Skoðun

Á leikskóla

Á leikskólum er unnið öflugt starf til þess að auka samskiptahæfni barna. Þó gerir enginn kröfu um að börn séu alltaf málefnaleg. Þau hafa ekki náð þroska til að skilja að setning eins og „þú ert fitubolla“ er ómálefnaleg á meðan „það er erfitt að framreiða hollan mat fyrir 232 kr. á dag“ telst málefnaleg fullyrðing. Þetta er skýringin á því að leikskólabörn segja „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“ til að útkljá deilumál.

Þegar tekist er á í borgarstjórn Reykjavíkur gerir maður ráð fyrir að samræður séu málefnalegar. Yfirlýsingar eins og „þú átt heima á asnalegum stað“ eiga ekki að koma málum við á nokkurn hátt. Það kom því á óvart að sjá grein eftir Oddnýju Sturludóttur í síðustu viku þar sem hún byrjar og endar á því að hnýta í hvar ég rek heimili. Er það þannig sem yfirmaður leikskólamála í Reykjavík vill takast á um málefni? Vill Oddný að ég svari með hnútukasti um hennar persónulegu hagi þegar ég fjalla um skólamál í Reykjavík? Stjórnmálamenn eru dottnir á skrambi lágt plan þegar þetta eru svörin við gagnrýni á störf þeirra.

Lausn borgarstjórans á vandamálum leikskólanna var að foreldrar keyptu meira af smokkum. Hópurinn sem stýrir Reykjavík olli miklum usla og óánægju meðal foreldra og starfsmanna leikskóla með vinnubrögðum í sameiningum leikskóla sem leiddu til mótmæla sem eiga sér vart fordæmi í borgarpólitíkinni. Sú vegferð minnir á storm í vatnsglasi því eftir öll lætin náði meintur sparnaður ekki einu prósenti af heildarútgjöldum leikskóla.

Hugsanlega er of seint fyrir grínframboð Jóns Gnarrs, og Samfylkinguna sem tryggði honum starf borgarstjóra, að grípa til þroskaðri svara en „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“. Hugsanlega er það niðurstaða Oddnýjar að Reykvíkingar geti ekki tekið hana alvarlega. Ef ekki, væri gott skref að leggja rökræðuhefð leikskólabarna til hliðar. Jafnvel þótt málstaðurinn sé flókinn eða illverjanlegur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×