Handbolti

Fær­eysku stelpurnar náðu sögu­legu jafn­tefli á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annika Frídheim Petersen, fyrrum markvörður Hauka í Olís deildinni, átti stórkostlegan leik í dag.
Annika Frídheim Petersen, fyrrum markvörður Hauka í Olís deildinni, átti stórkostlegan leik í dag. @EHFEURO

Færeyska kvennalandsliðið í handbolta er með á Evrópumótinu í handbolta í fyrsta sinn og í dag náði liðið í sín fyrstu stóru úrslit á stórmóti.

Færeyjar og Króatíu gerðu þá 17-17 jafntefli í öðrum leik sínum í riðlinum. Króatía var einu marki yfir í hálfleik, 9-8, og tveimur mörkum yfir, 13-11, þegar 23 mínútur voru eftir.

Færeyska liðið komst síðan yfir og endanum voru það Króatar sem jöfnuðu leikinn og tryggðu sér jafntefli.

Þessi úrslit þýða að færeyska kvennalandsliðið var á undan að ná í stig á EM heldur en íslensku stelpurnar sem eru á sínu þriðja Evrópumóti og mæta Úkraínu seinna í kvöld.

Færeysku stelpurnar höfðu tapað með þremur mörkum á móti Sviss í fyrsta leik sinum á meðan Króatarnir töpuðu með átta mörkum á móti Dönum.

Annika Frídheim Petersen, fyrrum markvörður Hauka í Olís deildinni, átti stórleik og varði sautján skot eða 55 prósent skotanna sem komu á hana. Hún var valin besti leikmaður leiksins.

Jana Mittún og Turid Arge Samuelsen voru markahæstar í færeyska liðinu með fimm mörk hvor en Pernille Brandenborg skoraði fjögur mörk. Mittún var einnig með fimm stoðsendingar og hefur gefið fjórtán slíkar í fyrstu tveimur leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×