Uppgjör við hrunið Þorvaldur Gylfason skrifar 9. júní 2011 06:00 Enn vantar mikið á hreinskiptið uppgjör við hrunið, þótt ýmislegt hafi áunnizt. Brennuvargar gera hróp að slökkviliðinu, segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, um ástandið í grein á vefnum, og má til sanns vegar færa. Sumt gengur þó vel. Fjármálaeftirlitið (FME) hefur undir styrkri stjórn Gunnars Þ. Andersen sent 67 mál til sérstaks saksóknara. Starfsmönnum sérstaks saksóknara hefur fjölgað úr þrem hálfu ári eftir hrun í 70 nú, bráðum 80. Þetta heitir að láta hendur standa fram úr ermum. Tilraunir Seðlabankans til að sölsa FME undir sig ber að skoða í þessu ljósi. Það væri óhyggilegt að hrófla við FME eins og sakir standa. Að búa um óhrein sárMálin, sem FME hefur sent frá sér til sérstaks saksóknara, snerta á annað hundrað manna. FME sendir ekki frá sér önnur mál en þau, sem það telur líkleg til að leiða til sakfellingar. Meintar sakir mega helzt ekki fyrnast, áður en dómstólar ná að kveða upp dóma. Alþingi þyrfti að setja lög til að fresta fyrningu hugsanlegra brota í þeim málum, sem ekki hafa enn verið sett í rannsókn, svo sem einkavæðing bankanna og ýmis mál tengd sparisjóðunum, en þingmenn virðast þó ekki hafa hug á því. Hugsanleg sök ráðherra vegna einkavæðingar bankanna 2002 er löngu fyrnd samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, en hugsanleg sök ráðherra og embættismanna, til dæmis vegna auðgunarbrota, innherjasvika eða umboðssvika, fyrnist á tíu árum. Enn er lag. Mættu þeir ráða, myndu vinir hrunsins trúlega sópa öllu saman undir teppi, svo sem lýsing Jóns Baldvins á brennuvörgunum ýjar að. Þess vegna er ástæða til að varast fyrningu brota vegna tafa í framgangi réttvísinnar. Annað eins hefur gerzt í okkar samfélagi. Í einu mesta fjársvikamáli lýðveldissögunnar var Vilhjálmur Þór seðlabankastjóri fundinn sekur í Hæstarétti fyrir hálfri öld, en sök hans var fyrnd. Saga olíumálsins og þáttar Vilhjálms Þór í því má ekki endurtaka sig. Undanbragðalaust uppgjör olíumálsins á sinni tíð hefði trúlega dregið úr viðgangi þeirrar spillingar, sem ásamt öðru lagði Ísland á hliðina 2008. Aldrei gefst vel að búa um óhrein sár. Mesta fjármálahrun allra tímaFjármálahrun Íslands er á ýmsa viðtekna kvarða mesta hrun, sem mælzt hefur. Hér á ég ekki við kerfishrun eins og fall Sovétríkjanna, heldur fjármálahrun. Í fyrsta lagi nam fjártjónið, sem bankarnir íslenzku lögðu á hluthafa, lánardrottna og viðskiptavini utan lands og innan, um sjöfaldri landsframleiðslu Íslands, sem er heimsmet. Í annan stað kæmist gjaldþrot bankanna þriggja – Glitnis, Kaupþings og Landsbankans – á listann yfir tíu mestu gjaldþrot Bandaríkjanna, hefðu þeir verið bandarískir bankar. Séu bankarnir þrír skoðaðir sem ein heild, er gjaldþrot þeirra samkvæmt samantekt FME þriðja mesta gjaldþrot sögunnar á bandarískan kvarða, næst á eftir gjaldþrotum fjármálafyrirtækjanna Lehman Brothers og Washington Mutual. Í þriðja lagi nam kostnaður ríkisins, það er að segja skattgreiðenda, við að hreinsa til eftir bankahrunið hér heima 64 prósentum af landsframleiðslu. Fyrra heimsmet átti Indónesía eftir fjármálakreppuna þar 1997-98, eða 53 prósent samkvæmt upplýsingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Hvergi á byggðu bóli hefur hlutabréfamarkaður þurrkazt út nema hér. Landsframleiðsla og atvinna hafa ekki minnkað meira hér heima en raun varð á einkum vegna þess, að AGS og Norðurlönd komu til bjargar og lögðu á ráðin um skynsamlega endurreisnaráætlun með aðhaldi í ríkisbúskapnum og tímabundnum gjaldeyrishöftum til að firra krónuna frekara gengisfalli, og féll gengi krónunnar þó um helming í kringum hrunið. Við bætist, að hluti fjárins, sem útlendingar töpuðu á viðskiptum við bankana, skilaði sér hingað heim og birtist meðal annars í hálfreistum húsum, til dæmis Hörpu. Þetta skilja útlendingar. Þess vegna meðal annars hrundi orðspor Íslands. Írar fóru öðruvísi að. Þar er atvinnuleysið meira en hér og orðstírinn betri út á við, því að Írar reyna með erfiðismunum að standa skil á erlendum skuldbindingum sínum. Sá kostur stóð Íslandi ekki til boða, þar eð hrunið hér olli tjóni, sem ekki var vinnandi vegur að bæta. Rolex-vísitalanHagsaga Íslands er sneisafull af dæmum um höft og skömmtun og viðleitni fólks og fyrirtækja til að fara í kringum slík boð og bönn, stundum í blóra við lög. Frívæðing viðskipta eftir 1960 og fjármagnsflutninga eftir 1990 spratt af langri reynslu af niðurdrepandi haftabúskap. Höft og skömmtun skekkja og skaða grundvöll efnahagslífsins og spilla viðskiptasiðferði og smám saman einnig öðru siðferði, einkum þegar höftin verða langvinnari en brýn nauðsyn krefur. Rolex-vísitalan – fjöldi seldra dýrra armbandsúra á mann – er sögð há á Íslandi. Það stafar þó ekki aðeins af því, að efnamönnum vegnar vel, heldur einnig af hinu, að venjulegt fólk hefur ekki aðgang að erlendum gjaldeyri umfram 350.000 krónur á mánuði til ferðalaga og naumar úttektarheimildir með krítarkortum. Af því sprettur þörfin fyrir að kaupa dýr úr til endursölu með afföllum erlendis. Einmitt þannig var ástandið fyrir 1960. Þessu þarf að linna sem fyrst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun
Enn vantar mikið á hreinskiptið uppgjör við hrunið, þótt ýmislegt hafi áunnizt. Brennuvargar gera hróp að slökkviliðinu, segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, um ástandið í grein á vefnum, og má til sanns vegar færa. Sumt gengur þó vel. Fjármálaeftirlitið (FME) hefur undir styrkri stjórn Gunnars Þ. Andersen sent 67 mál til sérstaks saksóknara. Starfsmönnum sérstaks saksóknara hefur fjölgað úr þrem hálfu ári eftir hrun í 70 nú, bráðum 80. Þetta heitir að láta hendur standa fram úr ermum. Tilraunir Seðlabankans til að sölsa FME undir sig ber að skoða í þessu ljósi. Það væri óhyggilegt að hrófla við FME eins og sakir standa. Að búa um óhrein sárMálin, sem FME hefur sent frá sér til sérstaks saksóknara, snerta á annað hundrað manna. FME sendir ekki frá sér önnur mál en þau, sem það telur líkleg til að leiða til sakfellingar. Meintar sakir mega helzt ekki fyrnast, áður en dómstólar ná að kveða upp dóma. Alþingi þyrfti að setja lög til að fresta fyrningu hugsanlegra brota í þeim málum, sem ekki hafa enn verið sett í rannsókn, svo sem einkavæðing bankanna og ýmis mál tengd sparisjóðunum, en þingmenn virðast þó ekki hafa hug á því. Hugsanleg sök ráðherra vegna einkavæðingar bankanna 2002 er löngu fyrnd samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, en hugsanleg sök ráðherra og embættismanna, til dæmis vegna auðgunarbrota, innherjasvika eða umboðssvika, fyrnist á tíu árum. Enn er lag. Mættu þeir ráða, myndu vinir hrunsins trúlega sópa öllu saman undir teppi, svo sem lýsing Jóns Baldvins á brennuvörgunum ýjar að. Þess vegna er ástæða til að varast fyrningu brota vegna tafa í framgangi réttvísinnar. Annað eins hefur gerzt í okkar samfélagi. Í einu mesta fjársvikamáli lýðveldissögunnar var Vilhjálmur Þór seðlabankastjóri fundinn sekur í Hæstarétti fyrir hálfri öld, en sök hans var fyrnd. Saga olíumálsins og þáttar Vilhjálms Þór í því má ekki endurtaka sig. Undanbragðalaust uppgjör olíumálsins á sinni tíð hefði trúlega dregið úr viðgangi þeirrar spillingar, sem ásamt öðru lagði Ísland á hliðina 2008. Aldrei gefst vel að búa um óhrein sár. Mesta fjármálahrun allra tímaFjármálahrun Íslands er á ýmsa viðtekna kvarða mesta hrun, sem mælzt hefur. Hér á ég ekki við kerfishrun eins og fall Sovétríkjanna, heldur fjármálahrun. Í fyrsta lagi nam fjártjónið, sem bankarnir íslenzku lögðu á hluthafa, lánardrottna og viðskiptavini utan lands og innan, um sjöfaldri landsframleiðslu Íslands, sem er heimsmet. Í annan stað kæmist gjaldþrot bankanna þriggja – Glitnis, Kaupþings og Landsbankans – á listann yfir tíu mestu gjaldþrot Bandaríkjanna, hefðu þeir verið bandarískir bankar. Séu bankarnir þrír skoðaðir sem ein heild, er gjaldþrot þeirra samkvæmt samantekt FME þriðja mesta gjaldþrot sögunnar á bandarískan kvarða, næst á eftir gjaldþrotum fjármálafyrirtækjanna Lehman Brothers og Washington Mutual. Í þriðja lagi nam kostnaður ríkisins, það er að segja skattgreiðenda, við að hreinsa til eftir bankahrunið hér heima 64 prósentum af landsframleiðslu. Fyrra heimsmet átti Indónesía eftir fjármálakreppuna þar 1997-98, eða 53 prósent samkvæmt upplýsingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Hvergi á byggðu bóli hefur hlutabréfamarkaður þurrkazt út nema hér. Landsframleiðsla og atvinna hafa ekki minnkað meira hér heima en raun varð á einkum vegna þess, að AGS og Norðurlönd komu til bjargar og lögðu á ráðin um skynsamlega endurreisnaráætlun með aðhaldi í ríkisbúskapnum og tímabundnum gjaldeyrishöftum til að firra krónuna frekara gengisfalli, og féll gengi krónunnar þó um helming í kringum hrunið. Við bætist, að hluti fjárins, sem útlendingar töpuðu á viðskiptum við bankana, skilaði sér hingað heim og birtist meðal annars í hálfreistum húsum, til dæmis Hörpu. Þetta skilja útlendingar. Þess vegna meðal annars hrundi orðspor Íslands. Írar fóru öðruvísi að. Þar er atvinnuleysið meira en hér og orðstírinn betri út á við, því að Írar reyna með erfiðismunum að standa skil á erlendum skuldbindingum sínum. Sá kostur stóð Íslandi ekki til boða, þar eð hrunið hér olli tjóni, sem ekki var vinnandi vegur að bæta. Rolex-vísitalanHagsaga Íslands er sneisafull af dæmum um höft og skömmtun og viðleitni fólks og fyrirtækja til að fara í kringum slík boð og bönn, stundum í blóra við lög. Frívæðing viðskipta eftir 1960 og fjármagnsflutninga eftir 1990 spratt af langri reynslu af niðurdrepandi haftabúskap. Höft og skömmtun skekkja og skaða grundvöll efnahagslífsins og spilla viðskiptasiðferði og smám saman einnig öðru siðferði, einkum þegar höftin verða langvinnari en brýn nauðsyn krefur. Rolex-vísitalan – fjöldi seldra dýrra armbandsúra á mann – er sögð há á Íslandi. Það stafar þó ekki aðeins af því, að efnamönnum vegnar vel, heldur einnig af hinu, að venjulegt fólk hefur ekki aðgang að erlendum gjaldeyri umfram 350.000 krónur á mánuði til ferðalaga og naumar úttektarheimildir með krítarkortum. Af því sprettur þörfin fyrir að kaupa dýr úr til endursölu með afföllum erlendis. Einmitt þannig var ástandið fyrir 1960. Þessu þarf að linna sem fyrst.
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun