Skoðun

Gegn fullu gjaldi

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Þegar á reynir, er rökrétt fyrir handhafa forréttinda að nota arðinn af þeim í að verja þau. Því sýnir gríðarlegt umfang baráttunnar um gjafakvótann, hversu verðmæt þau forréttindi eru.

Samandreginn er boðskapur forréttindahópsins sá að íslenska þjóðin hafi ekki efni á mannréttindum, líkt og t.d. Færeyingar, sem nýverið buðu upp makrílkvóta sinn, m.a. til Samherja. Að þjóðin geti því ekki leiðrétt þau mannréttindabrot sem Sameinuðu þjóðirnar segja að felist í gjafakvótanum.

Baráttan er birtingarmynd þeirrar skelfingar sem forréttindahópurinn fyllist við tilhugsunina um samkeppni um kvótann. Ástæða skelfingarinnar er úttekt sem Deloitte gerði fyrir þá, en samkvæmt henni munu fyrirtæki þeirra verða undir í slíkri samkeppni og önnur hagkvæmari taka við. Þess konar samkeppni er aftur á móti ástæða hagsældar á Vesturlöndum, enda hafa bæði alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála og virtustu hagfræðingar heimsins mælt með henni.

Vilji þjóðarinnar hefur jafnframt margsinnis komið í ljós og endurspeglast í stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Hún gerir ráð fyrir því að eigur þjóðarinnar njóti sömu verndar og eigur einstaklinga og verði aðeins nýttar gegn fullu gjaldi, þ.e.a.s. verði sem myndast í samkeppni.

Þingmenn Vinstri grænna munu á komandi þingi standa gegn því að þjóðin fái að kjósa um óbreytta stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Standa gegn því að þjóðin geti valið hagsæld og mannréttindi. Á þeim tímapunkti er seinasta tækifærið fyrir þingmenn jafnaðarmanna, sem þegar eru laskaðir af eftirlátssemi við sérhagsmunahópa, en komust til valda undir slagorðinu, „Eitt samfélag, allir með", að slíta stjórnarsamstarfinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×