Skoðun

Hugur fylgir máli

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar
Sú afstaða sem Ísland átti þátt í að móta varðandi verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrr á þessu ári, fékk einróma stuðning innan FAO á dögunum. Við minnumst þess að ýmsir urðu til þess að gagnrýna okkur fyrir afstöðuna á sínum tíma. Sú stefnumótun var þó engu að síður staðfest samhljóða, með fiskveiðiályktun allsherjaþings Sameinuðu þjóðanna.

Einhverjir töldu það henta sér að ráðast á okkur Íslendinga fyrir þessa stefnumótun, sem var sannarlega í samræmi við okkar sjónarmið, en naut einnig stuðnings stórra fiskveiðiþjóða, svo sem Kanadamanna, Rússa, Japana, Kínverja, Kóreumanna og sjálfs Evrópusambandsins. Í þessu sambandi má nefna frægan leiðara úr Washington Post. Furðulegast af öllu var þó að verða að því vitni að jafnvel íslenskir ábyrgir stjórnmálamenn, lutu svo lágt að reyna að slæma á okkur höggi fyrir afstöðu okkar og voru greinilega tilbúnir að lúta í gras og fórna augljósum hagsmunum Íslands.

Afstaða okkar byggðist á því að móta fyrirkomulag þar sem stigið verði mikilvægt skref til verndunar viðkvæmra vistkera í úthafinu, svo sem kaldsjávarkóralla, neðansjávartinda og hverastrýta, án þess að bönnuð væru tiltekin veiðarfæri og án þess að skapa hið stóra framfylgnivandamál sem hefði fylgt slíku banni.

Þessari stefnumótun, - sem segja má að alþjóðasamfélagið hafi í raun viðurkennt, - höfum við nú fylgt eftir. Samkomulagið sem varð á vettvangi FAO og fyrr er vitnað til, er algjörlega í samræmi við fiskveiðiályktun S.þ.. Mótaðar verða tæknilegar viðmiðunarreglur um verndun hinna viðkvæmu vistkerfa. Þessar reglur munu auðvelda ríkjum að stjórna djúpsjávarveiðum, með þeim hætti að þær valdi ekki skaða. Við sýndum áhuga okkar á þessari ábyrgu stefnumótun með því leggja fram fjármagn, 100 þúsund bandaríkjadali, til þess að auðvelda FAO verkið, enda er almennt viðurkennt að hún sé sú stofnun sem best er til slíkra verka fallin.

Þessi saga er býsna lærdómsrík. Hér gerist það að lítil þjóð hefur jákvæð áhrif á stefnumótun um ábyrga auðlindanýtingu. Við eigum okkar þátt í því, ásamt öðrum, að koma málinu inn á þann vettvang sem bestur er til þess fallinn að vinna því framgang svo vel sé og sýnum hug okkar í verki með því að leggja fram fjármuni til verkefnisins. Það er því algjörlega óumdeilt að við höfum sýnt að hugur fylgir máli, í þessu þýðingarmikla úrlausnarefni.

Höfundur er sjávarútvegsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×