Sann­gjarn sigur Liverpool og meistararnir að hel­tast úr lestinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Liverpool vann sanngjarnan sigur gegn Englandsmeisturunum í dag.
Liverpool vann sanngjarnan sigur gegn Englandsmeisturunum í dag. James Gill - Danehouse/Getty Images

Liverpool vann nokkuð sannfærandi 2-0 sigur er liðið tók á móti Englandsmeisturum Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Heimamenn í Liverpool voru vægast sagt mun hættulegri aðilinn í leik dagsins og ógnuðu marki gestanna nánast stanslaust fyrri hluta fyrri hálfleiks. 

Stefan Ortega, sem byrjaði í marki gestanna á kostnað Ederson, þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum á upphafsmínútum leiksins og eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik átti Virgil van Dijk skalla í stöng. Örfáum andartökum síðar kom fyrsta markið loksins þegar Cody Gakpo potaði boltanum yfir línuna eftir afar snyrtilega fyrirgjöf frá Mohamed Salah.

Þrátt fyrir áframhaldandi yfirburði heimamanna reyndist þetta eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn aðeins, en það voru þó áfram heimamenn í Liverpool sem voru líklegari aðilinn í leiknum. Það skilaði sér þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma þegar Stefan Ortega sópaði löppunum undan Luis Diaz og vítaspyrna var dæmd.

Egyptinn Mohamed Salah fór á punktinn, þrátt fyrir að hafa klikkað á vítaspyrnu í miðri viku gegn Real Madrid. Í þetta skipti brást honum þó ekki bogalistinn og Salah skoraði af miklu öryggi framhjá Ortega í markinu.

Fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan varð 2-0 sigur Liverpool, sem nú er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar. Liðið hefur 34 stig eftir 13 leiki, ellefu stigum meira en Manchester City sem situr í fimmta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira