Skoðun

Afnemum verðtryggingu

Magnús Orri Schram skrifar
Jafnaðarmenn vilja burt með verðtryggingu og lægri vexti. Það er ósanngjarnt að borga tvisvar og hálfu sinni fyrir íbúð þegar Danir borga fyrir eina og hálfa íbúð. Þarna munar heilli íbúð. Því segja jafnaðarmenn: burt með verðtrygginguna og lækkum vextina.

En af hverju er verðbólga?

Verðbólgan skapast vegna breytinga á gengi krónunnar. Verðtryggingu var komið á 1980 til að tryggja að peningarnir héldu verðgildi sínu þrátt fyrir verðbólgu. Þannig veldur verðbólgan því að lánin hækka. Verðbólga á Íslandi er þrisvar sinnum hærri en innan evrulanda. Vextir á Íslandi eru ríflega tvisvar sinnum hærri en í Evrópu.

Dýrari íbúðir

Þess vegna borgum við meira fyrir íbúðirnar en aðrir. Krónan veldur hærri vöxtum og hærri verðbólgu. Úr þessum vítahring verður ekki komist nema með upptöku annarrar myntar því þá lækka vextirnir og verðbólgan.

20% niðurfelling?

Það væri gaman ef við gætum lækkað skuldir allra. En í raun myndi slíkt ekki breyta miklu. Ef við hefðum til dæmis lækkað skuldir heimilanna um 20% árið 2009 og 40 milljón króna lán hefði þá farið í 32 milljónir, væri það lán komið í 39 milljónir í dag, þökk sé verðbólgunni. Á móti værum við með 220 milljarða reikning og þyrftum að hækka skatta eða skera niður. Heimilin væru þannig í verri stöðu fjórum árum síðar.

Breytum kerfinu

Þess vegna er mikilvægt að breyta kerfinu því annars verðum við áfram föst og gerum ekki annað en að ýta vandanum áfram og yfir á börnin okkar. Það er hins vegar til ein leið úr þessu basli. Hún er sú að ljúka viðræðum við ESB og ganga í myntsamstarf á næsta kjörtímabili.

27.apríl

Þannig er valið skýrt í næstu kosningum. Annaðhvort breytum við kerfinu eða ýtum vandanum á undan okkur. Þess vegna telur Samfylkingin mikilvægt að halda áfram viðræðum við ESB.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×