Skoðun

Palestína - verkin tala

Össur Skarphéðinsson skrifar
Í dag verða greidd atkvæði á Alþingi um tillögu mína um að Ísland viðurkenni sjálfstæði og fullveldi Palestínu miðað við landamærin eins og þau voru fyrir 1967. Tillagan var lögð fram með einróma samþykki stjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri-Grænna. Eftir vinnslu hennar í utanríkismálanefnd undir styrkri forystu Árna Þórs Sigurðssonar formanns er hún einnig studd af Hreyfingunni og Framsóknarflokknum. Það er þeim flokkum til mikils sóma.

Daglega eru brotin mannréttindi í Palestínu. Land þeirra er hersetið. Gaza er haldið í herkví í trássi við alþjóðleg mannúðarlög. Vesturbakkinn er sundurristur af háum múrveggjum sem tálma almenningi aðgengi að ökrum sínum. Skipulega ræna Ísraelsmenn þá landi, ekki síst til að sölsa undir sig lífsnauðsynleg vatnsból. Desmond Tutu, erkibiskupinn suður-afríski, hefur líkt stefnu Ísraela gagnvart Palestínumönnum sem aðskilnaðarstefnu.

Ísland er fyrsta landið úr hópi gróinna lýðræðisríkja Vesturlanda sem viðurkennir fullveldi Palestínu. Við erum fyrst Norðurlandanna til að stíga þetta sögulega skref. Fyrir baráttu Palestínu, sem helst skortir stuðning ríkja á Vesturlöndum, skiptir það gríðarlega miklu máli að Ísland, sem er stofnþjóð að Atlantshafsbandalaginu, og umsóknarríki að Evrópusambandinu, viðurkenni fullveldi ríkisins.

Ég hef sem utanríkisráðherra farið víða til að tala máli Palestínumanna. Mörgum sinnum með þungyrtum ræðum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, á fundum norrænna utanríkisráðherra, hjá EFTA, og í EES-ráðinu. Ótaldir eru þá fjölmargir tvíhliða fundir þar sem ég hef tekið málstað þeirra upp. Þar er ógleymanlegastur fundur með tyrkneska utanríkisráðherranum, Achmed Davitoglu, sem reyndist ráðagóður. Ferð mín fyrr á árinu til Gaza, Vesturbakkans og Austur-Jerúsalem var farin eingöngu til að styrkja málstað Palestínu. Næsti áfangastaður í stuðningsför Íslands við Palestínu er á Alþingi í dag, þegar tillaga um viðurkenningu á fullveldi hennar verður lögð undir atkvæði. Orð eru vissulega til alls fyrst. Nú tala verkin.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×