Skoðun

Stöndum vörð um hjartað í Vatnsmýri

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Greta Björg Egilsdóttir skrifar
Mikið hefur verið þráttað um framtíð Reykjavíkurflugvallar, einkum frá aldamótum. Ríkið og Reykjavíkurborg hafa verið í alls kyns hrossakaupum um samgöngumiðstöð, aðflugsljós, trjáklippingar, kennsluflug, neyðarflugbraut og loks niðurrif Reykjavíkurflugvallar.

Til tíðinda dró þó þann 25. október sl. þegar undirrituð voru tvö samkomulög í Hörpu. Annað var undirritað af forsætisráðherra, innanríkisráðherra, borgarstjóra, formanni borgarráðs og forstjóra Icelandair Group og sneri að því að fresta lokun aðalflugbrautar, N/S-brautar, frá 2016 til 2022, til samræmis við gildandi samgönguáætlun og setja á laggirnar nefnd sem á að kanna til hlítar hvort önnur staðsetning finnist fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.

Hitt samkomulagið varð til vegna þess að forsætisráðherra þvertók fyrir að skrifa undir þau ákvæði sem þar eru, meðal annars lokun neyðarbrautarinnar (NA/SV) og úthýsingu kennslu- og æfingaflugs af Reykjavíkurflugvelli. Þegar þetta var undirritað þá lá ekki fyrir áhættumat vegna lokunar á neyðarbrautinni eða möguleg staðsetning fyrir kennslu- og æfingaflug. Hins vegar lá fyrir að Reykjavíkurflugvöllur færi í ruslflokk á alþjóðlegan mælikvarða við lokun neyðarbrautarinnar.

Við þetta má ekki una. Ef enginn stendur vörð um miðstöð innanlandsflugs nú, þá er raunveruleg hætta á því að flugvallarandstæðingar í núverandi meirihluta borgarstjórnar fái tækifæri til að ljúka ætlunarverki sínu og rífa Reykjavíkurflugvöll í flumbrugangi þrátt fyrir að ljóst sé að um 72% borgarbúa sé því mótfallin. Það yrði þá ekki í fyrsta sinn sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins, nú Bjartrar framtíðar, færi í vanhugsaðar framkvæmdir sem spilla samgöngum, eins og dæmin sanna. Þar standa upp úr framkvæmdir við Hofsvallagötu, Borgartún, að ógleymdri Snorrabraut, sem spillt var þrátt fyrir öflug mótmæli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á þeim grundvelli að það ógnaði öryggi íbúa norðurborgarinnar.

Þá er rétt að nefna að eftir að í hámæli komust draumkenndar og yfirgangssamar hugmyndir meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins við hverfisskipulag, þá sáu þau þann kostinn vænstan að fella eigin tillögur í borgarráði.

Vinnubrögð sem þessi, þar sem unnið er gegn vilja borgarbúa og reynt að fara á bak við þá, mega ekki líðast í opinberri stjórnsýslu. Stöndum vörð um vilja borgarbúa, kjósum Framsókn og flugvallarvini til að tryggja opna og faglega stjórnsýslu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×