Skoðun

Ógnvænlegt – fólk þorir ekki að standa á rétti sínum

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Fólk og fyrirtæki óttast að kvarta til Umboðsmanns Alþingis vegna þjónustu opinberra stofnana. Það geti komið í bakið á þeim þegar leitað sé til stofnana síðar. Hið sama á við ef fólk telur að hið opinbera gangi á rétt þess. Þetta er auðvitað ekkert annað en ógnvænlegt.

Í skýrslu Umboðsmanns fyrir árið 2010 kom fram að hann hefði orðið var við að forsvarsmenn fyrirtækja í atvinnurekstri treystu sér illa til þess að bera fram formlegar kvartanir vegna eftirlitsstjórnvalda og bæru þá við ótta um að þeim yrði hegnt af hálfu stjórnvaldsins þegar kæmi að ákvörðunum í málum þeirra og tilefni til eftirlits. Slík framkoma eftirlitsstofnana á auðvitað ekki að líðast.

Í skýrslu Umboðsmanns fyrir árið 2011 kemur fram að ef einstaklingur hafi kvartað til Umboðsmanns líði hann fyrir það. Í stuttu máli: Einstaklingur kvartar til Umboðsmanns vegna þess að mál hans er ekki afgreitt innan tilsetts tíma. Þá dregur stjórnvaldið enn lappirnar og nú í skjóli þess að Umboðsmaður hefur kvörtunina til meðferðar. Hvers lags er þetta eiginlega?

Vald er vandmeðfarið. Það er alltaf óþolandi þegar sá sem valdið hefur misbeitir því. Þetta á alltaf við, sérstaklega þegar hið opinbera á í hlut. Hið opinbera er til fyrir okkur öll og til að þjóna okkur öllum.

Sérstakar reglur eru til um hvernig fólk í opinberum störfum á að starfa. Þessar reglur heita stjórnsýslulög. Telji fólk að þessi lög séu brotin á það að láta reyna á rétt sinn – ekki hika við það. Umboðsmaður Alþingis tekur það óstinnt upp ef hann hefur veður af því að það komi á einhvern hátt niður á þeim sem vilja standa á rétti sínum.

Mörgu þarf að breyta og margt að laga í stjórnsýslunni. Hegðan hins opinbera sem veldur því að fólk og fyrirtæki veigra sér við að standa á rétti sínum þarf að uppræta.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×