Skoðun

Ógild sameining

Björgvin Guðmundsson skrifar
Umræðan

Samruni REI og GGE

Ég tel að sameining Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy sé ógild. Fundurinn sem ákvað sameininguna var ekki boðaður með löglegum fyrirvara. Boða átti fundinn með sjö daga fyrirvara en fundurinn var boðaður með innan við eins dags fyrirvara.

Lögmæti fundarins hefur verið kært til héraðsdóms. En auk þess var samningur um samruna útrásarfyrirtækjanna (REI og GGE) ekki kynntur nægilega vel fyrir borgarfulltúum. T.d. liggur nú fyrir, að hvorki borgarstjóri né óbreyttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vissu um 20 ára einkarétt REI á þjónustu frá Orkuveitunni. Hinir óbreyttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vissu ekki um ráðgerða sameiningu útrásarfyrirtækjanna fyrirfram. Hér er um svo stór mál að ræða að kynning gagnvart borgarfulltrúum verður að vera í fullkomnu lagi. Það á bæði við um sameiningu útrásarfyrirtækjanna en einnig og ekki síður um 20 ára einkaréttarsamninginn.

Deila um það hvort Vilhjálmur Vilhjálmsson hafi fengið minnisblað um 20 ára einkaréttarsamninginn skiptir engu máli í þessu sambandi. Ef það minnisblað hefur verið lagt til hans ásamt fjölda annarra skjala hefur alla vega ekki verið vakin athygli hans á þessu mjög svo mikilvæga atriði. Það er ámælisvert. Auðvitað átti að vekja sérstaka athygli á þessu atriði. Hér hafa embættismenn og stjórnarmenn í REI brugðist skyldu sinni varðandi það að kynna efni ráðgerðra samninga nægilega vel.

Ekki verður séð að neina nauðsyn hafi borið til þess að hespa afgreiðslu framangreinds máls af í flýti. Kaupsýslumenn í einkarekstri eru að vísu vanir að afgreiða málin hratt. En stjórnmálamönnum ber að taka nægilegan og lýðræðislegan tíma í að afgreiða málin. Því verður ekki trúað að kaupsýslumennirnir hafi viljað hespa afgreiðsluna af til þess að stjórnmálamenn gætu ekki kynnt sér málið nægilega vel. Mál þetta verður að takast fyrir á ný. Eldri afgreiðsla er ógild.

Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×