Skoðun

Ertu þá farin? Farin frá mér?

Sara McMahon skrifar
Undanfarnar vikur hafa þrír vinir mínir flutt búferlum ásamt fjölskyldum sínum og hafið nýtt líf í nýju landi. Reyndar er sú þriðja og síðasta ófarin enn – hún flyst vestur um haf á morgun. Ég og hún eigum okkur litla sunnudagshefð: að hittast í kaffi á Eymundsson, fara yfir liðna viku og blaða í gegnum tímarit. Það var því við hæfi að kveðjustundin ætti sér stað með hefðbundnu sunnudagssniði.

Að kaffispjallinu loknu var komið að hinni eiginlegu kveðjustund. Vesturfarinn vildi þó ómögulega hafa augnablikið of tilfinningaþrungið og tók fram að við mundum auðvitað halda áfram að eiga okkar vikulega spjall. Og það munum við gera – með aðstoð nýjust tækni og vísinda.

Ég var sautján ára gömul þegar ég flutti fyrst frá Íslandi. Ég fór að vísu ekki langt, rétt yfir hafið til Írlands þar sem ég fékk að búa hjá föðurbróður mínum og fjölskyldu hans. En í þá daga var allt eitthvað svo „gammeldags“: Mamma mín var sú eina sem ég þekkti sem hafði aðgang að tölvupósti og sjálf var ég ekki nettengd nema einu sinni í viku þegar ég sótti sérstaka tölvutíma í skólanum. Öll mín samskipti við vini voru í formi handskrifaðra bréfa.

Égflutti svo til Austurríkis á því herrans ári 2000. Tækninni hafði fleygt töluvert fram á ekki nema þremur árum og ég var komin með Nokia GSM-síma og flestir vinirnir voru skráðir á MSN-spjallforritið. Ég gat meira að segja fylgst með skemmtanalífinu heima í Reykjavík í gegnum alls kyns netsíður sem sérhæfðu sig í birtingu „djammmynda“. Fjórtán árum seinna hafa Facebook, Skype og Instagram bæst við flóruna og gert heiminn enn minni en áður.

Ég mun vissulega sakna sunnudagssamverunnar með Vesturfaranum en það er huggun harmi gegn að vita af því að hún er ekki nema „one Skype-call away“.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×