Afskræming lokunar 1. september 2005 00:01 Menn hafa lengi spáð vel fyrir Burma sem nú er nefnt Mjanmar. Fyrir rúmum fjörutíu árum sögðu bandarískir sérfræðingar að landið væri eitt þriggja landa í Asíu sem fljótlega myndu blanda sér í hóp vel stæðra iðnríkja. Hin voru Íran og Filippseyjar. Svo vill til að þetta eru einmitt þau þrjú ríki Asíu sem á síðustu áratugum hafa dregist aftur úr öðrum ríkjum álfunnar. Burma er nú eitt fátækasta ríki heims. Eftir að ljóst var að Burma væri ekki á leiðinni til iðnvæðingar heyrði ég hollenskan félagsvísindamann lýsa því hvernig landið væri eitt fárra ríkja í heiminum sem virtist hafa afl og getu til þess að marka sér stefnu í samræmi við sína gömlu og þróðuðu menningu. Hann sagði að stefna stjórnvalda tæki mið af heimatilbúnum sósíalisma og af dýpri visku úr búddisma. Þetta hljómaði mjög rómantískt í notalegum fyrirlestrasal í ríkri borg. Nú er hins vegar svo komið að Burma er líklega eina landið í heiminum þar sem almennur áhugi virðist ríkja á því að eitthvert útlent ríki taki sig til og ráðist inn í landið. Þetta var sú tilfinning sem ég fékk af samræðum við menn í Yangoon, höfuðborg Burma. Þar ríkir hrein ógnarstjórn og samtöl um pólitík því ekki beinlínis auðveld. Úrtakið sem ég hafði var því víst öllu minna en Gallup tæki mark á. Nú sé ég hins vegar að blaðamaður frá Economist, sem væntanlega talaði við fleira fólk en ég, komst að þessari sömu niðurstöðu. Sem segir ekki litla sögu í ljósi þess að stoltara fólk finnur maður óvíða á jörðinni. Nóg er auðvitað til af dæmum úr samtímanum um hvernig vond pólitík stórlega skaðar líf heilla þjóða. Það er hins vegar óvíða eins erfitt að finna skiljanlegar ástæður fyrir jafn stórkostlega vondum stjórnarháttum og þeim sem tíðkaðir eru í Burma. Ástæðurnar fyrir pólitískum skelfingum í Mið-Austurlöndum eru til dæmis yfirleitt sæmilega skiljanlegar og það sama má segja með almennum hætti um ríki Afríku. Svo dæmi sé tekið þá eru ræturnar að óöldinni í Írak svo augljósar að flest sem hefur gerst í landinu síðustu misseri hefur verið í fullu samræmi við spár manna um hvað innrás í landið myndi hafa för með sér. Ég sat einmitt við símann í Yangoon í Burma viku fyrir innrásina í Írak og ræddi um klofningslínur á milli ólíkra samfélaga í Írak og þá hættu sem væri á óöld og upplausn í landinu í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna. Ég fékk hins vegar ekki botn í það hvers vegna þetta góða fólk í Yangoon lenti undir svo vondri stjórn. Það er svo sem auðvelt að sjá af hverju Burma hefur orðið fátækara með hverju árinu. Efnahagsstefna landsins er ein sú vitlausasta í heimi. Hagkerfinu er handstýrt af illa menntuðum herforingjum sem hagnast sjálfir á alls kyns einokunarkerfum og leyfisveitingum. Kerfin eru auðvitað sniðin að pólitískum og prívat hagsmunum ráðamanna en sjálfir segjast þeir vera að verja sjálfstæði landins og menningu. Embættismaður stjórnarinnar útskýrði til að mynda fyrir mér að internetið hentaði ekki menningu heimamanna og því væri það lokað almenningi. Hann bauðst til þess að útvega mér heimild til að senda tölvupóst í gegnum tölvu hjá ríkinu en það tæki þrjá daga. Annað var með sama hætti í borginni. Sumt virtist undarleg sérviska, annað hrein grimmd og alls staðar var spilling. Fólk er farið að svelta þarna í einu frjósamasta landi veraldar. Andstæðingar stjórnarinnar eru hnepptir í þrælahald. Herinn hefur drepið þúsundir manna með þrældómi, morðum og aftökum. Sagt er að hann byggi hótel fyrir ferðamenn og vegi að þeim með skipulagðri nauðungarvinnu. Stjórnarandstaðan hvetur líka ferðamenn til þess að sniðganga landið. Til lengri tíma er ástæða til bjartsýni. Fólkið heldur blíðlegri virðingu sinni og reisn hvað sem á dynur. Þótt menntakerfið hafi verið skemmt og landið einangrað leitar fólk enn leiða til þess að læra tungumál og aðra þarfa hluti. Burma er klassískt dæmi um hvernig lokun frá umheiminum skekkir og afskræmir efnahagslíf, pólitík, þjóðlíf og menningu. Sagt er að maðurinn geti lagað sig að öllu nema því einu að vera einn. Það sama má segja um þjóðir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun
Menn hafa lengi spáð vel fyrir Burma sem nú er nefnt Mjanmar. Fyrir rúmum fjörutíu árum sögðu bandarískir sérfræðingar að landið væri eitt þriggja landa í Asíu sem fljótlega myndu blanda sér í hóp vel stæðra iðnríkja. Hin voru Íran og Filippseyjar. Svo vill til að þetta eru einmitt þau þrjú ríki Asíu sem á síðustu áratugum hafa dregist aftur úr öðrum ríkjum álfunnar. Burma er nú eitt fátækasta ríki heims. Eftir að ljóst var að Burma væri ekki á leiðinni til iðnvæðingar heyrði ég hollenskan félagsvísindamann lýsa því hvernig landið væri eitt fárra ríkja í heiminum sem virtist hafa afl og getu til þess að marka sér stefnu í samræmi við sína gömlu og þróðuðu menningu. Hann sagði að stefna stjórnvalda tæki mið af heimatilbúnum sósíalisma og af dýpri visku úr búddisma. Þetta hljómaði mjög rómantískt í notalegum fyrirlestrasal í ríkri borg. Nú er hins vegar svo komið að Burma er líklega eina landið í heiminum þar sem almennur áhugi virðist ríkja á því að eitthvert útlent ríki taki sig til og ráðist inn í landið. Þetta var sú tilfinning sem ég fékk af samræðum við menn í Yangoon, höfuðborg Burma. Þar ríkir hrein ógnarstjórn og samtöl um pólitík því ekki beinlínis auðveld. Úrtakið sem ég hafði var því víst öllu minna en Gallup tæki mark á. Nú sé ég hins vegar að blaðamaður frá Economist, sem væntanlega talaði við fleira fólk en ég, komst að þessari sömu niðurstöðu. Sem segir ekki litla sögu í ljósi þess að stoltara fólk finnur maður óvíða á jörðinni. Nóg er auðvitað til af dæmum úr samtímanum um hvernig vond pólitík stórlega skaðar líf heilla þjóða. Það er hins vegar óvíða eins erfitt að finna skiljanlegar ástæður fyrir jafn stórkostlega vondum stjórnarháttum og þeim sem tíðkaðir eru í Burma. Ástæðurnar fyrir pólitískum skelfingum í Mið-Austurlöndum eru til dæmis yfirleitt sæmilega skiljanlegar og það sama má segja með almennum hætti um ríki Afríku. Svo dæmi sé tekið þá eru ræturnar að óöldinni í Írak svo augljósar að flest sem hefur gerst í landinu síðustu misseri hefur verið í fullu samræmi við spár manna um hvað innrás í landið myndi hafa för með sér. Ég sat einmitt við símann í Yangoon í Burma viku fyrir innrásina í Írak og ræddi um klofningslínur á milli ólíkra samfélaga í Írak og þá hættu sem væri á óöld og upplausn í landinu í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna. Ég fékk hins vegar ekki botn í það hvers vegna þetta góða fólk í Yangoon lenti undir svo vondri stjórn. Það er svo sem auðvelt að sjá af hverju Burma hefur orðið fátækara með hverju árinu. Efnahagsstefna landsins er ein sú vitlausasta í heimi. Hagkerfinu er handstýrt af illa menntuðum herforingjum sem hagnast sjálfir á alls kyns einokunarkerfum og leyfisveitingum. Kerfin eru auðvitað sniðin að pólitískum og prívat hagsmunum ráðamanna en sjálfir segjast þeir vera að verja sjálfstæði landins og menningu. Embættismaður stjórnarinnar útskýrði til að mynda fyrir mér að internetið hentaði ekki menningu heimamanna og því væri það lokað almenningi. Hann bauðst til þess að útvega mér heimild til að senda tölvupóst í gegnum tölvu hjá ríkinu en það tæki þrjá daga. Annað var með sama hætti í borginni. Sumt virtist undarleg sérviska, annað hrein grimmd og alls staðar var spilling. Fólk er farið að svelta þarna í einu frjósamasta landi veraldar. Andstæðingar stjórnarinnar eru hnepptir í þrælahald. Herinn hefur drepið þúsundir manna með þrældómi, morðum og aftökum. Sagt er að hann byggi hótel fyrir ferðamenn og vegi að þeim með skipulagðri nauðungarvinnu. Stjórnarandstaðan hvetur líka ferðamenn til þess að sniðganga landið. Til lengri tíma er ástæða til bjartsýni. Fólkið heldur blíðlegri virðingu sinni og reisn hvað sem á dynur. Þótt menntakerfið hafi verið skemmt og landið einangrað leitar fólk enn leiða til þess að læra tungumál og aðra þarfa hluti. Burma er klassískt dæmi um hvernig lokun frá umheiminum skekkir og afskræmir efnahagslíf, pólitík, þjóðlíf og menningu. Sagt er að maðurinn geti lagað sig að öllu nema því einu að vera einn. Það sama má segja um þjóðir.