Auðvelt val Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 9. nóvember 2011 06:00 Karpað er um hvort ríkið eigi að lána fyrir framkvæmdum á Vaðlaheiðargöngum. Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar líst ekkert á, ekki heldur Merði Árnasyni í Samfylkingunni. Menn telja ólíklegt að veggjaldið dugi til að greiða upp göngin og fólk muni velja að aka ókeypis um Víkurskarð. Innanríkisráðherra sagði Vaðlaheiðargöngin sambærileg Hvalfjarðargöngunum, vegfarendur hefðu val í báðum tilfellum. Að fara göngin eða ekki. Sjálfri finnst mér ekkert líkt með Hvalfirði og Víkurskarði því um fjallveg er að ræða í öðru tilvikinu en láglendisveg í hinu. Víkurskarð liggur í 325 metra hæð yfir sjó og þar verða vond veður á vetrum. Til samanburðar liggur Hellisheiði 50 metrum hærra yfir sjó en skarðið og þar verða veður líka oft vond. Enda höfum við margsinnis fengið fréttir í sjónvarpi og útvarpi af hröktum vegfarendum sem leita þurftu skjóls á Litlu kaffistofunni í blindbyl. „Voðalegt veðravíti er þetta, og svona rétt við borgarmörkin,“ gætu einhverjir sagt. En veður breytast á skömmum tíma, sérstaklega á fjöllum. Ég hef fjasað um þetta áður hér í blaðinu, enda afar spennt fyrir því að göngin verði grafin. Þá var mér bent á að Víkurskarð væri með fallegri akstursleiðum og get svo sem tekið undir það. Brekkan er brött vestur af og þaðan er fallegt að sjá Eyjafjörðinn opnast spegilsléttan á sólríkum sumardegi, og vetrardegi líka, ef maður vogar sér að hafa augun af flughálum veginum. Skarðið er alls ekki árennilegt á veturna. Ég hringdi að gamni í Vegagerðina í gær og spurði hversu oft Víkurskarð væri lokað á vetrum. Þar var slegið, með fyrirvara þó, á viku til tíu daga á vetri á moksturstíma, sem er milli klukkan 7 og 22. Skarðið væri þó miklu oftar ófært á nóttunni, eftir að mokstri væri hætt á kvöldin og það kæmi hvergi fram í tölum. Að gamni heyrði ég líka í björgunarsveitarmanni á Svalbarðsströnd sem sagði sveitina Tý hafa farið í þrjú útköll síðasta vetur upp á Víkurskarð. Í hittiðfyrra, eða veturinn þar áður, voru útköllin 10 til 12! Fleiri björgunarsveitir starfa á svæðinu, sem ég reikna með að hafi líka farið í útköll. Þá eru ótaldar ferðirnar sem sjálfstæðir verktakar með öflug snjómoksturstæki fara þegar flutningabílarnir festast í brekkunum. Ég hef engar áhyggjur af því að veggjöldin þvælist fyrir þeim sem erindi eiga um skarðið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Ragnheiður Tryggvadóttir Skoðanir Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Við þurfum Grím á þing Hanna Katrín Friðriksson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun
Karpað er um hvort ríkið eigi að lána fyrir framkvæmdum á Vaðlaheiðargöngum. Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar líst ekkert á, ekki heldur Merði Árnasyni í Samfylkingunni. Menn telja ólíklegt að veggjaldið dugi til að greiða upp göngin og fólk muni velja að aka ókeypis um Víkurskarð. Innanríkisráðherra sagði Vaðlaheiðargöngin sambærileg Hvalfjarðargöngunum, vegfarendur hefðu val í báðum tilfellum. Að fara göngin eða ekki. Sjálfri finnst mér ekkert líkt með Hvalfirði og Víkurskarði því um fjallveg er að ræða í öðru tilvikinu en láglendisveg í hinu. Víkurskarð liggur í 325 metra hæð yfir sjó og þar verða vond veður á vetrum. Til samanburðar liggur Hellisheiði 50 metrum hærra yfir sjó en skarðið og þar verða veður líka oft vond. Enda höfum við margsinnis fengið fréttir í sjónvarpi og útvarpi af hröktum vegfarendum sem leita þurftu skjóls á Litlu kaffistofunni í blindbyl. „Voðalegt veðravíti er þetta, og svona rétt við borgarmörkin,“ gætu einhverjir sagt. En veður breytast á skömmum tíma, sérstaklega á fjöllum. Ég hef fjasað um þetta áður hér í blaðinu, enda afar spennt fyrir því að göngin verði grafin. Þá var mér bent á að Víkurskarð væri með fallegri akstursleiðum og get svo sem tekið undir það. Brekkan er brött vestur af og þaðan er fallegt að sjá Eyjafjörðinn opnast spegilsléttan á sólríkum sumardegi, og vetrardegi líka, ef maður vogar sér að hafa augun af flughálum veginum. Skarðið er alls ekki árennilegt á veturna. Ég hringdi að gamni í Vegagerðina í gær og spurði hversu oft Víkurskarð væri lokað á vetrum. Þar var slegið, með fyrirvara þó, á viku til tíu daga á vetri á moksturstíma, sem er milli klukkan 7 og 22. Skarðið væri þó miklu oftar ófært á nóttunni, eftir að mokstri væri hætt á kvöldin og það kæmi hvergi fram í tölum. Að gamni heyrði ég líka í björgunarsveitarmanni á Svalbarðsströnd sem sagði sveitina Tý hafa farið í þrjú útköll síðasta vetur upp á Víkurskarð. Í hittiðfyrra, eða veturinn þar áður, voru útköllin 10 til 12! Fleiri björgunarsveitir starfa á svæðinu, sem ég reikna með að hafi líka farið í útköll. Þá eru ótaldar ferðirnar sem sjálfstæðir verktakar með öflug snjómoksturstæki fara þegar flutningabílarnir festast í brekkunum. Ég hef engar áhyggjur af því að veggjöldin þvælist fyrir þeim sem erindi eiga um skarðið.