Skoðun

Hæpinn gjaldeyris-ávinningur

Þórólfur Matthíasson skrifar
Í grein hér í blaðinu 3ja ágúst síðastliðinn gerði ég tilraun til að meta gjaldeyriskostnað tengdan útflutningi lambakjöts að verðmæti 2,75 milljarða króna á árinu 2010. Í samhljóma aðsendum greinum í Fréttablaðinu og Bændablaðinu gerir forstöðumaður félagssviðs Bændasamtaka Íslands tilraun til að bæta ágiskanir mínar í þessum efnum.

Forstöðumaður félagssviðs Bændasamtaka Íslands hefur aðgang að betri og fyllri upplýsingum um framleiðslukostnað lambakjöts en ég hef sem aðeins hef prentuð gögn frá Bændasamtökunum að styðjast við. Það ætti því að vera hægur vandi að laga og bæta grófa útreikninga mína. Það gerir forstöðumaðurinn ekki. Forstöðumaðurinn gefur sér að kindakjöt sé flutt út í grisjupokum í heilum skrokkum og kílóverð útfltunings þannig sambærilegt við kílóverð til bænda. Þetta er ekki rétt. Það eru betri bitar sem eru fluttir út. Þess vegna er kílóverð sem Hagstofan gefur upp í útfluningsskýrslum hærra en kílóverð þegar bændur selja í heilum skrokkum til afurðastöðva.

Tilkostnaður við að framleiða kindakjöt sem gefur af sér 2,75 milljarða króna í útflutningstekjur er umtalsverður. Sé stuðst við tölur út búreikningum Bændasamtakanna er kostnaður vegna aðfanga (olíu, áburður, rúlluplast, þjónusta dýralækna o.s.frv.) um 2,7 milljarðar króna. Reiknuð laun bónda, vaxtagjöld og afskriftir tækja og bygginga nemur samkvæmt sömu heimild um 2,6 millljörðum króna. Beingreiðslur eru á bilinu 0,4 til 1,1 milljarður króna. Þessi útflutningsstarfssemi er rekin með 1,5 til 2ja milljarða tapi þrátt fyrir stuðning skattgreiðenda. Tapið er fjármagnað af afskriftasjóði bænda og af fjármálastofnunum. Ekki er í þessum útreikningum tekið tillit til kostnaðar vegna grasnytja utan heimalanda. Kostnaður vegna uppgræðslu og landabóta á afréttum lendir að mestu leyti á skattgreiðendum og er umtalsverður.

Í grein minni giskaði ég á að ríflega 40% aðfanga væri erlendur að uppruna. Sumir kollegar mínir hafa gagnrýnt þá ágiskun og telja að um vanmat sé að ræða. En 40% af 2,7 milljörðum er 1,1 milljarður. Forstöðumaður félagssviðs BÍ reiknar erlendan tilkostnað með hliðsjón af söluverðmæti afurðanna. Söluverðmætið er um helmingur framleiðslukostnaðarins. Það ætti að vera vel þekkt á 3ju hæðinni á Hótel Sögu. Benda má forstöðumanninum á grein eftir Jónas Bjarnason hjá Hagþjónustu landbúnaðarins frá 2008 sem ber heitið: “Stuðningur við sauðfjárrækt nam 61% af verðmætasköpun í greininni 2006”, sjá http://www.hag.is/pdf/annad_utgefid/Studn_vid_saudfjarr2006.pdf. Aðferðafræði forstöðumannsins felur því í sér um helmings vanmat á erlendum tilkostnaði við framleiðslu útflutts kindakjöts.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×