"Náfölva mæði núllstillir gæði“ Þorsteinn Pálsson skrifar 28. desember 2013 06:00 Yfirskriftin er fengin að láni úr kvæðinu Þúsaldarháttur í fyrstu ljóðabók Bjarka Karlssonar, Árleysi alda. Höfundur segist feta þar í fótspor þeirra sem fyrrum sömdu heimsósómakvæði. En orð þessa nýja skálds eru ágætis áminning um að hrunið setti mark sitt á hvort tveggja andlegt og efnalegt ástand fólksins í landinu. Hitt er svo annað að það ætti að vera til vitnis um hræringar sem horfa til betri vegar í samfélaginu er ljóðskáld selur sjöundu prentun af frumvoryrkju sinni þegar fyrir messu heilags Þorláks. Árið sem er að líða geymir eitt af áhrifaríkari atvikum íslenskrar stjórnmálasögu. Tveimur vikum fyrir kosningar var ástandið þannig í Sjálfstæðisflokknum að innanbúðarféndum Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, hafði tekist að grafa svo undan vígstöðu hans að segja má að hann hafi staðið með boga án strengs. Í kjölfar viðtals í beinni sjónvarpsútsendingu tókst honum aftur á móti að hnýta nýjan streng. Eftir það fékk fjaðurmagn bogans nýtt afl og þeir fengu hann ekki sóttan. Tapaðri vörn var snúið í sókn. Þessi eina kvöldstund breytti óneitanlega talsverðu um það sem á eftir fór. Reyndist sú breyting til góðs fyrir þjóðarbúið? Við áramót er ástæða til að leita svara við þeirri spurningu. Um hitt er ógerlegt að segja hvernig mál hefðu skipast ef formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki komið vörnum við eftir þessa örlagaríku sjónvarpskvöldstund.Nokkur fet í rétta átt Aðstæður voru sérstæðar og óvenjulegar eftir síðustu kosningar. Svo mikið málefnalegt djúp hafði myndast á síðasta kjörtímabili og í kosningabaráttunni að ógerlegt var að mynda ríkisstjórn af nokkru tagi þannig að líklegt yrði að hún gengi í takt. Úrslitin færðu Framsókn sæti við ríkisstjórnarborðið. Milli hennar og annarra flokka var hins vegar slíkt haf að engin leið var að brúa það með hefðbundnum málamiðlunum. Af mörgum öðrum ólöstuðum á fjármálaráðherra mestan þátt í að unnt reyndist að vinda ofan af glæfrakosningaloforði Framsóknar. Án þeirrar staðföstu forystu er hætt við að tilraun til að efna loforðið samkvæmt efni sínu hefði fært Ísland aftur á bak. Hugsanlega mun takmörkuð framkvæmd þess valda litlum eða jafnvel engum skaða. Hitt hefði verið betra að nýta skattheimtusvigrúmið til að færa landið fram á við. En trúlega var þess ekki kostur eins og mál höfðu skipast í kosningunum. Þung umræða um ríkisfjármálin á jólaföstunni er til sannindamerkis um að mikla staðfestu hefur þurft til að tryggja að þau færu ekki úr böndunum. Óvíst er með öllu að sá árangur væri veruleiki nú við árslok hefði formaður Sjálfstæðisflokksins ekki náð vopnum sínum á liggjandanum fyrir kosningar. Ekki tókst að gera langtíma stöðugleikasamninga á vinnumarkaðnum. Fjármálaráðherrann á hins vegar þátt í því að unnt var að hnýta enda skammtíma samninga á lokametrunum. Þeir geta aftur varðað veginn áfram verði stöðugleikaforystan í ríkisstjórninni og á vinnumarkaðnum nægjanlega þróttmikil á nýju ári. Athyglisvert er að opinberlega hefur forsætisráðherra ræktað mest samband við þann verkalýðsforingja sem nú er í áköfustu andófi við forystu ASÍ vegna stöðugleikamarkmiðsins. Það sýnir ekki aðeins mismikla alvöru og andstæður heldur bendir það til að innan ríkisstjórnarinnar leggi menn einfaldlega ekki sömu merkingu í hugtak eins og stöðugleika.Mæða eða áskorun nýs árs Mörgum finnst ugglaust að þeir standi í sömu sporum og fyrir ári. En að öllu þessu virtu hefur þó ýmislegt hnikast í rétta átt; þótt ekki sé nema um nokkur fet. Rætur betrumbótanna liggja margar hverjar í þessu annálaða sjónvarpsviðtali. Þjóðarbúið hafði með öðrum orðum hag af því að svo fór sem fór. Annað er, að fimm árum eftir hrun er einn helsti vandinn sem forystumenn í stjórnmálum standa andspænis hversu snúið það er að gera hvort tveggja í senn, að auka mönnum bjartsýni og segja allan sannleikann um stöðu þjóðarbúsins. Umhleypingar í efnahagslífi annarra landa hafa síðan auðveldað leikinn fyrir forseta Íslands og þá sporgöngumenn hans sem vilja slíta utanríkispólitík landsins upp með rótum. Það veldur óvissu. Sjálfstæðisflokkurinn geldur þess greinilega að hafa misst forystuhlutverkið í utanríkismálum til Bessastaða. Leiðtogum vinstri stjórnarinnar var tíðrætt um fórnir. Ekki er víst að það sé vel valið orð þótt mæði náfölva hafi núllstillt lífsgæðin. Fyrir hrun byggðu þau á froðu. Vilji menn endurheimta fyrri kjör með stöðugleika þarf að skapa raunveruleg verðmæti. Þau koma ekki af sjálfu sér. Það þarf að afla þeirra. Til þess þarf miklu meiri breytingar. Þær geta verið mæða eða áskorun nýs árs eftir því hvernig á er litið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Öfundargenið Torfi H. Tulinius Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór 7.500 íbúðir á Reykjavíkurflugvelli? Ásdís Kristjánsdóttir Skoðun Veistu þitt skýjaspor? Hólmfríður Rut Einarsdóttir,Þóra Rut Jónsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun
Yfirskriftin er fengin að láni úr kvæðinu Þúsaldarháttur í fyrstu ljóðabók Bjarka Karlssonar, Árleysi alda. Höfundur segist feta þar í fótspor þeirra sem fyrrum sömdu heimsósómakvæði. En orð þessa nýja skálds eru ágætis áminning um að hrunið setti mark sitt á hvort tveggja andlegt og efnalegt ástand fólksins í landinu. Hitt er svo annað að það ætti að vera til vitnis um hræringar sem horfa til betri vegar í samfélaginu er ljóðskáld selur sjöundu prentun af frumvoryrkju sinni þegar fyrir messu heilags Þorláks. Árið sem er að líða geymir eitt af áhrifaríkari atvikum íslenskrar stjórnmálasögu. Tveimur vikum fyrir kosningar var ástandið þannig í Sjálfstæðisflokknum að innanbúðarféndum Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, hafði tekist að grafa svo undan vígstöðu hans að segja má að hann hafi staðið með boga án strengs. Í kjölfar viðtals í beinni sjónvarpsútsendingu tókst honum aftur á móti að hnýta nýjan streng. Eftir það fékk fjaðurmagn bogans nýtt afl og þeir fengu hann ekki sóttan. Tapaðri vörn var snúið í sókn. Þessi eina kvöldstund breytti óneitanlega talsverðu um það sem á eftir fór. Reyndist sú breyting til góðs fyrir þjóðarbúið? Við áramót er ástæða til að leita svara við þeirri spurningu. Um hitt er ógerlegt að segja hvernig mál hefðu skipast ef formaður Sjálfstæðisflokksins hefði ekki komið vörnum við eftir þessa örlagaríku sjónvarpskvöldstund.Nokkur fet í rétta átt Aðstæður voru sérstæðar og óvenjulegar eftir síðustu kosningar. Svo mikið málefnalegt djúp hafði myndast á síðasta kjörtímabili og í kosningabaráttunni að ógerlegt var að mynda ríkisstjórn af nokkru tagi þannig að líklegt yrði að hún gengi í takt. Úrslitin færðu Framsókn sæti við ríkisstjórnarborðið. Milli hennar og annarra flokka var hins vegar slíkt haf að engin leið var að brúa það með hefðbundnum málamiðlunum. Af mörgum öðrum ólöstuðum á fjármálaráðherra mestan þátt í að unnt reyndist að vinda ofan af glæfrakosningaloforði Framsóknar. Án þeirrar staðföstu forystu er hætt við að tilraun til að efna loforðið samkvæmt efni sínu hefði fært Ísland aftur á bak. Hugsanlega mun takmörkuð framkvæmd þess valda litlum eða jafnvel engum skaða. Hitt hefði verið betra að nýta skattheimtusvigrúmið til að færa landið fram á við. En trúlega var þess ekki kostur eins og mál höfðu skipast í kosningunum. Þung umræða um ríkisfjármálin á jólaföstunni er til sannindamerkis um að mikla staðfestu hefur þurft til að tryggja að þau færu ekki úr böndunum. Óvíst er með öllu að sá árangur væri veruleiki nú við árslok hefði formaður Sjálfstæðisflokksins ekki náð vopnum sínum á liggjandanum fyrir kosningar. Ekki tókst að gera langtíma stöðugleikasamninga á vinnumarkaðnum. Fjármálaráðherrann á hins vegar þátt í því að unnt var að hnýta enda skammtíma samninga á lokametrunum. Þeir geta aftur varðað veginn áfram verði stöðugleikaforystan í ríkisstjórninni og á vinnumarkaðnum nægjanlega þróttmikil á nýju ári. Athyglisvert er að opinberlega hefur forsætisráðherra ræktað mest samband við þann verkalýðsforingja sem nú er í áköfustu andófi við forystu ASÍ vegna stöðugleikamarkmiðsins. Það sýnir ekki aðeins mismikla alvöru og andstæður heldur bendir það til að innan ríkisstjórnarinnar leggi menn einfaldlega ekki sömu merkingu í hugtak eins og stöðugleika.Mæða eða áskorun nýs árs Mörgum finnst ugglaust að þeir standi í sömu sporum og fyrir ári. En að öllu þessu virtu hefur þó ýmislegt hnikast í rétta átt; þótt ekki sé nema um nokkur fet. Rætur betrumbótanna liggja margar hverjar í þessu annálaða sjónvarpsviðtali. Þjóðarbúið hafði með öðrum orðum hag af því að svo fór sem fór. Annað er, að fimm árum eftir hrun er einn helsti vandinn sem forystumenn í stjórnmálum standa andspænis hversu snúið það er að gera hvort tveggja í senn, að auka mönnum bjartsýni og segja allan sannleikann um stöðu þjóðarbúsins. Umhleypingar í efnahagslífi annarra landa hafa síðan auðveldað leikinn fyrir forseta Íslands og þá sporgöngumenn hans sem vilja slíta utanríkispólitík landsins upp með rótum. Það veldur óvissu. Sjálfstæðisflokkurinn geldur þess greinilega að hafa misst forystuhlutverkið í utanríkismálum til Bessastaða. Leiðtogum vinstri stjórnarinnar var tíðrætt um fórnir. Ekki er víst að það sé vel valið orð þótt mæði náfölva hafi núllstillt lífsgæðin. Fyrir hrun byggðu þau á froðu. Vilji menn endurheimta fyrri kjör með stöðugleika þarf að skapa raunveruleg verðmæti. Þau koma ekki af sjálfu sér. Það þarf að afla þeirra. Til þess þarf miklu meiri breytingar. Þær geta verið mæða eða áskorun nýs árs eftir því hvernig á er litið.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun