Handbolti

Stelpur sem geta lúðrað á markið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, undirbýr liðið fyrir leik við Úkraínu í dag.
Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, undirbýr liðið fyrir leik við Úkraínu í dag. Vísir/Viktor Freyr

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, segir stórtap Úkraínu fyrir Þýskalandi í fyrsta leik á EM ekki gefa til kynna að leikur Íslands við þær úkraínsku í dag verði auðveldur.

Ísland byrjaði mótið vel en tapaði fyrir Hollandi eftir að hafa leitt leikinn lengi vel. Úkraína tapaði með 13 marka mun, 30-17, fyrir Þýskalandi síðar sama dag, í fyrrakvöld.

„Ég held að leikurinn segi meira um styrkleika þýska liðsins, heldur en eitthvað um úkraínska liðið. Þær voru að mæta frábæru liði sem þegar á leið hertu tökin alltaf meira og meira,“ segir Arnar um úrslit þeirra úkraínsku.

„Úkraínska liðið er öflugt lið með öfluga leikmenn. Þær eru líkamlega sterkar og grimmar varnarlega. Við sáum það gegn Þjóðverjum og öðrum í aðdraganda mótsins,“

„Það er þungi í öllum þeirra sóknaraðgerðum. Þær koma af afli í árásir og klippingar í kjölfarið. Þær eru með hörkuskyttur, stelpur sem geta lúðrað á markið vel fyrir utan punktalínu,“ segir Arnar.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Arnar sem má sjá í heild sinni í spilaranum.

Ísland mætir Úkraínu klukkan 19:30 í kvöld. Leiknum verður lýst beint á Vísi og íslenska liðinu fylgt vel eftir fram að leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×