Skoðun

Nýtt húsnæðislána­kerfi að danskri fyrir­mynd?

Jónas Már Torfason skrifar

Meðal kosningaáherslna Flokks fólksins í yfirstandandi kosningabaráttu er að stofna nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. En er hægt að taka það upp á Íslandi? Stutta svarið er nei.

Hvernig virkar danska húsnæðislánakerfið?

Danskir bankar og húsnæðislánastofnanir (d. realkreditinstitution) veita að meginstefnu tvennskonar lán: hefðbundin bankalán (d. kontantlån) og húsnæðislán (d. realkreditlån). Sérstaða danska lánakerfisins er í síðarnefndri lánategundinni.

Í stuttu máli er hvert húsnæðislán sem er veitt af dönskum bönkum og húsnæðislánastofnunum fjármagnað með útgáfu viðkomandi banka eða húsnæðislánastofnunnar á húsnæðisskuldabréfi (d. realkreditobligation) sem selt er á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði. Vaxtakjör húsnæðislána byggja á því verði og þeim vaxtakjörum sem lánastofnanir geta fengið fyrir sölu þessara skuldabréfa á markaði (þ.e. vaxtakjörin sem lánastofnanirnar borga á markaðinum), að viðbættu lágu vaxtaálagi (um 0,5%) sem rennur til lánastofnunarinnar. Vextir á húsnæðislánum eru alltaf fastir og geta verið til 30 ára hið mesta. Lánshlutfallið ræðst af tegund húsnæðis, 80% fyrir íbúðarhúsnæði.

Réttur lántaka í þessu kerfi er tryggður með sérstakri löggjöf. Ef vextir lækka getur lántaki alltaf endurfjármagnað sig á pari (þ.e. endurkeypt skuldabréfið fyrir eftirstöðvar þess). Ef vextir hækka (og verð skuldabréfsins lækkar á markaði) getur lántaki hins vegar líka endurkeypt skuldabréfið á markaðsvirði og þannig lækkað höfuðstól lánsins umtalsvert. Forsendur kerfisins eru þekktar og þessi sérkjör lántaka því endurspegluð í verði húsnæðisskuldabréfanna.

En af hverju er ekki hægt að taka upp kerfið á Íslandi?

Langa svarið gæti fjallað um að danska húsnæðislánakerfið treystir að nær öllu leyti á sérstöðu danska efnahagsins. Það eru engir töfrar faldir í danska húsnæðislánakerfinu. Það byggir í einu og öllu á fjármögnunarkjörum á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.

Verðbólga er sögulega mjög lág og mjög stöðug í Danmörku og gjaldmiðillinn sömuleiðis. Danskar fjármálastofnanir eru hlutfallslega mjög stórar og njóta góðra fjármögnunarkjara. Dönsk húsnæðisskuldabréf eru þekkt fjárfestingarvara og húsnæðisskuldabréfamarkaðurinn í Danmörku er næst stærsti húsnæðislánamarkaður í Evrópu.

Allt þetta veitir fjárfestum á markaði öryggi í að húsnæðisskuldabréfin séu góð fjárfestingarvara og gerir þeim kleift að binda í þeim fé á föstum vöxtum til langs tíma.

Spurningin er þannig ekki hvort hægt sé að taka upp danskt húsnæðislánakerfi. Það er auðvitað hægt en kjörin á lánunum munu áfram ráðast af íslenskum efnahag, íslenskum vöxtum og íslenskri verðbólgu. Við getum reynt að ímynda okkur á hvaða vaxtakjörum erlendir fjárfestar, ef þeir fengjust einu sinni til þess, myndu vilja binda fé á íslenskum markaði í 30 ára á föstum vöxtum, þar sem lántakinn getur alltaf endurfjármagnað sig á pari ef vextir lækka.

Það er ekkert sem kemur í stað hæfilegrar en fyrst og fremst stöðugrar verðbólgu og hæfilegs framboð húsnæðis. Til þess þarf langtímahugsun, ábyrga efnahagsstjórn og aðgerðir til að tryggja framboð á húsnæði. Það þarf að hugsa hlutina í samhengi; það þarf plan. Ég treysti Samfylkingunni best til þeirra verka og mun gefa henni atkvæði mitt í komandi alþingiskosningum — svo ég komist nú einhvern tímann heim frá Danmörku.

Höfundur er fjármögnunarlögfræðingur á dönsku lögmannsstofunni Plesner og er með danskt húsnæðislán.




Skoðun

Sjá meira


×