Skoðun

Verðtryggingin og Lilja

Hjálmtýr Guðmundsson skrifar
Fyrir tíu árum átti ég tvö raðhús. Þau voru 100 milljóna króna virði (50 milljónir hvort). Þá er það sem Lilja kemur til mín og vill fá þau leigð (lánuð) gegn hæfilegu gjaldi (leiga/vextir). Okkur semst um að hún borgi mér 4% af verðmætinu í leigu (vexti) á ári. Á þessum 10 árum hefur verið 7,2% verðbólga á ári þannig að húsin sem voru 100 milljóna króna virði eru nú 200 milljóna króna virði eða 100 milljónir hvort hús. Það er ekki af því að þau séu raunverulega meira virði en fyrir 10 árum, heldur er krónan helmingi minna virði en þá.

Nú að leigutíma (lánstímanum) liðnum hittumst við Lilja aftur og ég segi við hana að leigan (vextirnir) hafi nú verið ansi lág því síðasta árið var hún ekki 4%, heldur 2% af verðmæti húsanna. Hún svarar því til að við höfum samið um þessa leigufjárhæð óverðtryggt og við það sitji og ég bít í það súra epli að ég hafi samið af mér. En svo segir hún: „Þú færð bara annað húsið til baka, ég ætla að halda hinu því ég fékk hjá þér 100 milljónir og nú er eitt hús þess virði." Ég reyni að malda í móinn, auðvitað á ég þessi 2 hús eins og áður. „Nei, þetta var ekki verðtryggður leigu(lána) samningur og þú færð bara þínar 100 milljónir með því að fá annað húsið. Ef þú ert með eitthvert múður þá fer ég í mál við þig og ég hef Hagsmunasamtök á bak við mig. Vertu bara feginn að það var ekki 19,4% verðbólga, þá hefði ég tekið bæði húsin og bara þurft að borga þér 3 milljónir."

Frásögnin er skáldskapur en byggð á raunveruleikanum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×