Skoðun

Frestum ekki framtíðinni

Árni Páll Árnason skrifar
Nýtt fjárlagafrumvarp hefur litið dagsins ljós. Um það má eitt gott segja: Það er lagt fram á þann veg að jöfnuður náist í ríkisrekstri á næsta ári.

Í því er hins vegar engin framtíðarsýn. Gripið er til allra handa smáskammtalækninga til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Skorið er niður hjá öllum heilbrigðisstofnunum, öllum framhaldsskólum og öllum háskólum.

Ekkert var skorið niður í heilbrigðismálum á síðasta ári hjá fyrri ríkisstjórn, því við töldum að komið væri nóg. Við bættum við fjárveitingum til tækjakaupa. Þær eru nú teknar til baka. Er einhver sem trúir að heilbrigðisstofnanir séu aflögufærar nú?

Hagvöxtur er lítill og störfum fjölgar ekki hjá fólki með starfsmenntun. Mun færri Íslendingar eru með framhaldsmenntun en í nálægum löndum. Þess vegna þarf átak í tækniþróun til að auka verðmætin sem við sköpum.

Þess vegna jukum við gríðarlega framlög í rannsóknarsjóði og tækniþróunarsjóð. Þorri þeirra framlaga er nú tekinn út.

Þess vegna settum við fé í sérstakt starfsmenntaátak. Allt það fé er tekið út.

Þess vegna settum við fé í skapandi greinar og græna atvinnusköpun. Þorri þess fjár er tekinn út.

Svo lýsir forsætisráðherra andúð á erlendri fjárfestingu og trú þeirri stefnumörkun tekur ríkisstjórnin út allt – ég endurtek allt – fé sem ætlað var til að kynna Ísland sem fjárfestingarkost á erlendum vettvangi.

Til að bíta höfuðið af skömminni er svigrúm í ríkisfjármálum nýtt í þágu stórútgerðar, stóriðju og ferðaþjónustu, sem hafa notið ríkulegar af gengishruni og kjaraskerðingu almennings í landinu en nokkrar aðrar greinar.

Þetta fjárlagafrumvarp ber vitni algerum skorti á framtíðarsýn. Hvernig á að fjölga verðmætum störfum? Hvernig á að byggja betra samfélag? Við þeim spurningum á þessi kyrrstöðuríkisstjórn engin svör.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×