Fyndnu strákarnir í stjórnarráðinu Friðrika Benónýsdóttir skrifar 16. desember 2014 07:00 Því hefur stundum verið haldið fram að hroki sé hin hliðin á þeim peningi sem hefur óttann á framhliðinni. Sé eitthvað til í því hlýtur að ríkja algjör skelfing meðal starfsmanna í stjórnarráði Íslands þessar vikurnar. Þar er ekkert lát á hrokafullum viðbrögðum við hverju því sem upp kemur í umræðunni og er þá sama hvort í hlut eiga ráðherrar eða starfsmenn stjórnarráðsins. Helst lítur út fyrir að þar innan dyra ríki sú skoðun að stjórnarráðið sé sjálfstætt ríki sem hvorki þurfi né vilji lúta þeim lögmálum sem ríkja annars staðar í samfélaginu. Þaðan af síður virðist vera nokkur skilningur á því að þeir sem þar starfa séu starfsmenn þjóðarinnar sem kom þeim til valda og greiðir þeim laun. „Ég á þetta, ég má þetta“-hugsunarhátturinn virðist hafa flust frá útrásarvíkingunum beint inn í æðsta ráðuneyti ríkisins. Það getur ekki endað vel. Dæmin um hrokafulla framkomu og viðbrögð úr stjórnarráðinu eru svo mörg að það er erfitt að vita hvar á að byrja í þeirri upptalningu. Rústun Ríkisútvarpsins hefur borið hæst í umræðunni undanfarna daga, eðlilega, en það er bara toppurinn á ísjakanum. Um helgina gerði upplýsingafulltrúi sjálfrar ríkisstjórnar Íslands sig sekan um að reyna að stjórna orðavali í fréttaflutningi Reykjavík Grapevine af fjarveru forsætisráðherra þegar fjárlögin voru tekin til annarrar umræðu á Alþingi. Hrokinn sem hann sýnir í þeim samskiptum er með fádæmum eins og komið hefur fram í tölvupóstum hans sem Grapevine birti í gær. Ekki nóg með það, hann virðist ekki sjá neitt athugavert við þessi afskipti sín og reynir að kjafta sig út úr vandræðunum með fáránlegum bröndurum á umræðuþráðum á Facebook. Virkilega þroskuð afstaða, eða þannig. Sigurður Már þarf reyndar ekki að sækja fyrirmyndina að slíkum hroka langt, hans æðsti yfirmaður, sjálfur forsætisráðherrann, beitir þessu stílbragði gjarna á sinni Facebook-síðu og virðist telja það sæmandi að afgreiða hitamál í umræðunni með fimmaurabröndurum og útúrsnúningum, samanber hinn ofurfyndna brandara hans um ótta jólasveina á jólaballi fyrir börn við mannréttindaráð Reykjavíkurborgar sem komst í alla vefmiðla í gær. Það er með algjörum ólíkindum að æðsti maður ríkisstjórnar skuli leyfa sér slíkt og skýrir kannski betur en flest annað hvernig viðhorf undirsáta hans til fréttaflutnings er. Eftir höfðinu dansa limirnir, svona líka fyndnir. Það er hins vegar enginn brandari að í lýðræðisþjóðfélagi skuli stjórnvöld ekki sjá neitt athugavert við það að reyna að stýra fréttaflutningi af stjórnmálasenunni og grípa til refsiaðgerða gegn þeim fréttamiðlum sem ekki eru þeim nógu hliðhollir. Það er ógnvekjandi afstaða og verður ekki nægilega undirstrikað að slíkt má ekki með nokkru móti láta viðgangast. Stjórnvöld sem kúga fjölmiðla til hlýðni við eigin stefnu hafa hingað til einskorðast við einræðisríki og það er algjör lífsnauðsyn að stöðva slíkar tilraunir í fæðingu. Því þótt starfsfólk stjórnarráðsins virðist ekki átta sig á því er Ísland lýðræðisríki og það er í okkar valdi að velja þá sem stjórna, þeir eru ekki ósnertanlegir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Heimssýn úr músarholu – Gengur það? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Innflytjendur eru blórabögglar Achola Otieno Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Að refsa eða treysta VG? Finnur Ricart Andrason Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun
Því hefur stundum verið haldið fram að hroki sé hin hliðin á þeim peningi sem hefur óttann á framhliðinni. Sé eitthvað til í því hlýtur að ríkja algjör skelfing meðal starfsmanna í stjórnarráði Íslands þessar vikurnar. Þar er ekkert lát á hrokafullum viðbrögðum við hverju því sem upp kemur í umræðunni og er þá sama hvort í hlut eiga ráðherrar eða starfsmenn stjórnarráðsins. Helst lítur út fyrir að þar innan dyra ríki sú skoðun að stjórnarráðið sé sjálfstætt ríki sem hvorki þurfi né vilji lúta þeim lögmálum sem ríkja annars staðar í samfélaginu. Þaðan af síður virðist vera nokkur skilningur á því að þeir sem þar starfa séu starfsmenn þjóðarinnar sem kom þeim til valda og greiðir þeim laun. „Ég á þetta, ég má þetta“-hugsunarhátturinn virðist hafa flust frá útrásarvíkingunum beint inn í æðsta ráðuneyti ríkisins. Það getur ekki endað vel. Dæmin um hrokafulla framkomu og viðbrögð úr stjórnarráðinu eru svo mörg að það er erfitt að vita hvar á að byrja í þeirri upptalningu. Rústun Ríkisútvarpsins hefur borið hæst í umræðunni undanfarna daga, eðlilega, en það er bara toppurinn á ísjakanum. Um helgina gerði upplýsingafulltrúi sjálfrar ríkisstjórnar Íslands sig sekan um að reyna að stjórna orðavali í fréttaflutningi Reykjavík Grapevine af fjarveru forsætisráðherra þegar fjárlögin voru tekin til annarrar umræðu á Alþingi. Hrokinn sem hann sýnir í þeim samskiptum er með fádæmum eins og komið hefur fram í tölvupóstum hans sem Grapevine birti í gær. Ekki nóg með það, hann virðist ekki sjá neitt athugavert við þessi afskipti sín og reynir að kjafta sig út úr vandræðunum með fáránlegum bröndurum á umræðuþráðum á Facebook. Virkilega þroskuð afstaða, eða þannig. Sigurður Már þarf reyndar ekki að sækja fyrirmyndina að slíkum hroka langt, hans æðsti yfirmaður, sjálfur forsætisráðherrann, beitir þessu stílbragði gjarna á sinni Facebook-síðu og virðist telja það sæmandi að afgreiða hitamál í umræðunni með fimmaurabröndurum og útúrsnúningum, samanber hinn ofurfyndna brandara hans um ótta jólasveina á jólaballi fyrir börn við mannréttindaráð Reykjavíkurborgar sem komst í alla vefmiðla í gær. Það er með algjörum ólíkindum að æðsti maður ríkisstjórnar skuli leyfa sér slíkt og skýrir kannski betur en flest annað hvernig viðhorf undirsáta hans til fréttaflutnings er. Eftir höfðinu dansa limirnir, svona líka fyndnir. Það er hins vegar enginn brandari að í lýðræðisþjóðfélagi skuli stjórnvöld ekki sjá neitt athugavert við það að reyna að stýra fréttaflutningi af stjórnmálasenunni og grípa til refsiaðgerða gegn þeim fréttamiðlum sem ekki eru þeim nógu hliðhollir. Það er ógnvekjandi afstaða og verður ekki nægilega undirstrikað að slíkt má ekki með nokkru móti láta viðgangast. Stjórnvöld sem kúga fjölmiðla til hlýðni við eigin stefnu hafa hingað til einskorðast við einræðisríki og það er algjör lífsnauðsyn að stöðva slíkar tilraunir í fæðingu. Því þótt starfsfólk stjórnarráðsins virðist ekki átta sig á því er Ísland lýðræðisríki og það er í okkar valdi að velja þá sem stjórna, þeir eru ekki ósnertanlegir.
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun