Skarfalausar sundlaugar Hólmfríður Helga Sigurðardóttir skrifar 25. ágúst 2010 06:00 Sauðölvaður maður keyrir bíl sinn inn í banka og heilsustofnun býður aukin úrræði fyrir útúrstressað fólk. Það var greinilegt á fréttum gærdagsins að haustlægðin er að skella á með öllum sínum þunga eftir sólarsömbu sumarsins. Ég er ekki ein af þeim sem gleðjast þegar dregur úr birtunni. Ég gnísti tönnum þegar ég heyri Pollýönnurnar í kringum mig segja: „O, vei, það er svo huggulegt að geta loksins kveikt á kertum!". Hver vill skipta sólinni út fyrir kertaloga? Vegna birtufíknar minnar og tregans sem fyllir hjarta mitt þegar dregur úr henni verð ég að hafa mig alla við til að halda örinni upp, eins og amma mín kallar brosið svo fallega. Besta leiðin til þess er að fara í sund. Það geri ég helst nokkrum sinnum í viku, árið um kring. Í mínu fyrra lífi var ég alveg ábyggilega hafmeyja, eða alla vega einhvers konar vatnakrabbi. Mér líður hvergi betur en marandi í hálfu kafi ofan í heitum potti. Það er ekki bara afslöppunin sem færist yfir sem dregur mig þangað, heldur hressa þau mig við, öll litlu augnablikin sem ég verð vitni að. Það þó ég sé alla jafna með hálflokuð augun og forðist samskipti við aðra. Í sundlaugunum hef ég séð ástina kvikna, orðið hugfangin af sundlaugarverðinum, flúið undan kúknum í lauginni, séð afbrýðina blossa upp og hlustað á marga slúðurberana kjamsa á sjóðheitum kjaftasögum. Og hlutirnir gerast ekki síður í sturtunni. Þó maður reyni að halda sér á mottunni þar og einbeita sér að sínum eigin kroppi festast augu manns alveg óvart á skapaháraskúlptúrum, klúrum húðflúrum á áttræðum ömmum, svo ég tali ekki um skelfingu lostna og spéhrædda útlendinga sem blóðroðna þegar þeir eru reknir úr sundbolnum af baðkonunni sem gerir engan kvennamun. Það eina sem skyggir á laugarferðir mínar eru stöku skarfar sem koma blaðskellandi ofan í pottinn og blása eins og hvalir. Hefja rifrildi við aðra gesti sem eiga sér einskis ills von og láta í það skína að þeir viti betur en allir hinir um… allt! Af skörfum með mikilmennskubrjálæði heyri ég nóg í fréttunum. Ég vil helst ekki þurfa að svamla með þeim líka og leyfa þeim að sjúga frá mér orkuna. Kunningjakona mín, ágætis manneskja sem er haldin þeim lesti að vera meinilla við börn, hefur viðrað þá hugmynd við borgaryfirvöld að opna barnalausar laugar. Ég velti því fyrir mér hvort skarfalausar laugar væru ekki frekar málið. Í þágu almannaheilla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hólmfríður Helga Sigurðardóttir Mest lesið Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Öfundargenið Torfi H. Tulinius Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór 7.500 íbúðir á Reykjavíkurflugvelli? Ásdís Kristjánsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Veistu þitt skýjaspor? Hólmfríður Rut Einarsdóttir,Þóra Rut Jónsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun
Sauðölvaður maður keyrir bíl sinn inn í banka og heilsustofnun býður aukin úrræði fyrir útúrstressað fólk. Það var greinilegt á fréttum gærdagsins að haustlægðin er að skella á með öllum sínum þunga eftir sólarsömbu sumarsins. Ég er ekki ein af þeim sem gleðjast þegar dregur úr birtunni. Ég gnísti tönnum þegar ég heyri Pollýönnurnar í kringum mig segja: „O, vei, það er svo huggulegt að geta loksins kveikt á kertum!". Hver vill skipta sólinni út fyrir kertaloga? Vegna birtufíknar minnar og tregans sem fyllir hjarta mitt þegar dregur úr henni verð ég að hafa mig alla við til að halda örinni upp, eins og amma mín kallar brosið svo fallega. Besta leiðin til þess er að fara í sund. Það geri ég helst nokkrum sinnum í viku, árið um kring. Í mínu fyrra lífi var ég alveg ábyggilega hafmeyja, eða alla vega einhvers konar vatnakrabbi. Mér líður hvergi betur en marandi í hálfu kafi ofan í heitum potti. Það er ekki bara afslöppunin sem færist yfir sem dregur mig þangað, heldur hressa þau mig við, öll litlu augnablikin sem ég verð vitni að. Það þó ég sé alla jafna með hálflokuð augun og forðist samskipti við aðra. Í sundlaugunum hef ég séð ástina kvikna, orðið hugfangin af sundlaugarverðinum, flúið undan kúknum í lauginni, séð afbrýðina blossa upp og hlustað á marga slúðurberana kjamsa á sjóðheitum kjaftasögum. Og hlutirnir gerast ekki síður í sturtunni. Þó maður reyni að halda sér á mottunni þar og einbeita sér að sínum eigin kroppi festast augu manns alveg óvart á skapaháraskúlptúrum, klúrum húðflúrum á áttræðum ömmum, svo ég tali ekki um skelfingu lostna og spéhrædda útlendinga sem blóðroðna þegar þeir eru reknir úr sundbolnum af baðkonunni sem gerir engan kvennamun. Það eina sem skyggir á laugarferðir mínar eru stöku skarfar sem koma blaðskellandi ofan í pottinn og blása eins og hvalir. Hefja rifrildi við aðra gesti sem eiga sér einskis ills von og láta í það skína að þeir viti betur en allir hinir um… allt! Af skörfum með mikilmennskubrjálæði heyri ég nóg í fréttunum. Ég vil helst ekki þurfa að svamla með þeim líka og leyfa þeim að sjúga frá mér orkuna. Kunningjakona mín, ágætis manneskja sem er haldin þeim lesti að vera meinilla við börn, hefur viðrað þá hugmynd við borgaryfirvöld að opna barnalausar laugar. Ég velti því fyrir mér hvort skarfalausar laugar væru ekki frekar málið. Í þágu almannaheilla.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun