. Auðveldustu tilvikin? Ástæða er til að gera athugasemd við þá fullyrðingu þáttargerðarmanns á Stöð 2, að á Laugalandi hafi dvalið auðveldustu unglingarnir af þeim sem vistaðir voru á vegum barnaverndaryfirvalda. Ekki kemur fram hvaðan þáttagerðarmaður hefur þetta og ég hef ekki heyrt það áður. Þær stúlkur sem voru vistaðar hjá okkur komu ekki að eigin frumkvæði eða af því að þær hefðu góða innsýn í vanda sinn og væru tilbúnar til að taka meðferð. Þvert á móti komu langflestir okkar skjólstæðinga nauðugir og í miklum mótþróa. Flestir höfðu áður vistast á Stuðlum og fjórðungur hafði verið skjólstæðingar Barna-og unglingageðdeildar Landsspítala, BUGL. Vandi þeirra var þá búinn að vera lengi til staðar og þrátt fyrir mjög ólíkan bakgrunn áttu flestar það sameiginlegt að hafa tekið yfir alla stjórn á lífi sínu og voru ekki til samvinnu hvorki við foreldra né skóla. Allar stúlkur sem voru vistaðar hjá okkur höfðu orðið fyrir áföllum sem mótuðu viðhorf þeirra og framkomu og voru m.a. rót að sjálfskaðandi hegðun. Þær stóðu oft illa í námi og í flestum tilvikum, ef ekki öllum, höfðu þær misst mikið úr skóla. Þar var slæleg ástundun alltaf vandamál en það var þó aukaatriði. Ástæðan fyrir því að foreldrarnir og skólarnir gáfust upp á þeim var fyrst og fremst hegðunarvandi, þ.á.m. ofbeldishegðun. Foreldrar þeirra réðu ekki við þær, margar þeirra voru í slagtogi við fullorðna afbrotamenn og mörgum þeirra hafði lögreglan þurft að leita að, sumum oftar en einu sinni. Sumar stúlknanna gátu ekki búið heima hjá foreldrum sínum þar sem þær höfðu gengið svo í skrokk á öðrum fjölskyldumeðlimum að yngri systkinum og jafnvel foreldrum stóð ógn af þeim. Ekkert af þessu gæti réttlætt þá svívirðu sem okkur Áslaugu er gefin að sök. Þó er erfitt að bera saman ólíkann vanda unglinga, því unglingur með ofbeldissögu þarf ekki að vera erfiðari að vinna með en unglingur í mótþróa og undirferli. Stjórnendur og eftirlit Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt við rekstur Varpholts/Laugalands er það að menntun og reynslu okkar forstöðuhjóna hafi verið ábótavant. Þessu hefur ítrekað verið haldið fram án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir því hvaða kröfur voru gerðar og hvaða menntun og reynslu við höfðum. Ég skal manna fyrstur taka undir það sjónarmið að meiri menntun og reynsla starfsfólks hefði verið æskileg, ekki aðeinis hjá okkur heldur einnig á öðrum vistheimilum. Í fullkomnum heimi hefði hámenntað fagfólk með áratuga reynslu af meðferðarstarfi veitt þessum heimilum forstöðu og valinn maður verið í hverju rúmi. En raunveruleikinn er sá að meðferðarheimili fyrir unglinga voru nýmæli á Íslandi á þessum tíma og Ísland bjó ekki yfir slíkri fagþekkingu að það væri raunhæft að manna heimilin með sérfræðingum. Menntun og starfsreynsla okkar Áslaugar fullnægði þeim kröfum sem gerðar voru til rekstraraðila. Það var aldrei gert ráð fyrir því að fagfólk sæi um daglegt heimilishald, heldur var gert ráð fyrir því að utanaðkomandi fagfólk kæmi að starfinu og veitti handleiðslu og stuðning. Allan starfstíma okkar voru sálfræðingar, uppeldisfræðingar og annað fagfólk okkur til halds og trausts og voru leiðandi um meðferðarstefnu og starf heimilisins. Því hefur einnig verið haldið fram að ekkert virkt eftirlit hafi verið með heimilinu heldur hafi eftirlitsaðilar verið persónulegir vinir okkar og eftirlitsferðir verið notaðar til þess að fara saman út að borða og fleira í þeim dúr. Þetta er uppspuni. Samskipti okkar við eftirlitsaðila voru góð en það er af og frá að eftirlitsferðir hafi verið einhverskonar vinafundir. Fulltrúar Barnaverndarnefnda sem áttu frumkvæði að ráðstöfun barns á heimilið, komu ásamt foreldrum á inntökufund og á samráðsfundi á tveggja til þriggja mánaða fresti að jafnaði. Hér má benda á að stúlkur sem vistaðar voru hjá okkur hafa haldið því fram að þegar von var á eftirliti hafi húsið verið þrifið hátt og lágt. Má af þeim skilja að það hafi ekki verið venjuleg þrif eins og fram fara þegar von er á gestum, heldur höfum við verið mjög stressuð yfir hverju rykkorni. Það stemmir illa við þá hugmynd að væntanlegir gestir hafi verið návinir okkar. Sannleikurinn er sá að húsið var þrífið á hverjum fimmtudegi á sama hátt, án tillits til þess hvort von var á gestum eða ekki. Eftirliti Barnaverndarstofu Eftirliti með heimilinu var þannig háttað að eftirlitsaðilar BVS heimsóttu heimilið reglulega. Þær/þau ræddu við meðferðaraðila og hvern vistungling í einrúmi. Þessar heimsóknir áttu sér stað tvisvar sinnum á hvorri skólaönn, annað skiptið skipulagt en hitt óvænt. Frá árinu 2003 var einnig haft ytra eftirlit með meðferðarheimilum. Það var í höndum óháðs sálfræðings sem einnig ræddi einslega við hvern vistungling. Einnig kom þáverandi forstjóri BVS í heimsókn fjórum til fimm sinnum á ári. Hann sinnti eftirliti með framkvæmd þjónustusamnings, t.d. að fullnægjandi sálfræði- og önnur sérfræðiþjónusta væri veitt af heimilinu. Oft þótti skjólstæðingum okkar reglur of strangar, eins og vænta má þegar unglingur sem lengi hefur ráðið sér sjálfur þarf skyndilega að fara eftir reglum, en aldrei komu þó fram ásakanir um ofbeldi í þessum viðtölum. Auk starfsfólks heimilisins höfðu stúlkurnar aðgang að kennurum og heilbrigðisstarfsfólki. Þær gátu jafnframt hringt í foreldra sína og farið heim í fríum, allt eftir því á hvaða þrepi þær voru staddar á en að því verður vikið síðar. Þá er það rangt að eftirlitsaðilar og annað fagfólk hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni. Trúnaðarskylda gagnvart barni á vistheimili nær auðvitað ekki til þess að þegja yfir ofbeldi eða öðrum atriðum sem varða velferð þess enda snýst barnaverndarstarf einmitt um að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og veita barni aðstoð við að vinna úr áföllum. Þeir fagaðilar sem önnuðust meðferð unglingana höfðu þá stefnu að segja frá þeim hluta samtals við ungling, sem að gagni mætti koma í meðferð viðkomandi og mikilvægt að okkur væri kunnugt um. Upplýsingar frá eftirlitsaðilum komu ekki inn á okkar borð nema unglingur hefði samþykkt það eða óskaði sjálfur eftir því. Af þessu má augljóst vera að BVS brást ekki eftirlitshlutverki sínu. Meydómsrannsóknir og trúarofstæki 2. hluti Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að unglingar sem í mörg ár hafa ráðið sér sjálfir og haldið oft á tíðum bæði heimilum sínum og skólum í herkví, upplifi það sem ofbeldi þegar þeim eru sett mörk. Það kemur aftur á móti verulega á óvart að í umfjöllun um Varpholt/Laugaland sé dregin upp mynd af heimili sem grundvallist á siðferðilegum eða trúarlegum áherslum. Ég trúi því að margir unglingana hafi upplifað það sem ofbeldi að þurfa að fylgja reglum. En ég trúi því hins vegar ekki að nokkur einasta þeirra hafi talið sig vera lentar í einhverskonar trúarkölti. Meydómsrannsóknir Stúlkur sem vistaðar voru á Varpholti/Laugalandi hafa haldið því fram að þær hafi verið sendar til kvensjúkdómalæknis vegna þess að forstöðumenn heimilisins hafi viljað komast að því hvort þær væru hreinar meyjar. Ekkert er hæft í því og erfitt að gera sér í hugarlund hvaða tilgangi þær upplýsingar hefðu átt að þjóna fyrir meðferðarstarfið. Vandi þessara stúlkna var ekki sá að þær hefðu stundað kynlíf heldur sá að börn í áfengis- og vímuefnavanda eru oft útsett fyrir kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, kynsjúkdómum og ótímabærum getnaði. Í meðförum meintra þolenda voru það ekki bara “vonda fólkið” sem ráku heimilið sem höfðu óeðlilegan áhuga á kynhegðun stúlknanna heldur á heilbrigðisstarfsfólk að hafa tekið þátt í því líka, Á þessum tíma, rétt eins og nú, giltu lög um skyldur heilbrigðisstarfsfólks og réttindi sjúklinga. Í umræðunni um Varpholt/Laugaland hefur ekkert komið fram um það að nokkur læknir hafi framkvæmt meintar meydómsrannsóknir, enda var aldrei um slíkt að ræða. Engin stúlka á Varpholti/Laugalandi fór til læknis að tilefnislausu. Sérlækningar voru alltaf í boði fyrir stúlkurnar, kæmu upp aðstæður þar sem sjúkdómseinkenna var vart. Þar með talið á sviði kvensjúkdómalækninga. Trúarofstæki Nokkrar stúlknanna sem dvöldu hjá okkur hafa gefið til kynna að starfsemi heimilisins hafi verið á trúarlegum grundvelli og einkennst af trúarofstæki. Því hefur m.a. verið haldið fram að stúlkurnar hafi verið þvingaðar til að sækja samkomur hjá Hvítasunnukirkjunni. Það á sér enga stoð í raunveruleikanum. Varpholt/Laugaland var ekki og átti aldrei að vera rekið sem kristið heimili. Þegar Varpholt hóf starfssemi sína var hugsunin sú að þarna væri rekin meðferð fyrir unglinga með áfengis-og vímuefnavanda. Það var vitað að sú meðferð yrði aldrei rekin með sama hætti og meðferð fyrir fullorðna einstaklinga. Eitt af því sem tekið var upp frá byrjun var að fara með Faðirvorið í lok kvöldfunda og Æðruleysisbænina í lok morgunfunda eins og oft tíðkast á AA fundum. Þegar fram liðu stundir fóru að koma unglingar með annarskonar vanda og farið var að leggja áherslu á aðra þætti í meðferðinni, þessi siður hélst þó áfram. Um tíma starfaði hjá okkur einstaklingur sem tilheyrði Hvítasunnukirkjunni. Við áttum líka vinafólk sem komu stundum í heimsókn til okkar m.a. afmælisveislur og aðra viðburði tengda heimilinu. Góður vinskapur varð milli nokkurra vistunglinga og unglingana í kirkjunni og þeim var leyft að taka þátt í unglingastarfinu þar. Þetta varð til þess að unglingar frá kirkjunni kom og spiluðu fótbolta með vistunglingum og starfsfólki einu sinni í viku. Einnig fóru vistunglingar með kunningjum sínum úr kirkjunni í ferð til Færeyja. Þátttaka vistunglinga í þessu starfi var algerlega á forsendum þeirra sjálfra því trúarstarf var aldrei hluti af meðferðinni. Ýmislegt annað var gert stúlkunum til afþreyingar um helgar, t.d. voru oft farnar skíðaferðir í Hlíðarfjall á veturnar og í gönguferðir á sumrin. Stundum voru farnar lengri ferðir, t.d. í Grímsey, Hrísey, uppá öræfi og í tjaldútilegur.Einnig var farið í utanlandsferðir, það gat þó farið eftir ástandinu í húsinu hverju sinni. Meintar líkamsárásir 3. hluti Í umræðunni um Varpholt/Laugaland beinast alvarlegustu ásakanirnar að mér persónulega. Lýsingar á kerfisbundnum líkamsárásum gjarnan lífshættulegum, sem mér eru eignaðar, eru efni í hryllingsmynd. Einnig hefur Áslaug verið sökuð um líkamlegt ofbeldi. Ekkert er þó sem bendir til að þessar ásakanir eigi við rök að styðjast. Ofbeldi eða lögmæt valdbeiting? Ég hafna því alfarið að hafa gengið fram með ofbeldi gagnvart skjólstæðingum mínum. Hitt er svo annað mál að í öllu barnaverndarstarfi og reyndar meðferðarstarfi almennt, er gert ráð fyrir því að upp geti komið tilvik þar sem nauðsynlegt er að grípa til valdbeitingar til þess að stöðva óásættanlega hegðun eða að koma skjólstæðingnum úr aðstæðum sem gera illt ástand verra. Það getur t.d. þurft að stöðva sjálfskaðandi hegðun, hegðun sem ógnar öryggi og velferð annarra, eða afstýra skemmdarverkum. Slík valdbeiting er lögmæt og miðar ekki að því að meiða skjólstæðinginn, heldur að koma á friðsamlegu ástandi. Lögmæt valdbeiting getur falist í því að færa viðkomandi af einum stað á annan eða halda skjólstæðingnum kyrrum þar til hann hefur náð ró sinni. Á þeim tíu árum sem heimilið var rekið kom því miður sex sinnum til þess að grípa þurfti til lögmætrar valdbeitingar. Lögmæt valdbeiting felur ekki í sér barsmíðar, hrindingar, kyrkingartak, að fólk sé dregið á hárinu, dregið berfætt eftir vegi eða að manneskju sé kastað niður stiga, hvað þá að vistunglingur hafi verið einangraður í herbergi í tvær vikur. Ekkert er hæft í þeim sögum enda hefur enginn starfsmaður staðfest neitt í þá veru. Það verður að teljast ósennilegt að starfsmennirnir væru slík vesælmenni að þeir hefðu horft upp á stórhættulegar líkamsárásir hvað eftir annað án þess að bregðast við á nokkurn hátt. Afbakaðar og rangar atvikslýsingar Sögur um að ég hafi barið stúlkurnar sundur og saman, kýlt þær í andlitið, dregið þær á hárinu, dregir þær eftir malarvegi, þrengt að öndunarvegi þeirra eða einangrað ungling í tvær vikur eru uppspuni frá rótum. Í umfjöllum fjölmiðla segja einnig margar af stúlkunum að þeim hafi verið hent niður stiga. Ekkert er hæft í þeim ásökunum. Það er vægast sagt undarlegt að tilkynningar um margítrekaðar, lífshættulegar líkamsárásir hafi ekki komið fram á þeim tíma sem þær eiga að hafa átt sér stað. Þá er stórfurðulegt að annað starfsfólk eða kennarar í Þelamerkurskóla og síðar Hrafnagilsskóla, sem komu alla virka daga á heimilið hafi ekkert orðið vart við þær misþyrmingar sem ítrekað hefur verið lýst í fjölmiðlum og að barnaverndaryfirvöld hafi ekki brugðist við slíkum tilkynningum. Það skyldi þó ekki vera að barnaverndaryfirvöld hafi haft aðrar upplýsingar en blaðamenn. Óttastjórnun og andlegt ofbeldi 4. hluti Í umfjöllun um vistheimilið að Varpholti/Laugalandi hafa fyrrum viststúlkur lýst andlegu ofbeldi. Staðhæft er að starfsemin hafi einkennst af óttastjórnun, stúlkurnar hafi verið hræddar til hlýðni með öskrum og hótunum. Einnig eigum við Áslaug að hafa svívirt þær í orðum m.a. með því að kalla þær samkynhneigðar, hórur, druslur, tíkur og illa innrættar. M.a. eigum við að hafa dregið stúlkurnar sjálfar til ábyrgðar fyrir kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi sem þær kunnu að hafa orðið fyrir. Ekki er nokkur fótur fyrir slíkum ásökunum. Óttastjórnun Ég kannast ekki við þá harðstjórnartakta sem mér eru ætlaðir, hvorki hvað varðar líkamlegar misþyrmingar né meinta óttastjórnun. Meðferðarkerfið sem við unnum eftir var þrepakerfi sem ætlað var til þess að hjálpa stúlkunum til að átta sig á stöðu sinni hverju sinni. Markmiðin voru skýr og þær vissu nákvæmlega hvað þær þyrftu að gera til að komast upp á næsta þrep og njóta þeirra fríðinda sem því fylgdi. Sömuleiðis vissu þær nákvæmlega að ef þær uppfylltu ekki þær kröfur sem tilheyrðu þrepinu myndu þær færast aftur niður um þrep. Starfsfólkið þurfi því ekki að standa í málalengingum við þær um ábyrgð og ábyrgðarleysi, það var á þeirra ábyrgð að standa sig. Vissulega kom það fyrir að starfsmaður þyrfti að byrsta sig enda er það eðlilegt að unglingar sem hvorki hafa rekist í skóla né á heimili láti reyna á það hvar mörkin liggja. En það stóð enginn á öskrinu eða sýndi af sér annað stjórnleysi. Aftur á móti ræddum við afleiðingar þess að fara ekki eftir reglum. Það telst ekki óttastjórnun að benda unglingi á að hegðun hans sé að nálgast það stig að hann geti búist við að það hafi afleiðingar. Það er heldur ekki óttastjórnun að gera barni á afbrotabraut grein fyrir því að lífsstíll þess, félagsskapurinn sem það velur sér, framkoma þess við aðra og þau viðhorf sem það ræktar með sér, geti ráðið úrslitum um það hvort næsti viðkomustaður þess verði framhaldsskóli eða fangelsi. Það er heldur ekkert hæft í því að stúlkurnar hafi setið undir svívirðingum af hálfu forstöðumanna eða annars starfsfólks. Mögulega er rótin að aðdróttunum um að við höfum kallað stúlkunar aumingja sú að við ræddum auðvitað það líferni sem þær voru að koma úr og sóttu margar í áfram. Ég kannast við að hafa spurt hvað þær héldu að yrði um þær ef þær héldu áfram á þeirri braut. Ég kannast ekki við að hafa kallað nokkra stúlku hóru, hvað þá að hafa látið sem þær bæru ábyrgðina á nauðgunum og öðru ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir. En ég kannast við að hafa bent á að vímuefnaneysla og önnur áhættuhegðun auki líkur á ofbeldi og öðrum áföllum. Svívirðingar og andlegt niðurrif Það eru ósannindi að við forstöðuhjónin höfum svívirt skjólstæðinga okkar í orðum. Ekkert er hæft í því að við höfum kallað stúlkurnar hórur, druslur, tíkur eða öðrum ónefnum. Það er líka fjarri sannleikanum að við höfum sagt stúlkunum að það yrði aldrei neitt úr þeim og þær myndu enda sem aumingjar og hórur eða annað í þá veru. Þvert á móti lögðum við áherslu á að þær hefðu það sjálfar í hendi sér hver framtíð þeirra yrði. Það er auðvitað ekkert skemmtilegt að horfast í augu við að partýið er búið. Það er alltaf sárt fyrir þann sem er búinn að mála sig út í horn að skoða sjálfan sig með augum annarra. En það er ekki andlegt niðurrif að reyna að fá viðkomandi til þess, heldur er það mikilvægur þáttur í meðferð. Á þeim tíma sem heimilið var rekið var oft talað um að meðferð gæti falist í því að "brjóta einstaklinginn niður og byggja hann síðan upp aftur". Þetta orðalag veldur oft misskilningi. Í fræðunum er ekki átt við að meðferðaraðilar eigi að svipta skjólstæðinga sína sjálfsvirðingunni, heldur er stefnt að því að brjóta niður falskt sjálfsöryggi sem birtist í áhættuhegðun, hroka og yfirgangi og leiða skjólstæðinginn inn á braut sem gefur grundvöll til sjálfsvirðingar sem innistæða er fyrir. Það á ekkert skylt við andlegt ofbeldi að gera unglingi grein fyrir því að áhættuhegðun sé ekki töff heldur til þess fallin að valda margskonar tjóni. Ég sé reyndar ekki að það sé hægt að veita unglingum með vímuefnavanda aðstoð án þess að reyna að fá þá til að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem þeir eru í. Meðferðin á vistheimilinu 5. hluti Eitt af því sem okkur, stjórnendum Varpholts/Laugalands hefur verið legið á hálsi fyrir, er það að reglur hafi verið allt of strangar og meðferðaraðferðir skaðlegar. Ég hef enn ekki heyrt nein dæmi um það hvaða reglur það voru sem þóttu svona strangar. Var það reglan um að allir ættu að taka þátt í daglegum heimilisstörfum? Eða reglan um að allir ættu að fara á fætur á morgnana? Eða reglan um að ekki mætti nota áfengi og vímuefni? Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að við höfum hvergi misstigið okkur en þar sem lýsingar nokkurra fyrrum skjólstæðinga okkar eru illilega afbakaðar er rétt að fjalla aðeins um meðferðina sjálfa. Þrepakerfið Hvað varðar meðferðaraðferðir þá voru þær í eðli sínu ekkert frábrugðnar því sem gerist almennt í meðferð sem miðar að því að breyta hegðun og viðhorfum. Við unnum eftir þrepakerfi sem var í þróun megnið af þeim tíma sem heimilið var rekið. Hugmyndin á bak við þrepakerfi í meðferð er sú að skjólstæðingurinn hagnist á því að vera til samstarfs. Eftir að hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru á hverju þrepi í tiltekinn tíma fékk unglingurinn umbun og færðist upp um þrep. Hverju þrepi fylgdu ákveðin fríðindi sem voru ekki í boði á lægri þrepum. Það þurfti því ekkert að ræða það hvort stúlka fengi t.d. helgarleyfi því það fylgdi tilteknu þrepi og stúlkan vissi nákvæmlega hvað hún þyrfti að gera til að komast á það þrep. Allir vistunglingar sem komu í meðferð til okkar byrjuðu áfyrsta þrepi þar sem þeir voru undir miklu eftirliti. Hugmyndin var ekki sú að refsa fyrir að hafa lent í óreglu, heldur að taka af unglingnum ráðin, árétta að þetta væri ný byrjun og gera það ljóst frá upphafi að leiðin að betra lífi væri í þeirra eigin höndum. Stúlka sem var að hefja meðferð dvaldi heimavið fyrstu þrjá dagana áður en hún fékk að taka þátt í leik og starfi utan heimilisins. Eftir þessa þrjá daga var það undir stúlkunni komið hvert framhaldið yrði. Ef vel hafði gengið þessa þrjá daga færðist stúlkan strax upp um þrep. Ef stúlka var í mótþróa og vildi ekki fara eftir reglum var henni velkomið að dvelja lengur á fyrsta þrepi eða þar til hún yrði tilbúin að taka þátt í meðferðinni. Stúlka sem stóð ekki undir þeim kröfum sem gerðar voru á því þrepi sem hún var á, færðist niður um þrep. Að sjálfsögðu upplifir unglingur það sem refsingu að færast niður um þrep, rétt eins og sumum nemendum finnst ósanngjarnt að falla á prófi. Það er langt frá því að þessi meðferð hafi verið einstök. Flest vistheimili fyrir unglinga sem rekin voru með samningi við BVS á þessum tíma studdust við þrepakerfi af einhverju tagi. Ég kannast ekki við að á Varpholti og Laugalandi hafi gilt strangari reglur en annarsstaðar. Eitt sem ég vildi t.d. ekki taka upp var að taka fíkniefnapróf af skjólstæðingum okkar þegar þeir komu aftur eftir heimfararleyfi. Flest sem sagt hefur verið um meðferðina á vistheimilinu í fjölmiðlum er komið mjög langt frá veruleikanum. Rangfærslur um refsingar Rétt er að taka tvö dæmi sem mest hafa afbakast í meðförum fyrrum vistbarna okkar annað um meinta refsingu og hitt um meðferðaraðferð. Því hefur verið haldið fram að þegar stúlkur brutu reglur hafi þeim verið refsað með því að þeim hafi verið gert að klæðast sérstökum galla og að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við þær. Þetta er ömurleg hugmynd sem minnir helst á tossahattinn sem víða tíðkaðist á fyrri öldum og ekki að furða þótt fólk hneykslist þegar það veit ekki sannleikann í málinu. Upphaf þess að Russelgallinn var keyptur var sá að ein stúlknanna stakk upp á því að keyptur yrði þægilegur og hlýr galli sem hún fengi að nota á meðan hún væri á byrjunar þrepi. Notkun gallans breyttist þó fljótt og varð hann síðan notaður af unglingum sem komu tilbaka eftir strok. Að einhverjum tíma liðnum hvarf gallinn, þegar unglingur strauk í honum. Staðhæfingar um að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við stúlku sem klæddist gallanum eru uppspuni frá rótum. Unglingur sem var í þessum galla tók ekki þátt í hefðbundinni dagskrá útávið, hvorki skóla né félagslífi. Einnig fullyrðir einn vistunglingur að hún hafi þurft að sofa á milli okkar hjónana í refsingaskini fyrir að vilja ekki fara með Faðirvorið í lok kvöldfundar. Þessi fullyrðing á sér enga stoð í raunveruleikanum og óskiljanlegt hvernig nokkrum dettur í hug að halda slíku fram. Það kom fyrir að unglingur neitaði að taka þátt og það var allt í lagi. Annar unglingur hefur greint frá því að allir hafi verið viktaðir á föstudögum. Ekkert er hæft í þeirri fullyrðingu enda erfitt að ímynda sér hver væri tilgangurinn með því. Hálfsannleikur um meðferðaraðferðir Það sem helst hefur verið nefnt sem skaðleg og niðurlægjandi meðferðaraðferð eru fundir þar sem ein stúlknanna hafi verið tekin fyrir og brotin niður. Í fjölmiðlum hefur framsetningin verið með þeim hætti að lesandi/áhorfandi sem veit ekkert um málið, ályktar að starfsfólk hafi tekið eina stúlku í senn fyrir, án þess að hún hefði neitt um það að segja og niðurlægt hana fyrir framan hinar stúlkurnar. Þetta er illa afbökuð mynd af veruleikanum. Meðferðaraðferðin sem verið er að vísa til hefur verið kölluð „speglun“. Hún er ekki mitt hugarfóstur heldur hefur hún verið notuð í meðferðarstarfi víða um heim m.a.í áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi. Þessi aðferð er hugsuð sem aðstoð jafningja við að skoða sjálfan sig með augum annarra og er ætluð fyrir fólk í meðferð sem langar að vita hvort það sé á réttri leið með sjálfsvinnuna og vill fá „speglun“ til að skoða hvort það geti gert eitthvað frekar til ná þeim árangri sem að er stefnt í meðferðinni. Fólk var aldrei sett í „speglun“ gegn vilja sínum enda væri þá útilokað að fá viðkomandi til að taka til sín það sem betur má fara. Sá sem er til umræðu getur gert ráð fyrir því að fá að heyra neikvæða hluti um sjálfan sig, ekki þá frá meðferðaraðilum heldur fyrst og fremst frá öðrum vistunglingum og þarf að vera tilbúinn til að vinna úr því. Hlutverk meðferðaraðilans á fundinum er að leiða umræðuna þannig að hún gagnist skjólstæðingnum og m.a. að koma í veg fyrir að fundurinn fari út í ómálefnalegar árásir og eða einelti. Við vorum hikandi við að nota þessa aðferð með svo ungu fólki en ákváðum að láta á það reyna. Fljótlega komust við að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki hentug aðferð fyrir unglinga. Stúlkurnar voru dómharðar hver við aðra og gagnrýni þeirra oftar en ekki allt of vægðarlaus til þess að vera uppbyggileg. Við tókum því þessa aðferð því út af dagskránni eftir skamma notkun. Félagsleg einangrun og rofin tengsl við fjölskyldur 6. hluti Auk þess sem stúlkur á Varpholti og Laugalandi eiga að hafa búið við alvarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi, trúarinnrætingu, ómannúðlegar meðferðaraðferðir og refsingar í stíl 19. aldar, hefur því verið haldið fram að þær hafi sætt félagslegri einangrun og þeim hafi verið bannað að tala við foreldra í síma nema staðið væri yfir þeim. Við eigum m.a.s. að hafa banna heimför um jól. Það er ekki rétt að foreldrum hafi verið meinaður aðgangur að unglingunum. Hið rétta er að á heimilinu giltu reglur um heimsóknir. Þetta var meðferðarheimili en jafnframt heimili okkar. Það var ákveðin dagskrá sem þurfti að taka tillit til og því ekki heppilegt að gestir væru að banka upp á án þess að gera boð á undan sér. Við stóðum aldrei í vegi fyrir að foreldri kæmi og ætti skipulagða samverustund með unglingnum sínum ef farið var fram á það. Það kom þó sjaldan fyrir þar sem stúlkurnar fengu regluleg heimfararleyfi, allt eftir því hversu langt þær voru komnar í meðferðinni. Foreldrar komu á samráðsfundi á þriggja mánaða fresti og oftar ef með þyrfti. Einnig voru haldnar sameiginlegar fjölskylduhelgar með foreldrum og unglingum að Gistiheimilinu á Öngulstöðum, einu sinni á hvorri skólaönn í umsjá okkar og utanaðkomandi fagaðila. Þá hélt fagfólk m.a. fyrirlestra um samskipti foreldra og barna og um eflingu foreldrafærni, fjölskyldusamtöl voru haldin með unglingunum og viðkomandi fjölskyldu og unglingarnir nutu samvista við foreldra sína. Enginn fótur er fyrir því að við höfum komið í veg fyrir heimferðir vistbarna um jól eða í öðrum fríum. Satt að segja erum við ekkert frábrugðin öðru fólki að því leyti að jólafrí í friði og ró með fjölskyldunni var vel þegið. Ef unglingur var hjá okkur yfir hátíðar þá voru allt aðrar ástæður fyrir því en okkar óskir eða ákvörðun. Vistunglingar dvöldu að jafnaði 30 til 50 daga á ári hjá fjölskyldum sínum. Á þessum 10 árum gerðist það tvisvar að unglingar voru hjá okkur yfir áramót að ósk foreldra og í einu páskaleyfi kom foreldri og dvaldi með sínu barni á heimilinu meðan við rekstraraðilar voru fjarverandi. Það eina sem hæft er í ásökunum um einangrun stúlknanna frá fjölskyldum sínum er það að á fyrsta þrepi fengu skjólstæðingar okkar símtöl undir eftirliti. Fyrir því var einkum ein ástæða. Unglingar sem eru skikkaðir í meðferð eru oft mjög reiðir við foreldra sína, sem sjálfir eru að reyna að vinna sig út úr meðvirkni, eru niðurbrotnir af samviskubiti og þurfa síst á því að halda að hlusta á ásakanir og ljót orð. Ég leyfi mér að fullyrða að hafi tengsl vistbarna okkar við fjölskyldur sínar rofnað, þá sé orsökin fyrir því önnur en sú að þeim hafi í þrjá daga, verið synjað um tækifæri til að tala við aðstandendur í einrúmi. Áður en til inntöku gat komið, var haldin kynningarfundur með unglingnum, foreldrum, fulltrúa barnarverndarnefndar, rekstraraðilum og sálfræðingi heimilisins. Þar var meðferðin kynnt og farið yfir reglur og þrepakerfi. Inntökufundur sömu aðila var oftast haldin tveimur vikun síðar. Á þessum fundum var farið yfir mikilvægi þess að meðferðaraðilar væru viðstaddir þegar unglingurinn hringdi heim til foreldra sinna fyrstu þrjá dagana, þegar mótþróinn er sem mestur. Tilgangurinn var að hlífa foreldrum við ásökunum og reiði unglingsins. Í nokkur skipti kom til þess að slíta þurfti samtali. Lokaorð Sú rógsherferð, sem staðið hefur yfir á fjórða ár náði hámarki með sýningu þáttaraðar um vistheimili á Íslandi, sem sýnd var á Stöð 2 í júní í sumar. Stúlkurnar hafa lagt áherslu á að þöggun ríki um þetta mál og lýsingarnar hafa orðið grófari og grófari eftir því sem tímin líður. Ekkert er sjáanlegt sem styður þær fullyrðingar. Þátturinn um Varphlt/Laugaland er að okkar mati byggður á ófaglegum forsendum þar sem þáttastjórnandi hafði ekki metnað í að kynna sér eða skoða málið frá sjónarhóli starfsfólks, kennara, skólastjórnenda, sálfræðinga, eftirlitsaðila og/eða annarra sem komu að daglegri meðferð unglingana. Við erum afskaplega stolt af því starfi sem unnið var á Varpholti/Laugalandi. Af 66 vistunglingum luku nánast allir grunnskólaprófi með sóma, mikill fjöldi fór í framhaldsnám og margir hafa lokið háskólanámi. Meirihluti skjólstæðinga okkar náði tökum á vandamálum sínum og margir þeirra héldu sambandi við okkur í mörg ár eftir að meðferð lauk. Við hörmum þá ákvörðun stjórnvalda að hafa lagt niður unglingaheimilin sem gátu þegar mest lét, veitt allt að 50 unglingum meðferð í senn og á þann hátt létt miklu álagi af unglingunum, heimilum þeirra, skólum og samfélagi. Leiða má líkum að því að þau vandamál sem við er að etja í málefnum unglinga í dag væri viðráðanlegri ef þau sem stærstan vandann hafa fengju aðstoð af því tagi sem fannst á þessum heimilum. Með þessari grein erum við Áslaug að svara þessum ásökunum í eitt skipti fyrir öll. Við höfum ekkert meira um málið að segja að svo stöddu, enda eru málaferli framundan þessu tengdu. Þessa vegna frábiðjum við okkur símtöl eða viðtöl við fréttamiðla. Þær ávirðingar sem á okkur hafa verið bornar eru mun fleiri en þær sem við höfum reynt að svara hér, enda væri að æra óstöðugan að ætla að svara þeim öllum í einni grein. Að öðru leyti vísum við í lögfræðing okkar Evu Hauksdóttur, hdl. Október 2024 Ingjaldur Arnþórsson Áslaug Herdís Brynjarsdóttir
Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson skrifar
Skoðun Börðust afar okkar til einskis í Þorskastríðinu? Hugleiðing um ESB Haukur Ingi S. Jónsson skrifar
Skoðun Á ferð um Norðvesturkjördæmi Arna Lára Jónsdóttir,Hannes Sigurbjörn Jónsson,Jóhanna Ösp Einarsdóttir,Magnús Eðvaldsson skrifar