Skoðun

Burt með allt pukur og baktjaldamakk

Jakob F. Ásgeirsson skrifar
Í síðustu viku skýrði framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá því opinberlega að „starfshópur" væri að útfæra þá hugmynd að val á framboðslistum flokksins í næstu alþingiskosningum færi fram „á fulltrúaráðsfundi" eins og það var orðað. Flesta stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hefur vafalaust sett hljóða við þessi tíðindi.

Hverjir skyldu helst mæla fyrir þessari fráleitu hugmynd? Jú, það eru væntanlega fylgismenn þeirra kjörinna fulltrúa flokksins sem gagnrýnislaust stigu trylltan hrunadansinn með skuldakóngum „útrásarinnar". Þeir hafa, að sögn, hreiðrað um sig í flokksfélögum Sjálfstæðisflokksins og virðast stundum hafa það eitt markmið að treysta stöðu sinna manna, tryggja að þeir haldi sínu sæti í goggunarröðinni.

Þetta er kannski meginskýringin á þeirri gjá sem á undanförnum árum hefur myndast milli flokksapparatsins og almennra fylgismanna Sjálfstæðisflokksins. Í flokkskerfinu hugsa menn fyrst og fremst um innanflokksvaldabrölt en almennum stuðningsmönnum flokksins er hins vegar efst í huga að standa vörð um sjálfstæðisstefnuna. Þess vegna væri flokksapparatinu vel trúandi til þess að fara þessa fráleitu leið. Viðhlæjendur skuldakónganna telja sig eiga vísan meirihluta meðal þeirra sem hafa rétt til þess að sækja fulltrúaráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Af þeirri ástæðu er mikilvægt að almennir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins láti heyra í sér og komi í veg fyrir þessa ósvinnu.

Þeir sem kjörnir hafa verið til trúnaðarstarfa í nafni Sjálfstæðisflokkinn eiga ekki flokkinn. Það eru stuðningsmenn flokksins sem eiga Sjálfstæðisflokkinn. Kjörnir fulltrúar flokksins starfa í umboði þeirra og ef stuðningsmönnunum finnst þeir hafa brugðist trausti sínu eiga þeir skilyrðislaust að víkja. Það er hin lýðræðislega aðferð.

Sjálfstæðisflokkurinn endurvinnur ekki traust kjósenda nema með því að bjóða almennum stuðningsmönnum upp á tækifæri til rækilegrar endurnýjunar á framboðslistum flokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×