Skoðun

Útrýming fátæktar krefst langtímaaðgerða

Oktavía Guðmundsdóttir og Vilborg Oddsdóttir skrifa:

Evrópusambandið hefur tileinkað árinu 2010 baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun. Ástæðan er að 17% eða um 80 milljónir íbúa ESB landa eru nú með tekjur undir því sem kallast afstæð fátæktarmörk, þ.e. eru lægri en 60% af meðaltekjum. Fyrir þá, sem eru í þessari stöðu, eru þetta ekki bara tölur á blaði heldur miskunnarlaus veruleiki, sem hefur áhrif á uppvaxtarskilyrði barna, húsnæði, heilsu, menntun og stjórn á eigin lífi. Metnaður ESB var að draga úr fátæktinni og einangruninni á þeim áratug sem nú er að ljúka, en veruleikinn er allt annar. Fátæktin hefur aukist, og það á einnig við um Norðurlöndin.

Svona ætti þetta að sjálfsögðu ekki að vera, þar sem byrjunarstaða Norðurlanda var góð. Norræna velferðarkerfið hefur fyrst og fremst stuðlað að jöfnuði í samfélaginu með tiltölulega lítilli fátækt, en líkanið felur einnig í sér aðra þætti sem skapa skilyrði fyrir betra lífi og velferð. Má þar nefna góða heilsu, hátt menntunarstig, lítið atvinnuleysi o.s.frv. Í Evrópu er oft litið á norræna líkanið sem fyrirmynd í vinnu við að móta evrópskt félagslegt líkan.





Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi.

Því miður stefnir nú þróunin niður á við, atvinnuleysi og fátækt eykst. Hér er ekki aðeins um afleiðingar fjármálakreppunnar að ræða, heldur einnig það að við höfum sagt skilið við grunnþátt norræna líkansins, þ.e. að verja samfélagslegan jöfnuð þar sem allir fá tækifæri til að lífa góðu lífi með öruggar tekjur. Ójöfnuðurinn í tekjum og lífskjörum eykst hratt í löndum okkar þó að nýjustu rannsóknir sýni að það er einmitt jöfnuðurinn sem ræður hvað mestu um hvernig land stendur sig í mælingum á ýmsum velferðarþáttum svo sem menntun, lífslíkum, glæpatíðni, heilbrigði, öryggi, fátækt o.fl.

Gagnvart þegnum sínum og umheiminum, bera Norðurlöndin mikla ábyrgð á því að nýta þær hagstæðu forsendur sem þau hafa til að vera áfram fyrirmynd hvernig hægt er að byggja upp samfélag þar sem ríkir jöfnuður og fátækt er lítil.

Til að gera það er mikilvægt að standa vörð um grunnþætti norrænnar velferðarstefnu og að sýna það á ýmsan hátt í verki, að við samþykkjum ekki fátækt. Við höfum bæði vilja og getu til að berjast gegn henni. Fátækt er margslungið vandamál sem á rætur að rekja til margra, oft samverkandi þátta. Baráttuna gegn fátækt verður því að heyja á mörgum vígstöðvum samtímis. Félagsleg heildarsýn og viðeigandi lágmarksframfærsla og lágmarkslaun eru mikilvægir þættir í baráttunni. Útrýming fátæktar er langtímaverkefni.

Þess vegna æskjum við þess að þetta umrædda átak, Evrópuár um fátækt og félagslega einangrun 2010 verði framlengt. Ísland þyrfti að setja saman eigin langtímaáætlun um baráttuna gegn fátækt og félagslegri einangrun. Þessar áætlanir eiga áfram að gera frjálsum félagasamtökum og öðrum, sem koma að þessum málum, kleift að fá stuðning við starfsemi sem miðar að því að gera þessi mál sýnileg og tala máli þeirra sem minna mega sín. Einnig þarf að sinna frumkvöðlastarfsemi og rannsóknum.

Sýnið vilja, sýnið getu, stöðvið fátæktina!










Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×