Skoðun

Þvæla útvarpsstjóra

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Í reglum um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu, segir meðal annars: „Útvarpsstjóri setur starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem vinna að fréttaskrifum, fréttaflutningi og tengdu dagskrárefni eftirfarandi reglur: [...] 9. „Óheimilt er að útvarpa án leyfis ummælum manns ef hann vissi ekki að þau voru hljóð- eða myndrituð, nema ummælin hafi verið viðhöfð á opnum vettvangi."

Í Fréttablaðinu 17. desember var Páll Magnússon útvarpsstjóri spurður hvort rétt hafi verið af Kastljósi að spila upptökur af samtali Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, við fyrrverandi blaðamann blaðsins. Páll taldi svo vera, almannaheill hafi verið í húfi. Hann sagði enn fremur að birtingin stangaðist ekki á við 9. grein starfsreglna RÚV. Sagði Páll hana eingöngu lúta að samskiptum RÚV við viðmælendur sína en hefði ekkert með upptökur þriðja aðila að gera. Slíkar upptökur bæri að meta út frá þeim forsendum hvort það hefði mikla samfélagslega þýðingu að birta þær.

Þarna fer útvarpsstjóri með rangt mál, eins og má sjá þegar reglurnar eru lesnar. Þar er ekkert kveðið á um uppruna slíkra upptakna. Það stendur skýrum stöfum að starfsmenn RÚV mega ekki birta ummæli manns án leyfis ef þau voru tekin upp án hans vitundar. Reglurnar gefa ekkert svigrúm í þessum efnum. Starfsfólki RÚV er einfaldlega bannað að útvarpa slíkum upptökum.

Það má færa gild rök fyrir því að stundum geti verið réttlætanlegt að birta upptökur á borð við þá sem Kastljós spilaði á mánudag. Ég er sammála Páli að sú upptaka átti erindi til almennings. Túlkun hans á starfsreglum RÚV er aftur á móti fráleit. Það er útvarpsstjóra ósæmandi að bera á borð slíka þvælu.

Höfundur er blaðamaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×