Skoðun

Um búðir og umbúðir

Búðir þær sem hugmyndin er að reisa erlendum ferðamönnum á hálendi Íslands eru fyrir margar sakir áhugaverðar. Ætla má að aðstandendur framkvæmdanna útvegi sjálfir gestina og byggi þeim vistarverur í formi glæsilegustu hótelmannvirkja sem litið hafa teikniborð. Þar með kemur erlent fjármagn inn í landið sem fræðimenn, aðrir lærðir og ráðherrar fagna, því að þá þurfum við eiginlega ekkert að gera sjálf.

Eftir vel heppnaða markaðssetningu í heimalandi framkvæmdaraðila verða tugir þúsunda gesta sendir í ferðamannabúðirnar. Hér á Íslandi vekur það mikla gleði hversu hratt hefur tekist að koma þessu í framkvæmd og hversu gríðarlegum ágóða það skilar. Ferðalangarnir brosa einnig glaðir eftir dvölina í fínu búðunum þegar þeir yfirgefa landið mórauðir af leirfoki úr Hálslóni.

Á aðeins örfáum árum hefur svo framkvæmdaraðilum tekist að senda þangað áhugasama landsmenn sína í hundraða þúsunda tali á ári. 300 ferkílómetra landsvæði fer létt með að anna því. Og íslenska þjóðin verður glaðari og glaðari.

En. Það er glórulaust að aka fimm hundruð þúsund til milljón ferðamönnum á ári í rútum frá Keflavíkurflugvelli að Grímsstöðum á Fjöllum. Þess vegna fá framkvæmdaraðilar að sjálfsögðu að leggja þar flugbrautir. Ekki er ólíklegt að á þeirra móðurmáli heiti golfvöllur flugvöllur. Hvort tveggja krefst álíka landsvæðis. Völlurinn er nú þegar á teikniborðinu.

Í hótelbyggingunum verða ýmis tæki og tól. Lítil ratsjárstöð sem þurfti um þúsund fermetra fyrir tuttugu árum rúmast ágætlega í því sem nemur einni uppþvottavél í dag. Á 300 ferkílómetra svæði má koma mörgum slíkum fyrir, bæði ofanjarðar og neðan. Einnig komast mörg hundruð ferðalangar fyrir í einni breiðþotu sem í raun getur verið umbúðir fljúgandi njósnavirkis.

Stundum er talað um að verja landið fyrir utanaðkomandi ógn. Meðalagjöf innan frá virðist ósköp saklaus á byrjunarstigi. Og hver ætlar að stugga við framkvæmdaraðilum á þeirra eigin landsvæði? Það getur verið snúið þar sem þeir eru með íslenska lofthelgi í hendi sér.

Alla uppbyggingu er rökréttast að vinna út frá miðju. Það er því einfaldara að vinna sig út frá hálendinu og niður á strönd en frá ströndinni og upp.

Eins og dropi sem fellur í spegilslétt vatn. Spegilslétta vatnið verður í rólegheitum að vinna sig kerfisbundið út frá snertingu dropans.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×