Ólafur Þ. Stephensen: Afsagnir og afsökunarbeiðnir Ólafur Þ. Stephensen skrifar 19. apríl 2010 06:00 Þrír þingmenn hafa nú brugðizt við niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis með því að segja af sér embættum eða fara tímabundið í leyfi frá þingstörfum. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, er í skýrslunni talinn hafa sýnt af sér vanrækslu, ásamt tveimur öðrum ráðherrum. Hann fer í tímabundið leyfi á meðan þingmannanefnd ákveður hvernig bregðast skuli við skýrslunni, meðal annars hvort kalla skuli landsdóm saman til að fjalla um mál ráðherranna þriggja. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sagt af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og víkur sömuleiðis af þingi á meðan nefndin kemst að niðurstöðu. Hún viðurkennir að trúverðugleiki sinn hafi beðið hnekki vegna hárra lántakna eiginmanns hennar fyrir kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi þegar flugið var mest á mönnum í bankakerfinu. Loks hefur Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tekið sér frí á meðan sérstakur saksóknari rannsakar hvernig staðið var að málum í Sjóði 9 hjá Glitni, þar sem Illugi sat í stjórn. Allt hefur þetta fólk brugðizt við niðurstöðum skýrslunnar og axlað ábyrgð. Það hefur tekið rétta ákvörðun. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sem áður hafði vísað ábyrgðinni frá sér, breytti um kúrs um helgina og viðurkenndi á flokksstjórnarfundi að hafa brugðizt sjálfri sér, flokknum og kjósendum. Ingibjörg er ekki lengur í neinu embætti sem hún getur sagt af sér eða farið í leyfi, en hún hefur viðurkennt ábyrgð sína og að hafa gert mistök. Sama er því miður ekki unnt að segja um marga aðra, sem eru gagnrýndir harðlega í rannsóknarskýrslunni. Aðrir fyrrverandi ráðherrar, sem sakaðir eru um vanrækslu, hafa ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar. Ekki heldur fjórir embættismenn, sem taldir voru hafa sýnt vanrækslu í starfi. Enginn þessara manna er lengur í embætti. En þeir gætu beðizt afsökunar fyrir því. Enn heyrist lítið frá fyrrverandi bankastjórnendum og útrásarvíkingum. Sá eini, sem hefur beðizt afsökunar, er Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi í Landsbankanum, Straumi og fleiri fyrirtækjum. Viðbrögðin við afsökunarbeiðni hans voru að mörgu leyti ómakleg. Það er ekki við því að búast að menn, sem geta átt yfir höfði sér ákærur og málsóknir, viðurkenni lögbrot nema þá fyrir dómstólum. Það verður sömuleiðis dómstólanna að ákveða hvort þeir eigi að skila peningum, sem þeir hafi fengið með óeðlilegum hætti eða borga skaðabætur. Ef þeir, sem biðjast afsökunar, fá bara yfir sig fúkyrðaflaum í stað þess að fólk meti við þá að þeir viðurkenni að þeir hafi breytt rangt, er það öðrum gerendum í bankahruninu lítil hvatning að stíga fram og játa mistök sín. Það er mikilvægt að þeir, sem brutu lög í aðdraganda bankahrunsins, verði látnir sæta afleiðingunum. En íslenzkt samfélag getur ekki byrjað að horfa fram á veginn nema þjóðin fyrirgefi þeim, sem steyptu fjármálakerfi landsins í glötun. Fyrsta skrefið er að þeir biðjist fyrirgefningar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Landsdómur Ólafur Stephensen Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Kjósum með mannréttindum á laugardaginn Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kári Garðarsson Skoðun Stúlka frá Gaza sem að missti allt Asil Jihad Al-Masri Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Þrír þingmenn hafa nú brugðizt við niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis með því að segja af sér embættum eða fara tímabundið í leyfi frá þingstörfum. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, er í skýrslunni talinn hafa sýnt af sér vanrækslu, ásamt tveimur öðrum ráðherrum. Hann fer í tímabundið leyfi á meðan þingmannanefnd ákveður hvernig bregðast skuli við skýrslunni, meðal annars hvort kalla skuli landsdóm saman til að fjalla um mál ráðherranna þriggja. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sagt af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og víkur sömuleiðis af þingi á meðan nefndin kemst að niðurstöðu. Hún viðurkennir að trúverðugleiki sinn hafi beðið hnekki vegna hárra lántakna eiginmanns hennar fyrir kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi þegar flugið var mest á mönnum í bankakerfinu. Loks hefur Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tekið sér frí á meðan sérstakur saksóknari rannsakar hvernig staðið var að málum í Sjóði 9 hjá Glitni, þar sem Illugi sat í stjórn. Allt hefur þetta fólk brugðizt við niðurstöðum skýrslunnar og axlað ábyrgð. Það hefur tekið rétta ákvörðun. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sem áður hafði vísað ábyrgðinni frá sér, breytti um kúrs um helgina og viðurkenndi á flokksstjórnarfundi að hafa brugðizt sjálfri sér, flokknum og kjósendum. Ingibjörg er ekki lengur í neinu embætti sem hún getur sagt af sér eða farið í leyfi, en hún hefur viðurkennt ábyrgð sína og að hafa gert mistök. Sama er því miður ekki unnt að segja um marga aðra, sem eru gagnrýndir harðlega í rannsóknarskýrslunni. Aðrir fyrrverandi ráðherrar, sem sakaðir eru um vanrækslu, hafa ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar. Ekki heldur fjórir embættismenn, sem taldir voru hafa sýnt vanrækslu í starfi. Enginn þessara manna er lengur í embætti. En þeir gætu beðizt afsökunar fyrir því. Enn heyrist lítið frá fyrrverandi bankastjórnendum og útrásarvíkingum. Sá eini, sem hefur beðizt afsökunar, er Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi í Landsbankanum, Straumi og fleiri fyrirtækjum. Viðbrögðin við afsökunarbeiðni hans voru að mörgu leyti ómakleg. Það er ekki við því að búast að menn, sem geta átt yfir höfði sér ákærur og málsóknir, viðurkenni lögbrot nema þá fyrir dómstólum. Það verður sömuleiðis dómstólanna að ákveða hvort þeir eigi að skila peningum, sem þeir hafi fengið með óeðlilegum hætti eða borga skaðabætur. Ef þeir, sem biðjast afsökunar, fá bara yfir sig fúkyrðaflaum í stað þess að fólk meti við þá að þeir viðurkenni að þeir hafi breytt rangt, er það öðrum gerendum í bankahruninu lítil hvatning að stíga fram og játa mistök sín. Það er mikilvægt að þeir, sem brutu lög í aðdraganda bankahrunsins, verði látnir sæta afleiðingunum. En íslenzkt samfélag getur ekki byrjað að horfa fram á veginn nema þjóðin fyrirgefi þeim, sem steyptu fjármálakerfi landsins í glötun. Fyrsta skrefið er að þeir biðjist fyrirgefningar.