Skoðun

Sjálfsprottna menningu. Ekki hótelæði

Ragnar Auðun Árnason skrifar
Það er varla ofsögum sagt að undanfarin ár hafi gengið yfir hálfgert hótelæði í Reykjavík, því það virðist varla vera sá blettur í borginni, sérstaklega í miðbænum og í námunda Laugavegarins, sem ekki þarf að leggja undir hótel. Ekkert annað kemst að, og allra síst sjálfsprottin menning eða tónlistarlíf.

Hótelæðið hefur bitnað sérstaklega á ungum og efnilegum tónlistarmönnum. Ungir tónlistarmenn og allt tónlistaráhugafólk hefur þurft að horfa á eftir stöðum eins og Nasa, Hjartagarðinum og Faktorý.

Fljótt á litið virðast staðir á borð við Hjartagarðinn, Nasa og Faktorý ekki hjarta menningarinnar í Reykjavík. En ég vil fullyrða að þeir hafa skipt sköpum fyrir ungt fólk og unga listamenn sem munu í framtíðinni vera leiðandi í menningarsköpun okkar. Ef ungt fólk á að geta blómstrað í Reykjavík þarf það að hafa staði til þess að prófa sig áfram, halda tónleika og hittast í lifandi umhverfi. Menning framtíðarinnar mun ekki þroskast í hótellobbýum eða í túristasjoppum.

Hugsunarhátturinn í borginni virðist vera sá sami og í annarri uppbyggingu hér á landi. Það er aldrei hugsað hverju við fórnum. Það sama gildir um menningu borgarinnar og náttúru landsins: Jarðýtum er sigað á allt sem stendur í vegi fyrir uppbyggingunni.

Að sjálfsögðu á að efla ferðaiðnaðinn, en þegar við rífum niður það sem ferðamennirnir koma til þess að sjá og það sem gerir Ísland að því landi sem það er þá eyðileggjum við fyrir okkur sjálfum. Menningin og náttúrufegurðin er það sem dregur ferðamenn hingað, ekki hótelbyggingar.

Fyrir okkur, sem borg, skiptir þó mestu að við lokum ekki á möguleika ungmenna til þess að koma saman og tjá list sína. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði viljum að miðbænum verði hlíft við frekari eyðileggingu vegna hótelæðisins. Þess í stað skuli gert meira til að efla sjálfsprottna menningu. Borgin þarf að leggja sitt af mörkum til þess að auðvelda ungum tónlistarmönnum og götulistamönnum, listamönnum framtíðarinnar, að finna staði til að þróa list sína.

Aðeins þannig getur borgin haldið áfram að blómstra sem menningarborg!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×