Körfubolti

Landsliðsmenn Stjörnunnar skoruðu saman 53 stig í fyrri hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson er með tíu stig, fimm fráköst og ellefu stoðsendingar eftir fyrri hálfleikinn.
Ægir Þór Steinarsson er með tíu stig, fimm fráköst og ellefu stoðsendingar eftir fyrri hálfleikinn. Vísir/Anton Brink

Stjörnumenn áttu fjóra leikmenn i íslenska landsliðinu sem vann frábæran útisigur á Ítalíu í undankeppni EM í síðustu viku. Þeir eru ennþá allir sjóðandi heitir.

Stjörnuliðið mætir Þór frá Þorlákshöfn í Bónus deild karla í dag og það er óhætt að segja að landsliðsstrákarnir séu illviðráðanlegir fyrir Þórsara.

Stjarnan er með 31 stigs forskot í hálfleik, 71-40, en landsliðsmenn Stjörnunnar skoruðu 53 stig saman í fyrri hálfleik.

Orri Gunnarsson er með 20 stig á 15 mínútum og hitti úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum.

Hilmar Smári Henningsson er með 13 stig á 16 mínútum og hitti úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sínum.

Ægir Þór Steinarsson er með 10 stig og 11 stoðsendingar á 18 mínútum en hann hitti úr fjórum af fimm skotum sínum í hálfleiknum.

Bjarni Guðmann Jónsson er síðan með 10 stig og 5 fráköst á 10 mínútum en hann hitti úr fjórum af átta skotum sínum í hálfleiknum.

Samtals 53 stig og 66 prósent skotnýting eða 19 af 29 skotum ofan í körfuna.

Hin átján stig Stjörnumanna í hálfleiknum hafa skorað þeir Jase Febres (9 stig), Shaquille Rombley (6) og Júlíus Orri Ágústsson (3).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×