Skoðun

Fáein orð um samtakamátt

Kristján Þór Júlíusson skrifar
Landspítala voru í gær færðar að gjöf 110 milljónir króna til kaupa á svokölluðum aðgerðaþjarka. Gjöfin kemur úr sjóði sem stofnaður var í þessum tilgangi en samkvæmt samkomulagi við spítalann skyldi ráðist í kaupin, tækist að safna fyrir um helmingi kaupverðsins. Söfnunin hefur staðið yfir í tæpt ár og gengið vonum framar, enda eldhugar sem efndu til hennar og kveiktu áhuga hjá öðrum til þátttöku.

Mikilvægi aðgerðaþjarkans er margþætt og hugurinn að baki söfnuninni skiptir einnig máli. Framlög hafa borist víðs vegar að af landinu, smá og stór, frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum, að ógleymdum þeim merka Pokasjóði sem lagði drjúgt til mála. Þannig sýnir fólk hug sinn til Landspítalans sem stendur augljóslega undir nafni sem þjóðarsjúkrahúsið okkar allra. Þessi söfnun er líka frábært dæmi um samtakamáttinn, hvernig hann getur flutt fjöll, stuðlað að framförum og fært okkur nýja sigra.

Faglegt mikilvægi aðgerðaþjarkans er óumdeilt. Tæki sem þessi eru til á sjúkrahúsum víða um heim og fer fjölgandi. Um læknisfræðilegt gildi ætla ég ekki að fjölyrða en vísa á viðtal við Eirík Jónsson yfirlækni í Læknablaðinu á liðnu ári. Bætt meðferð og skjótari bati sjúklinga er stærsti ávinningurinn en að auki fæst sá stóri bónus að Landspítalinn fetar inn í heim nýjustu tækni nútíðar og framtíðar.

Ég hef nefnt nafn Eiríks Jónssonar og vil þakka honum sérstaklega fyrir framsýni og metnað sem hann ber í brjósti fyrir sérgrein sína, sjúklinga og framtíð Landspítalans. Eiríkur hefur verið ein helsta driffjöðrin að baki söfnuninni og hans þáttur er ómetanlegur.

Alþingi samþykkti á liðnu ári áætlun um aukin framlög næstu árin til endurnýjunar á tækjakosti Landspítalans, auk þess sem rekstrargrunnur spítalans var styrktur. Þetta skiptir miklu og mun gera spítalanum kleift að standa undir mikilvægri endurnýjun tækja frá ári til árs. Kaupin á aðgerðaþjarkanum hefðu ekki verið gerleg hefði söfnunin ekki komið til – en með þessu merka söfnunarátaki og auknum framlögum úr ríkissjóði er þetta þjóðþrifamál mögulegt. Vörn síðustu ára hefur verið snúið í sókn hjá Landspítalanum og fram undan eru bjartari tímar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×