Skoðun

Óæðri berin

Sara McMahon skrifar
Á föstudaginn var brunaði ég norður á land í þeim tilgangi að tína heilan helling af íslenskum berjum. Við vorum tvö sem héldum saman í þetta ferðlag. Tvö sem höfðum það að markmiði að tína eins mikið af berjum og við mögulega gætum á einum degi.

Aðmorgni laugardags var haldið sem leið lá inn í svolítið gil uppi á heiði sem ég man ekki nafnið á. Þessi sami staður hafði tveimur árum áður gefið vel af sér af aðalbláberjum (sem mér skilst að séu jafngildi trufflu eða kavíars). Í ár var þó annað uppi á teningnum, enda vorum við töluvert seinna á ferð en árin áður, og bláberin báru þess augljós merki. En! Svæðið var fullt af krækiberjum. Stórum, bústnum, safaríkum og gómsætum krækiberjum á stærð við fingurnögl.

Ég er mikill aðdáandi krækiberja – mér finnst þau næstum betri en fyrrnefnd aðalbláber. Þau springa svo skemmtilega þegar bitið er í þau og svo eru þau alveg passlega sæt. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar og hófst rösklega handa við berjatínsluna.

Þegarfyrsta ílátið var orðið fullt bar ég það undir hinn berjatínslumanninn, yfirberjatínarann, sem var ekki ýkja hrifinn. Samkvæmt fagmanninum er stranglega bannað að blanda tegundum saman eins og ég hafði gert – og það sem verra var: Ég hafði ekki einbeitt mér bara, og aðeins bara, að því að tína aðalbláberin eftirsóttu.

Það sem eftir lifði dags fór ég eftir settum reglum og tíndi bara bláber með hálfloppnum höndum. En þegar þau voru ekki fleiri gat ég loks snúið mér aftur að óæðri berjum. Pattaralegum, vænum krækiberjum sem springa svo skemmtilega þegar bitið er í þau.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×