Stríðið hans pabba Gerður Kristný skrifar 8. júní 2009 06:00 Hverjum þeim sem heillast af bók ber skylda til að segja frá henni," segir í lögum bókaáhugafólks og nú hef ég hnotið um eina slíka. Fars krig heitir hún og er eftir Norðmanninn Bjørn Westlie. Landar hans voru svo hrifnir af henni að þeir veittu honum Brageprisen í fyrra. Fars krig er sannsöguleg bók þar sem Bjørn segir frá föður sínum, Petter, sem skráði sig í Waffen-SS í Seinna stríði og var sendur á vígstöðvarnar í Úkraínu. Hrifning hans á Þjóðverjum var slík að hann breytti ættarnafninu Vestli í Westlie. Þjóðverjar ásældust olíulindir og kornakra Úkraínu og var Petter og félögum hans lofað þar jarðarparti að stríði loknu. Bjørn veltir því fyrir sér hvernig líf hans hefði orðið hefðu Þjóðverjar sigrað. Hann hefði þá alist upp í Úkraínu þar sem heimamenn hefðu verið látnir þræla á ökrunum fyrir herraþjóðina. Petter kól illa á fæti í stríðinu en tókst þó að sleppa við aflimun. Hann lifði hildarleikinn af og sneri aftur til Noregs þar sem hann hlaut fangelsisdóm fyrir landráð. Petter leið fyrir fortíðina og flíkaði ekki reynslu sinni af vígstöðvunum. Það var ekki fyrr en hann var orðinn fjörgamall að Bjørn tók að ganga á hann. Sumt lét Petter uppi, annað ekki. Ekki bætti úr skák að feðgarnir töluðust ekki við árum saman eftir að Petter reiddist því heiftarlega að sonardóttir hans var frædd um íslam í fermingarundirbúningnum. Það féll gamla nasistanum ekki. Loks tókst þeim feðgum þó að ná sáttum, sem betur fer því annars hefði bókin aldrei orðið til. Bjørn fór til Úkraínu í leit að svörum og eru kaflarnir þaðan magnaðir. Furðulítil ummerki finnast nú eftir alla Gyðingana sem eitt sinn bjuggu þar svo öldum skipti. Eftir jafnsláandi lýsingar kemur endirinn unaðslega á óvart því þar segir frá því þegar Petter, þá orðinn háaldraður, flutti úr miðborg Oslóar þar sem honum þótti innflytjendur orðnir heldur áberandi. Hann settist að úti á landi og leitaði þar læknis vegna gamla fótameinsins. Læknirinn kunni sitt fag svo Petter leið betur í fætinum en nokkru sinni fyrr. Hann tók miklu ástfóstri við lækninn sinn og lauk á hann lofsorði við son sinn. Það væri auðvitað ekki í frásögur færandi ef læknirinn hefði ekki verið rammútlenskur - Muhammed nokkur Iqbal frá Pakistan! Fars krig er ein þeirra dásemdarbóka sem bíða þín á Bókasafni Norræna hússins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun
Hverjum þeim sem heillast af bók ber skylda til að segja frá henni," segir í lögum bókaáhugafólks og nú hef ég hnotið um eina slíka. Fars krig heitir hún og er eftir Norðmanninn Bjørn Westlie. Landar hans voru svo hrifnir af henni að þeir veittu honum Brageprisen í fyrra. Fars krig er sannsöguleg bók þar sem Bjørn segir frá föður sínum, Petter, sem skráði sig í Waffen-SS í Seinna stríði og var sendur á vígstöðvarnar í Úkraínu. Hrifning hans á Þjóðverjum var slík að hann breytti ættarnafninu Vestli í Westlie. Þjóðverjar ásældust olíulindir og kornakra Úkraínu og var Petter og félögum hans lofað þar jarðarparti að stríði loknu. Bjørn veltir því fyrir sér hvernig líf hans hefði orðið hefðu Þjóðverjar sigrað. Hann hefði þá alist upp í Úkraínu þar sem heimamenn hefðu verið látnir þræla á ökrunum fyrir herraþjóðina. Petter kól illa á fæti í stríðinu en tókst þó að sleppa við aflimun. Hann lifði hildarleikinn af og sneri aftur til Noregs þar sem hann hlaut fangelsisdóm fyrir landráð. Petter leið fyrir fortíðina og flíkaði ekki reynslu sinni af vígstöðvunum. Það var ekki fyrr en hann var orðinn fjörgamall að Bjørn tók að ganga á hann. Sumt lét Petter uppi, annað ekki. Ekki bætti úr skák að feðgarnir töluðust ekki við árum saman eftir að Petter reiddist því heiftarlega að sonardóttir hans var frædd um íslam í fermingarundirbúningnum. Það féll gamla nasistanum ekki. Loks tókst þeim feðgum þó að ná sáttum, sem betur fer því annars hefði bókin aldrei orðið til. Bjørn fór til Úkraínu í leit að svörum og eru kaflarnir þaðan magnaðir. Furðulítil ummerki finnast nú eftir alla Gyðingana sem eitt sinn bjuggu þar svo öldum skipti. Eftir jafnsláandi lýsingar kemur endirinn unaðslega á óvart því þar segir frá því þegar Petter, þá orðinn háaldraður, flutti úr miðborg Oslóar þar sem honum þótti innflytjendur orðnir heldur áberandi. Hann settist að úti á landi og leitaði þar læknis vegna gamla fótameinsins. Læknirinn kunni sitt fag svo Petter leið betur í fætinum en nokkru sinni fyrr. Hann tók miklu ástfóstri við lækninn sinn og lauk á hann lofsorði við son sinn. Það væri auðvitað ekki í frásögur færandi ef læknirinn hefði ekki verið rammútlenskur - Muhammed nokkur Iqbal frá Pakistan! Fars krig er ein þeirra dásemdarbóka sem bíða þín á Bókasafni Norræna hússins.