Skoðun

Ábyrgð lífeyrissjóða

Kristján þór júlíusson skrifar
Kristján Þór Júlíusson skrifar um lífeyrissjóði.

Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja er ein forsenda endurreisnar atvinnulífsins. Þar þarf að leggja áherslu á að bjarga sem mestum verðmætum, samfélaginu til heilla. Þjóðin er enn í sárum eftir efnahagshrunið og reiðin í samfélaginu gagnvart stjórnvöldum og svokölluðum útrásarvíkingum, er skiljanleg. Við megum hins vegar ekki láta reiðina hamla endurreisnarstarfinu.

Nú þurfa lífeyrissjóðir að taka á málum skuldunauta sinna. Þar er tekist á um álitamál um hvort sjóðsstjórnirnar eigi að fallast á nauðasamninga eða hvort keyra eigi viðkomandi fyrirtæki í þrot. Gríðarlegar fjárhæðir eru í húfi og glíma lífeyrissjóðanna stendur um hvort og hvernig eigi að endurheimta fjármuni við skuldameðferð fyrirtækja. Miklu skiptir fyrir hagsmuni sjóðfélaga hvaða leiðir eru valdar. Stjórnum sjóðanna ber fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni sjóðsfélaga. Eru þeir reiðubúnir til þess að sæta skerðingu réttinda sinna ef önnur sjónarmið en viðskiptalegir hagsmunir eiga að ráða ákvörðunum lífeyrissjóðsins?

Fyrsta stóra málið sem snýr að lífeyrissjóðunum varðar fjárhagslega endurskipulagningu Bakkavarar, þar sem stjórnendum er gefinn kostur á því að eignast 25% hlut í fyrirtækinu. Fram hefur komið að skuldir fyrirtækisins nemi 62,5 milljörðum. Þetta eru miklir fjármunir og lífeyrissjóðirnir eru meðal stærstu kröfuhafa.

Hvort er mikilvægara fyrir lífeyrissjóðina að vinna með öðrum kröfuhöfum að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja eða keyra fyrirtækin í þrot og tapa þannig tugum milljarða króna sem leiðir til verulegrar skerðingar á lífeyrisgreiðslum, e.t.v. til langs tíma? Rökin verða að vera reiðinni yfirsterkari. Lífeyrissjóðirnir þurfa að standa vörð um hagsmuni sjóðsfélaga og tryggja þeim óskertar lífeyrisgreiðslur í framtíðinni, jafnvel þótt kaldur raunveruleikinn sé að þeir verði að vinna með mönnum sem eiga ef til vill ekki upp á pallborðið hjá stórum hluta þjóðarinnar.

Hlutverk lánveitenda hlýtur að vera að tryggja fjárhagslega hagsmuni sína og þeim ber siðferðisleg skylda til þess, þótt ákvarðanir kunni að vekja óánægju.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×