Skoðun

Opið bréf til Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Friðrik Sigurðsson skrifar

Ágæti ráðherra.

Landssamtökunum Þroskahjálp hefur borist fjöldi ábendinga og kvartana vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á kostnaðarþátttöku notenda í bleyjukaupum við setningu nýrrar reglugerðar sem tók gildi nú um áramótin.



Þessi breyting hefur í för með sér verulega kjaraskerðingu hjá því fólki sem vegna veikinda eða fötlunar er háð því að nota bleyjur að staðaldri. Samkvæmt upplýsingum sem samtökin hafa aflað sér getur kostnaðarþátttaka hjá fullorðnum einstaklingi numið 4-5.000 krónum á mánuði. Þær u.þ.b 5.700 króna auknu ráðstafanatekjur sem margir af skjólstæðingum samtakanna fengu nú um áramót vegna verðlagshækkana örorkulífeyris hefur ríkissjóði tekist að ná til baka að stærstum hluta. Fyrir manneskju sem eingöngu hefur tekjur sínar af örorkulífeyri er hér um að ræða alvarlega og viðvarandi kjaraskerðingu sem ekki getur talist ásættanleg.



Kaup á bleyjum geta ekki talist til eðlilegra útgjalda fyrir fólk sem komið er af barnsaldri og engar líkur á að um misnotkun sé að ræða enda ekki varningur sem er eftirsóttur nema fyrir þá sem þurfa nauðsynlega á honum að halda. Því eru öll rök fyrir því að það sé bæði sanngjarnt og eðlilegt að Sjúkratryggingar Íslands taki 100% þátt í kostnaði við bleyjukaup.



Landssamtökin Þroskahjálp fara fram á það við ráðherra að hann endurskoði umrædda reglugerð og færi hana aftur til fyrra horfs, þ.e. í 100% greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna bleyjukaupa einstaklinga þriggja ára og eldri.



Jafnframt vilja samtökin benda á að þær breytingar sem gerðar hafa verið á bótum almannatrygginga og skattamálum að undanförnu hafa ekki komið þeim einstaklingum til góða sem einvörðungu hafa bætur almannatrygginga sér til framfærslu. Hagur þessara einstaklinga mun því hreinlega versna frá því sem áður var.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×