Fótbolti

Rautt spjald eftir þrjá­tíu sekúndur en unnu samt úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marlon Freitas hjá Botafogo hleypur hér um með Copa Libertadores bikarinn ásamt liðsfélögum sínum. Sögulegur dagur fyrir brasilíska félagið.
Marlon Freitas hjá Botafogo hleypur hér um með Copa Libertadores bikarinn ásamt liðsfélögum sínum. Sögulegur dagur fyrir brasilíska félagið. Getty/Buda Mendes

Brasilíska félagið Botafogo er Suðurameríkumeistari félagsliða í fótbolta eftir sigur á Atlético Mineiro í úrslitaleik Copa Libertadores keppninnar.

Botafogo vann leikinn 3-1 sem var spilaður á Estadio Monumental leikvanginum í Buenos Aires í Argentínu.

Leikmenn Botafogo voru manni færri nær allan leikinn því leikmaður þeirra, Gregore, fékk rauða spjaldið eftir aðeins þrjátíu sekúndur.

Gregore var sendur í sturtu eftir ljótt brot á Fausto Vera en það blæddi úr hausnum á Vera eftir þessa fljúgandi tæklingu Gregore.

Botafogo komst samt í 1-0 á 35. mínútu þegar Luiz Henrique skoraði. Liðið fékk síðan vítaspyrnu sjö mínútum síðar þar sem Alex Telles, fyrrum leikmaður Manchester United, kom þeim í 2-0.

Mineiro minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiks þegar Eduardo Vargas skallaði inn hornspyrnu Hulk. Botofogo stóðs pressuna og Junior Santos innsiglaði sigurinn í uppbótatíma.

Botafogo tryggði sér um leið sæti í Heimsmeistarakeppni félagsliða í sumar.

Brasilíumenn áttu bæði liðin í úrslitaleiknum og hafa nú unnið keppnina sex ár í röð.

Þetta var líka þriðja árið í röð sem bikarinn fer til Rio de Janeiro því Fluminense vann keppnina 2023 og Flamengo vann hana 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×