Skoðun

Hver ber ábyrgð á Orkuveitu Reykjavíkur?

S. Björn Blöndal skrifar
Af öllum innviðum Reykjavíkurborgar, og sannarlega eru þeir margir og mikilvægir, þá er Orkuveita Reykjavíkur líklega sá mikilvægasti. Neysluvatn, ljós, hiti, rafmagn, frárennsli, allt eru þetta lífsnauðsynleg gæði sem íbúar telja til sjálfsagðra réttinda að hafa aðgang að.

Hlutverk borgaryfirvalda er öðru fremur að tryggja íbúum Reykjavíkurborgar þau mannréttindi sem talin eru forsenda farsæls lífs í nútímasamfélagi, þar á meðal grunnþjónustuna sem Orkuveita Reykjavíkur veitir. Borgaryfirvöld bera því ekki aðeins ábyrgð á þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur. Þeim ber einnig að sjá til þess að rekstur hennar sé öruggur og óslitinn.

Núverandi borgarstjórnarmeirihluta, undir forystu Jóns Gnarr borgarstjóra, hefur tekist að tryggja að rekstur Orkuveitu Reykjavíkur sé með réttu lagi. Það er sjálfsagður þáttur í því að tryggja grundvallarréttindi borgaranna.

Í upphafi þess kjörtímabils sem nú er að líða blés ekki byrlega í rekstri Orkuveitunnar. Tekið var á því með markvissum hætti. Þetta var þríþætt verkefni:

a) Sérstök nefnd greindi ástæður þess að Orkuveita Reykjavíkur var komin í vanda. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir í rannsóknarskýrslu. Ábendingar um nauðsynlegar úrbætur sem fram komu í skýrslu nefndarinnar voru teknar til greina og við þeim var brugðist.

b) Hópur sérfræðinga með viðeigandi þekkingu og reynslu var fenginn til að leiða reksturinn á rétta braut. Stjórn OR mótaði skýra og einfalda áætlun um nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja rekstur fyrirtækisins í samvinnu við Reykjavíkurborg og aðra eigendur.

c) Kjörnir fulltrúar í eigendasveitarfélögunum hafa mótað Orkuveitu Reykjavíkur eigendastefnu til lengri tíma og sett rekstri fyrirtækisins ramma sem tryggir öryggi í rekstri þess til langframa.

Í lok kjörtímabilsins er rekstur Orkuveitu Reykjavíkur tryggur og í föstum skorðum og öllum hagsmunaaðilum ljóst hvaða áherslur ráða ferðinni til framtíðar. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur tekið ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og skilar honum frá sér í miklu betra horfi en þegar við var tekið.

Viðsnúningurinn á rekstri Orkuveitunnar sýnir hverju nýjar leiðir forystu og samvinnu geta skilað. Reykjavík á það skilið að haldið sé áfram á sömu braut.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×