Skoðun

Flippaðir háskólar?

Brynhildur S. Björnsdóttir skrifar
Nú á dögunum efndi Félag prófessora við ríkisháskóla og Fræðagarður til ráðstefnu um málefni háskólanna þar sem fjölmörg vönduð erindi voru flutt, ásamt líflegum pallborðsumræðum með frambjóðendum.

Með fullri virðingu fyrir skuldavanda heimilanna var það kærkomin nýbreytni, í þessari annars ágætu kosningagleði, að ræða eina helstu grunnstoð þessa samfélags – framtíðarauðinn sem liggur í unga fólkinu okkar og menntun þess.

Hátt brottfall

Þrátt fyrir að menntunarstaða Íslendinga hafi batnað jafnt og þétt frá aldamótum – hefur hún hreinlega ekki batnað mikið í samanburði við önnur OECD-lönd. Þá hefur menntunarstig karla ekki bæst verulega síðan á sjöunda áratug síðustu aldar – þannig að að mestu leyti má rekja aukið menntunarstig þjóðarinnar til aukinnar menntunar kvenna.

Hlutfall þeirra sem lokið hafa framhaldsmenntun er undir meðallagi og brottfall í framhaldsskólum og háskólum er með því hæsta sem gengur og gerist innan þessara landa.

Komið að þolmörkum

Útgjöld á hvern skráðan háskólanema eru nánast helmingi minni en á Norðurlöndum og vel undir meðallagi ef horft er til OECD-landanna. Á sama tíma og háskólanemum hefur fjölgað verulega, hafa heildarfjárveitingar til háskóla á árunum 2008-2012 dregist saman um 15%. Kreppan og allt það.

Gripið hefur verið til aukins samstarfs milli háskóla í hagræðingarskyni en samkvæmt Vísinda- og tækniráði hefur ekki verið gripið til annarra heildstæðra hagræðingaraðgerða. Ráðið leggur til ýmsar úrbætur á þessum vanda. Þar á meðal þær að fjárveitingarnar verði hækkaðar í áföngum til ársins 2020, háskólar verði sameinaðir, sett verði ein löggjöf um háskóla og þeim verði fækkað.

Þá er uppi hávær krafa í háskólasamfélaginu um að gripið verði til aukinna aðgangshindrana inn á ákveðnar námsbrautir, til að bregðast við fjölgun nemenda.

Ríkjandi kennsluhættir

Þrátt fyrir að ytra umhverfi hafi gerbreyst og nútímavæðst hafa kennsluhættir almennt lítið breyst. Nemendur eiga að sækja ákveðinn fjölda klukkustunda fyrirlestra á viku, þar sem þeir sitja og kennarar miðla þekkingu sinni, oft með aðstoð glæra eða töflu. Í mest sóttu fyrirlestrunum eiga sama sem engin persónuleg samskipti sér stað milli nemenda og kennara. Nemendur eru þiggjandi áhorfendur og kennarar eru fyrirlesarar.

Hugrekki til umbóta

Það er verðugt og bráðnauðsynlegt markmið að auka fjárveitingu til háskólanna á næstu árum – en sú starfsemi sem fram fer innan þeirra er jú ein af mikilvægustu grunnstoðum þessa samfélags. Jafnframt þurfum við hugrekki til að kafa dýpra ofan í það hvernig við nýtum best þá fjármuni sem eru þó til staðar í dag. Og þá duga engin vettlingatök eða fælni við róttæka endurskipulagningu. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt.

Við þurfum að þora að spyrja spurninga á borð við: Af hverju er allt þetta brottfall? Henta kennsluaðferðirnar nýrri kynslóð nemenda? Af hverju er meira brottfall hjá opinberum háskólum en þeim einkareknu? Getum við dregið úr kostnaði án þess að draga úr gæðum? Getum við komið betur til móts við þarfir atvinnulífsins? Getum við komið betur til móts við ólíkar þarfir og aðstæður einstaklinga í framhaldsnámi?

Flippað háskólanám

Við búum í rafrænu upplýsingasamfélagi sem opnar nýjar gáttir í þekkingarmiðlun. Undanfarin ár hefur svokölluð „flippuð kennsla“ (e. flip teaching) verið að ryðja sér til rúms um allan heim. Í stuttu máli felst hún í því að snúa kennsluháttum við þannig að nemendur sæki sér fyrirlestra á netinu en hitti svo kennara til að fá aðstoð við að leysa verkefni og dýpka skilning sinn á námsefninu.

Þannig getur nemandinn farið í gegnum fyrirlestrana á sínum eigin hraða – við aðstæður sem hann velur sér sjálfur. Þá skapast svigrúm fyrir persónulegri þekkingarmiðlun, þegar nemandi sækir tíma í skólanum þar sem kennari gengur á milli og sinnir einstaklingum – á þeirra forsendum. Þannig aukum við jafnræði til náms og komum betur til móts við ólíkar aðstæður og þarfir einstaklinga. Jafnframt sköpum við svigrúm fyrir kennara og nýtum betur tíma þeirra. Háskólakennarar kvarta nú sáran yfir því að geta ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni en ætlast er til þess að 50% af vinnuskyldu þeirra fari í rannsóknir og þróun.

Við höfum nú þegar dæmi um menntastofnanir og einstaka kennara sem hafa tileinkað sér þessa kennsluhætti en Háskólabrú Keilis hefur gengið skrefinu lengra og steig skrefið til fulls vorið 2012, með því að bjóða upp á flippaða kennslu í öllum greinum.

Með þessum hætti þyrftum við ekki endilega að grípa til aðgerða á borð við auknar aðgengishindranir til náms en það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar – ekki síst í ljósi þess að við erum nú þegar undir meðaltali í framhaldsmenntunarstigi á meðal OECD-landa.

Ekki síst gætum við viðhaldið fjölbreyttri flóru af opinberum og einkareknum háskólum – í þeim tilgangi að halda uppi heilbrigðri samkeppni á sviðinu sem hvetur til aukinna gæða og framfara. Þó er auðvitað skynsamlegt að samnýta þætti á borð við stoðþjónustu, sem lúta ekki samkeppnislögmálum.

Með flippaðri kennslu leysum við vaxandi húsnæðisvanda háskólanna og komum til móts við ólíkar þarfir nemenda. Við aukum svigrúm kennara til rannsókna um leið og námið gæti hentað fleirum.

Er eftir einhverju að bíða? Höfum við hugrekki til að minnka sóun á fjármunum og tíma um leið og við fögnum fjölbreytileikanum?

Svo ekki sé talað um minna vesen og meiri sátt!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×