Skoðun

Köstum ekki verðmætum á glæ

Ingvar Jónsson skrifar
Framsóknarflokkurinn og Flugvallarvinir vilja vernda Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir lokun neyðarflugbrautar sem samkvæmt samkomulagi borgarstjóra og innanríkisráðherra á að loka eins fljótt og hægt er. Framsókn og Flugvallarvinir vilja tryggja nægt lóðaframboð fyrir íbúa og fyrirtæki í Reykjavík án þess að fórna Reykjavíkurflugvelli. Það skortir ekki byggingarland í Reykjavík.

Rétt eins og aðrir flugvellir þá skapar Reykjavíkurflugvöllur störf og laðar að sér fólk og viðskipti. Þar að auki stunda fjölmargir flugnám á flugvellinum. Flugvöllurinn er mikilvægur hlekkur í atvinnustarfsemi landsins og ég trúi að það séu samfélagsleg og efnahagsleg mistök að leggja hann niður.

Rándýrar íbúðir fyrir hverja?

Að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og byggja húsnæði í Vatnsmýrinni verður dýrt. Ég velti fyrir mér hverjir hafi efni á því að kaupa sér nýja íbúð þar. Það er kostnaðarsamara að byggja í mýri en á klöpp og giska ég á að meðalfermetraverð fyrir íbúðarhúsnæði verði vart undir 600 þúsund krónum. Það eru 60 milljónir fyrir 100 fermetra íbúð. Ég tel að þetta sé varlega áætlað. Laun á Íslandi eru ekki nógu há til að raunhæft sé að meðal Jón og Gunna fari í slíka fjárfestingu. Til að koma til móts við vilja þeirra sem vilja byggð í Vatnsmýri er vel hægt að byggja í kringum flugvöllinn án þess að þjarma að honum eða leggja hann niður.

Virðum vilja borgarbúa

Samkvæmt skoðanakönnun vilja u.þ.b. 70% borgarbúa og 80% landsmanna flugvöllinn áfram í Vatnsmýri. Það eru mikil verðmæti fólgin í flugvellinum sem óskynsamlegt er að kasta á glæ. Ég hvet þig, kjósandi góður, til að leggja málstaðnum lið og kjósa Framsókn og Flugvallarvini í Reykjavík. X-B.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×