"Ég vil elska mitt land“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 16. júní 2014 07:00 Mér hefur alltaf fundist hún svolítið einkennileg þessi setning hjá Jóni Trausta: „Ég vil elska mitt land.“ Þetta er úr Íslandsvísum hans frá árinu 1901 sem tileinkaðar eru alþingismönnum og hafa að geyma heitstrengingar á þeirra tíma vísu þegar ættjarðarástin var enn saklaus og alltumlykjandi, umfaðmandi en ekki útilokandi. Þetta hljómar eins og það sé einhverjum vandkvæðum bundið að elska landið. Hann vill … en ástin á aldrei að vera komin undir vilja heldur er þetta kennd sem umlykur mann nánast án þess að maður fái nokkuð við ráðið. Maður elskar af því að maður elskar. Og það er auðvelt að elska Ísland: fjöllin, fossana, litlu blómin, lækina, vindinn, grænar sveitir, bláan himin, litskrúðug þök, hina sérstæðu íslensku rýmiskennd sem lýsir sér í sundurlausu og agalausu skipulagi og skorti á miðju, tungumálið, fólkið … Ætli eigi ekki betur við mína kynslóð frasinn léttúðugi: „Ég fíla svo vel að vera frónari.“Að vera frónari … Ísland er ungt. Þjóðin er ung og íslensk menning er enn í mótun. Íslensk menning er deigla, opið svæði en ekki lokað; hún er ekki endanleg – skilgreind fyrir fullt og allt, hún er ekki liðin undir lok. Hvernig eigum við eiginlega að hafa þetta: erum við amerísk? erum við evrópsk? erum við norðurlandaþjóð? erum við ekki keltar? eða eigum við kannski að vera herúlar eða péttar eða einhver slík dularfull og exótísk þjóð sem hvarf á þjóðflutningatímanum í kjölfar hruns Rómaveldis? Enn eru Íslendingar að hugsa sig um. Menning okkar er enn að taka við áhrifum héðan og þaðan sem ganga svo í samband við það sem fyrir er og úr verður eitthvað nýtt: hvort sem um er að ræða bókmenntir eða bátasmíði, arkítektúr, hárgreiðslu, tónlist, fimleika, umbreytta bíla eða skótísku. Hér er fámenn þjóð og blönduð, það munar um hvern nýjan einstakling: Sé eitthvað spennandi og lífvænlegt við íslenska menningu er það þetta: hversu blönduð hún er og hversu auðveldlega hún tekur við nýjum áhrifum í sífellu og skapar úr þeim eitthvað nýtt, eitthvað sitt. Þetta er innflytjendamenning í grunninn og við sem hér búum erum komin af landnemum – soldið eins og Ameríkanar, nema munurinn er sá að þegar Ísland byggðist var hér ekki fyrir önnur þjóð sem rænd var landi sínu, reisn og siðum; landnám Íslands útheimti ekki þjóðarmorð heldur bara hitt: að fara um með eldi eða kú og gefa hverju fjalli nafn, hverjum firði, hverjum dal, hverjum hól. Þar með er að vísu ekki sagt að saga landnámsins sé laus við ofbeldi. Saga þjóðarinnar hefst á þrælauppreisn, þegar írskir þrælar – „vestmenn“ – drepa Hjörleif, fóstbróður Ingólfs, og fara út í Vestmannaeyjar, sem æ síðan hefur verið kjörlendi hinna uppreisnargjörnu hrekkjarlóma. Þrælar Ingólfs, Vífill og Karli, voru líka írskir og kaldhæðnir eftir því. Þegar þeir fundu öndvegissúlurnar þar sem Reykjavík stendur nú sagði Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Af þessu fólki erum við komin.Í leit að rými Við skiljum orð Karla þegar við lesum þau. Ekki bara orðin, heldur getum við tengst hugarfarinu þar að baki: þó að rituð séu tveimur og hálfri öld síðar af Ara fróða þá getum við þegar við lesum þessi orð komist í beint samband við hugsanir írsks þræls við upphaf fastrar búsetu á Íslandi. Það er nokkurs vert. Íslendingar koma úr öllum áttum. Hingað fluttist í upphafi fólk frá Noregi, Írlandi, Suðureyjum og Finnlandi, svo að nokkur lönd séu nefnd. Og æ síðan hefur komið hingað fólk frá öllum deildum jarðar, ýmist náð að una sér í þessu harðhnjóskulega umhverfi eður ei: nú er svo komið að þjóðfélagið verður ekki rekið með góðu móti án þess að njóta krafta frá fólki sem kemur hingað í leit að vinnu eða staðfestu. Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu: Þessi orð eiga að vera greypt yfir dyrnar á svonefndri Útlendingastofnun. Hin hefðbundna íslenska söguskoðun er sú að hingað hafi upphaflega komið fólk til þess að sleppa undan ofríki og skattpíningu Haraldar lúfu; það hafi viljað ráða sér sjálft; það hafi leitað að rými þar sem það gæti mótað sjálft líf sitt. Því ekki það? Þar með hljótum við að taka vel þeim sem hingað leita. Og þó að hugmyndin um land, þjóð og tungu verði æ langsóttari eigum við sem hér búum að geta mæst í ástinni á rýminu sem Ísland veitir okkur. Íslenskar deilur í þúsund ár: snúast þær ekki alltaf um rými? Hið eilífa landamerkjaþjark? Íslensk ættjarðarást snýst um rýmið eins og við sjáum á rammflóknu gaddavírsneti um allar þorpagrundir hér; hið eilífa tal Íslendinga um „dásamlegt útsýni“ tjáir þrá eftir víðáttu, að sjá langt og helst út á sjó, hafa tilfinningu fyrir olnbogarými. Íslandssagan er leit að rými fyrir sig og sína; landlaust fólk að hrekjast upp á heiðar í leit að rými eftir að stórbændur höfðu komið málum svo fyrir að eðlileg þéttbýlismyndun varð ekki við sjávarsíðuna. Af þessu landlausa fólki erum við komin. Og hljótum að skilja allt landlaust fólk sem hingað kemur í leit að rými. Nóg er plássið hér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Öfundargenið Torfi H. Tulinius Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Veistu þitt skýjaspor? Hólmfríður Rut Einarsdóttir,Þóra Rut Jónsdóttir Skoðun 7.500 íbúðir á Reykjavíkurflugvelli? Ásdís Kristjánsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun
Mér hefur alltaf fundist hún svolítið einkennileg þessi setning hjá Jóni Trausta: „Ég vil elska mitt land.“ Þetta er úr Íslandsvísum hans frá árinu 1901 sem tileinkaðar eru alþingismönnum og hafa að geyma heitstrengingar á þeirra tíma vísu þegar ættjarðarástin var enn saklaus og alltumlykjandi, umfaðmandi en ekki útilokandi. Þetta hljómar eins og það sé einhverjum vandkvæðum bundið að elska landið. Hann vill … en ástin á aldrei að vera komin undir vilja heldur er þetta kennd sem umlykur mann nánast án þess að maður fái nokkuð við ráðið. Maður elskar af því að maður elskar. Og það er auðvelt að elska Ísland: fjöllin, fossana, litlu blómin, lækina, vindinn, grænar sveitir, bláan himin, litskrúðug þök, hina sérstæðu íslensku rýmiskennd sem lýsir sér í sundurlausu og agalausu skipulagi og skorti á miðju, tungumálið, fólkið … Ætli eigi ekki betur við mína kynslóð frasinn léttúðugi: „Ég fíla svo vel að vera frónari.“Að vera frónari … Ísland er ungt. Þjóðin er ung og íslensk menning er enn í mótun. Íslensk menning er deigla, opið svæði en ekki lokað; hún er ekki endanleg – skilgreind fyrir fullt og allt, hún er ekki liðin undir lok. Hvernig eigum við eiginlega að hafa þetta: erum við amerísk? erum við evrópsk? erum við norðurlandaþjóð? erum við ekki keltar? eða eigum við kannski að vera herúlar eða péttar eða einhver slík dularfull og exótísk þjóð sem hvarf á þjóðflutningatímanum í kjölfar hruns Rómaveldis? Enn eru Íslendingar að hugsa sig um. Menning okkar er enn að taka við áhrifum héðan og þaðan sem ganga svo í samband við það sem fyrir er og úr verður eitthvað nýtt: hvort sem um er að ræða bókmenntir eða bátasmíði, arkítektúr, hárgreiðslu, tónlist, fimleika, umbreytta bíla eða skótísku. Hér er fámenn þjóð og blönduð, það munar um hvern nýjan einstakling: Sé eitthvað spennandi og lífvænlegt við íslenska menningu er það þetta: hversu blönduð hún er og hversu auðveldlega hún tekur við nýjum áhrifum í sífellu og skapar úr þeim eitthvað nýtt, eitthvað sitt. Þetta er innflytjendamenning í grunninn og við sem hér búum erum komin af landnemum – soldið eins og Ameríkanar, nema munurinn er sá að þegar Ísland byggðist var hér ekki fyrir önnur þjóð sem rænd var landi sínu, reisn og siðum; landnám Íslands útheimti ekki þjóðarmorð heldur bara hitt: að fara um með eldi eða kú og gefa hverju fjalli nafn, hverjum firði, hverjum dal, hverjum hól. Þar með er að vísu ekki sagt að saga landnámsins sé laus við ofbeldi. Saga þjóðarinnar hefst á þrælauppreisn, þegar írskir þrælar – „vestmenn“ – drepa Hjörleif, fóstbróður Ingólfs, og fara út í Vestmannaeyjar, sem æ síðan hefur verið kjörlendi hinna uppreisnargjörnu hrekkjarlóma. Þrælar Ingólfs, Vífill og Karli, voru líka írskir og kaldhæðnir eftir því. Þegar þeir fundu öndvegissúlurnar þar sem Reykjavík stendur nú sagði Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Af þessu fólki erum við komin.Í leit að rými Við skiljum orð Karla þegar við lesum þau. Ekki bara orðin, heldur getum við tengst hugarfarinu þar að baki: þó að rituð séu tveimur og hálfri öld síðar af Ara fróða þá getum við þegar við lesum þessi orð komist í beint samband við hugsanir írsks þræls við upphaf fastrar búsetu á Íslandi. Það er nokkurs vert. Íslendingar koma úr öllum áttum. Hingað fluttist í upphafi fólk frá Noregi, Írlandi, Suðureyjum og Finnlandi, svo að nokkur lönd séu nefnd. Og æ síðan hefur komið hingað fólk frá öllum deildum jarðar, ýmist náð að una sér í þessu harðhnjóskulega umhverfi eður ei: nú er svo komið að þjóðfélagið verður ekki rekið með góðu móti án þess að njóta krafta frá fólki sem kemur hingað í leit að vinnu eða staðfestu. Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu: Þessi orð eiga að vera greypt yfir dyrnar á svonefndri Útlendingastofnun. Hin hefðbundna íslenska söguskoðun er sú að hingað hafi upphaflega komið fólk til þess að sleppa undan ofríki og skattpíningu Haraldar lúfu; það hafi viljað ráða sér sjálft; það hafi leitað að rými þar sem það gæti mótað sjálft líf sitt. Því ekki það? Þar með hljótum við að taka vel þeim sem hingað leita. Og þó að hugmyndin um land, þjóð og tungu verði æ langsóttari eigum við sem hér búum að geta mæst í ástinni á rýminu sem Ísland veitir okkur. Íslenskar deilur í þúsund ár: snúast þær ekki alltaf um rými? Hið eilífa landamerkjaþjark? Íslensk ættjarðarást snýst um rýmið eins og við sjáum á rammflóknu gaddavírsneti um allar þorpagrundir hér; hið eilífa tal Íslendinga um „dásamlegt útsýni“ tjáir þrá eftir víðáttu, að sjá langt og helst út á sjó, hafa tilfinningu fyrir olnbogarými. Íslandssagan er leit að rými fyrir sig og sína; landlaust fólk að hrekjast upp á heiðar í leit að rými eftir að stórbændur höfðu komið málum svo fyrir að eðlileg þéttbýlismyndun varð ekki við sjávarsíðuna. Af þessu landlausa fólki erum við komin. Og hljótum að skilja allt landlaust fólk sem hingað kemur í leit að rými. Nóg er plássið hér.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun