Skoðun

Sóknaráætlun landshluta og sjálfbær þróun

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Það er mikilvægt að byggja upp öflugt atvinnulíf. En það er ekki sama hvernig það er gert. Atvinnulíf þarf að byggja á vilja og hæfileikum fólksins í landinu og ríkið á að eiga í stöðugu og kröftugu samtali við það og veita orku sinni og fjármagni í sjóði til að efla nýsköpun og fjölbreytni.

Núverandi ríkisstjórn hefur sett fram nýja stefnu í byggðamálum undir yfirskriftinni Sóknaráætlun landshluta, þar sem áhersla er lögð á að landið er ein heild og höfuðborg og landsbyggðir eiga sameiginlega hagsmuni í að um land allt sé öflugt samfélag og atvinnulíf. Síðasti landsfundur VG sló því föstu að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sé þar lykilatriði, þar sem miklu skiptir að byggja atvinnulíf á fjölbreyttum stoðum, nýta nærumhverfið, draga úr flutningskostnaði og treysta grunnstoðir samfélagsins.

Lykilatriði og forgangsmál

Annað lykilatriði er að fjárveitingar eru í auknum mæli fluttar heim í hérað þannig að heimamenn koma sjálfir að forgangsröðun fjármuna. Þessi hugmyndafræði byggir á lýðræðislegu samráðsferli um land allt. Miklu skiptir að byggja áfram á henni og styrkja þannig byggðir landsins. Þar mun Byggðastofnun einnig skipta máli sem stuðningsaðili við byggðir sem á þurfa að halda. Þá er jöfnun flutningskostnaðar, sem loksins komst á í tíð núverandi ríkisstjórnar, mikið byggðamál.

Eitt af forgangsverkefnum byggðamála á komandi árum þarf að vera ljósleiðaravæðing í dreifbýli og full jöfnun húshitunarkostnaðar. Treysta þarf byggð í landinu með sanngjarnari skiptingu tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins til ákvarðana um grunnþjónustu.

Í stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir m.a.: „Stöðu landsbyggðarinnar verður að styrkja með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum er undirstaða lífvænlegrar byggðar.“




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×