Máttur söngsins Þorvaldur Gylfason skrifar 29. janúar 2009 08:50 Sem ég stóð ásamt konu minni í miðju mannhafinu á Austurvelli á laugardaginn var og hlýddi á þrumuræðu Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, síðasta ræðumannsins að því sinni, hélt ég, að hápunkti fundarins hlyti að vera náð, svo firnagóð þótti mér ræðan. Fundinum var þó ekki lokið. Að loknu máli Guðmundar Andra tók fríður flokkur söngvara sér stöðu við tröppur Alþingis og söng Land míns föður og Hver á sér fegra föðurland? Við þurftum að færa okkur nær til að heyra vel. Sjaldan hef ég heyrt þessi ægifögru ættjarðarlög betur sungin og af dýpri og innilegri tilfinningu. Tilefnið var ærið, einlægur samhugur á Austurvelli og einvalasöngvarar í kórnum, þar á meðal heimssöngvarinn Gunnar Guðbjörnsson tenór, sem býr sig nú undir að syngja Siegfried í samnefndri óperu Wagners í Þýzkalandi, og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, reyndur og rómaður kirkjukórsöngvari. Hvað geta stjórnarvöldin gert, þegar óbreyttir borgarar og borðalögð lögreglan taka sér stöðu hlið við hlið fyrir framan Alþingishúsið og syngja ástríðufulla ættjarðarástarsöngva? Spurningin svarar sér sjálf: ríkisstjórnin baðst lausnar tveim sólarhringum síðar. Slíkur er máttur söngsins og kröftugs bumbusláttarins, sem síðustu vikur hefur verið eitt helzta kennimark friðsamlegra mótmæla almennings gegn þeim, sem keyrðu Ísland í kaf. Búsáhaldabyltingin hefur nú ásamt öðrum atburðum leitt til stjórnarslita með sterkan málstað, söng, sleifar, potta og pönnur að vopni. Söngur kennir mönnum kurteisi og alúð, og hvors tveggja er nú rík þörf, þegar ríki, land og þjóð leika á reiðiskjálfi af mannavöldum. Söngvabyltingin Söngur gegndi úrslitahlutverki í uppreisn Eystrasaltsþjóðanna gegni hernámi Sovétríkjanna 1990. Eistar segja sumir, að þeir hafi þraukað undir oki Sovétvaldsins í hálfa öld, þar eð menning þeirra, þjóðerni, tunga og saga bundu þá saman og blésu þeim kjark í brjóst. Þessi lýsing á einnig við um Ísland allar götur frá lokum þjóðveldisaldar fram að heimastjórn og allt fram á okkar daga. Þegar færi gafst og Eistar, Lettar og Litháar, samtals aðeins um átta milljónir manns, áræddu að rísa upp gegn ofurefli Sovétveldisins með sínar næstum 300 milljónir, batt söngur þjóðirnar saman. Fólkið í Eystrasaltslöndunum bjó að gamalli kórsöngshefð líkt og Norðurlandaþjóðirnar og tók nú höndum saman og söng ættjarðarsöngva af lífs og sálar kröftum. Söngur þúsundanna fór eins og eldur í sinu um svæðið og heiminn. Við söngnum áttu Kommúnistaflokkurinn og Rauði herinn ekkert svar. Hver ræðst gegn syngjandi fólki? Sigurinn var í höfn. Fyrsti forseti Litháens eftir fall Sovétríkjanna var tónlistarprófessorinn Vytautas Landsbergis. Það er Íslandi til mikils sóma, að Íslendingar skyldu fyrir áræði og réttsýni Jóns Baldvins Hannibalssonar, þá utanríkisráðherra, verða fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 1990. Fólkið þar austur frá gleymir því aldrei.Dýrð um vík og vog Þegar ég hugsa um söng og stjórnmál, rifjast einnig upp fyrir mér sagan af því, þegar ég var fyrir fáeinum árum kvaddur til Þórshafnar í Færeyjum til fundar við landsstjórnina þar um sjálfstæðismál. Fundinn í Þórshöfn sátu ráðherrarnir sjö, sem áttu þá sæti í landsstjórninni, og sjö ráðuneytisstjórar auk mín. Fundurinn hófst á því, að Jóannes Eidesgaard lögmaður kvaddi sér hljóðs, bauð mig velkominn og sagði síðan: Við skulum syngja. Ég hugsaði með mér: Einmitt svona ættu allir fundir að byrja, einkum ef mönnum semur ekki nógu vel eftir öðrum leiðum. Allir stóðu upp og sungu saman Dýrd á vík og vág, öll fjögur erindin í fallegum ættjarðaróði eftir Jens Dam Jacobsen, skáld og prentara á dagblaðinu Dimmalætting. Ég tók undir síðari erindin tvö, þegar ég hafði áttað mig á laginu. Lokaerindið hljómar svo: "Fagra, fjálga stund! Silvitni um sund. Fróir flúgva fuglar millum fjalla. Teirra káta mál berst um vall og vál. Gævi dagur aldri fór at halla!" Mér fannst ég vera heima. Við ræddum sjálfstæðismál Færeyja fram og aftur, en um þau var og er djúpstæður ágreiningur um eyjarnar. Ég sagði við gestgjafa mína og vini: Kvíðið engu. Íslendingar tóku rétta ákvörðun í sjálfstæðismálinu á sínum tíma. Engin áföll munu nokkurn tímann raska þeirri niðurstöðu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun
Sem ég stóð ásamt konu minni í miðju mannhafinu á Austurvelli á laugardaginn var og hlýddi á þrumuræðu Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar, síðasta ræðumannsins að því sinni, hélt ég, að hápunkti fundarins hlyti að vera náð, svo firnagóð þótti mér ræðan. Fundinum var þó ekki lokið. Að loknu máli Guðmundar Andra tók fríður flokkur söngvara sér stöðu við tröppur Alþingis og söng Land míns föður og Hver á sér fegra föðurland? Við þurftum að færa okkur nær til að heyra vel. Sjaldan hef ég heyrt þessi ægifögru ættjarðarlög betur sungin og af dýpri og innilegri tilfinningu. Tilefnið var ærið, einlægur samhugur á Austurvelli og einvalasöngvarar í kórnum, þar á meðal heimssöngvarinn Gunnar Guðbjörnsson tenór, sem býr sig nú undir að syngja Siegfried í samnefndri óperu Wagners í Þýzkalandi, og Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, reyndur og rómaður kirkjukórsöngvari. Hvað geta stjórnarvöldin gert, þegar óbreyttir borgarar og borðalögð lögreglan taka sér stöðu hlið við hlið fyrir framan Alþingishúsið og syngja ástríðufulla ættjarðarástarsöngva? Spurningin svarar sér sjálf: ríkisstjórnin baðst lausnar tveim sólarhringum síðar. Slíkur er máttur söngsins og kröftugs bumbusláttarins, sem síðustu vikur hefur verið eitt helzta kennimark friðsamlegra mótmæla almennings gegn þeim, sem keyrðu Ísland í kaf. Búsáhaldabyltingin hefur nú ásamt öðrum atburðum leitt til stjórnarslita með sterkan málstað, söng, sleifar, potta og pönnur að vopni. Söngur kennir mönnum kurteisi og alúð, og hvors tveggja er nú rík þörf, þegar ríki, land og þjóð leika á reiðiskjálfi af mannavöldum. Söngvabyltingin Söngur gegndi úrslitahlutverki í uppreisn Eystrasaltsþjóðanna gegni hernámi Sovétríkjanna 1990. Eistar segja sumir, að þeir hafi þraukað undir oki Sovétvaldsins í hálfa öld, þar eð menning þeirra, þjóðerni, tunga og saga bundu þá saman og blésu þeim kjark í brjóst. Þessi lýsing á einnig við um Ísland allar götur frá lokum þjóðveldisaldar fram að heimastjórn og allt fram á okkar daga. Þegar færi gafst og Eistar, Lettar og Litháar, samtals aðeins um átta milljónir manns, áræddu að rísa upp gegn ofurefli Sovétveldisins með sínar næstum 300 milljónir, batt söngur þjóðirnar saman. Fólkið í Eystrasaltslöndunum bjó að gamalli kórsöngshefð líkt og Norðurlandaþjóðirnar og tók nú höndum saman og söng ættjarðarsöngva af lífs og sálar kröftum. Söngur þúsundanna fór eins og eldur í sinu um svæðið og heiminn. Við söngnum áttu Kommúnistaflokkurinn og Rauði herinn ekkert svar. Hver ræðst gegn syngjandi fólki? Sigurinn var í höfn. Fyrsti forseti Litháens eftir fall Sovétríkjanna var tónlistarprófessorinn Vytautas Landsbergis. Það er Íslandi til mikils sóma, að Íslendingar skyldu fyrir áræði og réttsýni Jóns Baldvins Hannibalssonar, þá utanríkisráðherra, verða fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 1990. Fólkið þar austur frá gleymir því aldrei.Dýrð um vík og vog Þegar ég hugsa um söng og stjórnmál, rifjast einnig upp fyrir mér sagan af því, þegar ég var fyrir fáeinum árum kvaddur til Þórshafnar í Færeyjum til fundar við landsstjórnina þar um sjálfstæðismál. Fundinn í Þórshöfn sátu ráðherrarnir sjö, sem áttu þá sæti í landsstjórninni, og sjö ráðuneytisstjórar auk mín. Fundurinn hófst á því, að Jóannes Eidesgaard lögmaður kvaddi sér hljóðs, bauð mig velkominn og sagði síðan: Við skulum syngja. Ég hugsaði með mér: Einmitt svona ættu allir fundir að byrja, einkum ef mönnum semur ekki nógu vel eftir öðrum leiðum. Allir stóðu upp og sungu saman Dýrd á vík og vág, öll fjögur erindin í fallegum ættjarðaróði eftir Jens Dam Jacobsen, skáld og prentara á dagblaðinu Dimmalætting. Ég tók undir síðari erindin tvö, þegar ég hafði áttað mig á laginu. Lokaerindið hljómar svo: "Fagra, fjálga stund! Silvitni um sund. Fróir flúgva fuglar millum fjalla. Teirra káta mál berst um vall og vál. Gævi dagur aldri fór at halla!" Mér fannst ég vera heima. Við ræddum sjálfstæðismál Færeyja fram og aftur, en um þau var og er djúpstæður ágreiningur um eyjarnar. Ég sagði við gestgjafa mína og vini: Kvíðið engu. Íslendingar tóku rétta ákvörðun í sjálfstæðismálinu á sínum tíma. Engin áföll munu nokkurn tímann raska þeirri niðurstöðu.