Ómarktæk þjóð rithöfundur skrifar 24. ágúst 2015 07:00 Þjóðfélagsumræðan á Íslandi er oft meira eins og gjörningaþoka en sólskinsblettur. Maður ráfar þar um og reynir að grilla í einhver kennileiti en heyrir aðallega í þokulúðrunum sem baula hver úr sinni átt.Hefur svo hver nokkuð að baula Til dæmis þetta með makrílinn og utanríkisstefnuna – þar er margt sagt. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur tekið eindregna afstöðu gegn árásarstefnu Rússa og með sjálfsákvörðunarrétti Úkraínumanna um það hvar í sveit þeir vilja skipa sér í Evrópu – og er þó sjálfur í forystu andstæðinga ESB hér á landi og þeirra sem koma í veg fyrir að þjóðin fái að kjósa um áframhald þeirra viðræðna. Hann hefur kosið að nota þetta mál til að sýna að Íslendingar séu mikilvægir í Nató-liðinu en ekki attaníossar ESB eða annarra. Hann hefur í þessu markað sér sjálfstæði gagnvart þeim pólitíska bakhjarli sem hann er einatt talinn hafa, hjá Kaupfélaginu í Skagafirði. Það er lofsvert. Og eins og oft gerist þegar stjórnmálamenn gera eitthvað lofsvert stendur hann einn: samherjar snúast gegn honum en andstæðingar vita ekki alveg hvað þeir eiga að gera við óvæntan bandamann. Og þokulúðrarnir baula. Það er ekki fagnaðarefni að sjá íslensk fyrirtæki missa stóran og mikilvægan markað með þeim afleiðingum að störf og lífsgrundvöllur fólks og fyrirtækja kunna að vera í hættu. Óþarfi að fagna beinlínis hugsanlegum áföllum í sjávarútvegi. En er þetta áfall? Og hversu stórt? Það er erfitt að átta sig á því í öllu þokulúðrabaulinu. Fyrst töluðu felmtri slegnir útgerðarmenn um 37 milljarða skell. Þegar tekið var að athuga þetta nánar var skyndilega farið að nefna 10-15 milljarða úr þessum ranni og hver veit nema talan fari enn lækkandi; Guðmundur í Brimi segist hættur að eiga í viðskiptum við Rússa því að þeir séu skuldseigir og relli um afslátt. Yfirdrifin viðbrögð útgerðarmanna og talsmanna þeirra við framtaki Rússa hafa enn einu sinni orðið til þess að þessi mikilvæga stétt er sjálfri sér verst í ímyndargerð; enn einu sinni hefur þeim tekist að teikna upp mynd af sér sem óbilgjörnum frekjuhundum og ofleikandi grenjuskjóðum í vitund almennings. Kannski er þeim sama.Smáþjóðakænska Þar með er ekki sagt að allt sem frá andstæðingum þeirra kemur sé alveg nákvæmt. Það er til dæmis rangt að það sé einhver sérstök nýjung hjá Morgunblaðinu og Davíð Oddssyni nú, að Íslendingar eigi að haga seglum eftir vindi í utanríkismálum og láta viðskiptahagsmuni ráða för. Það var beinlínis stefna íslenskra stjórnvalda meira og minna alla síðustu öld, eftir að Íslendingar fengu í eigin hendur stjórn utanríkismála, að spila á gagnkvæma tortryggni og óvild stórveldanna og skapa hæfilega óvissu um það hversu traustir bandamenn Íslendingar væru í raun og veru. Og raunar er það fullkomlega eðlilegt að viðskiptahagsmunir fái visst vægi við mótun utanríkisstefnu; erfitt að ímynda sér það þjóðríki sem ekki hafi slík sjónarmið að minnsta kosti til hliðsjónar. Saga viðskipta Íslendinga og Rússa er löng og merkileg. Þegar maður les bækur Vals Ingimundarsonar um stjórnmálasögu síðustu aldar blasir við hvernig íslensk stjórnvöld hagnýttu sér kalda stríðið, gáfu Rússum undir fótinn þegar því var að skipta, til að fá þar góð viðskiptakjör, sem þeir notuðu sér svo í samningum við vesturveldin; og lá þá jafnan í loftinu sú hótun að Íslendingar myndu snúast á sveif með Rússum ef þeir fengju ekki eitthvað fyrir sinn snúð. Óþarfi er að skrúfa sig upp í hástemmda retórík yfir slíkri smáþjóðakænsku. Og óþarfi er að lifa sig um of inn í að stefna Nató í hinum og þessum málefnum jafngildi stóradómi sem Íslendingar hljóti að fylgja. Það táknar þó ekki að við séum ekki marktæk og meinum ekkert með því sem við segjum. Hafi menn viljað fara með löndum í deilum Rússa og Úkraínu þá er tækifærið til þess löngu liðið. Skrýtnasta innleggið í þessari umræðu er áreiðanlega sú umkvörtun útgerðarmanna og talsmanna þeirra, að „þeir hefðu viljað fá að vita þetta fyrr“, þetta hafi allt saman komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, Gunnar Bragi hafi skirrst við að kynna stefnu sína í málefnum Úkraínu og þær afleiðingar sem hún kynni að hafa. Maðurinn gerði sér sérstaka ferð til Úkraínu til að leggja sérstaka áherslu á stuðning Íslendinga við málstað þarlendra gegn Rússum. Tóku samráðherrar hans ekki eftir því? Eru þeir virkilega svona mikið alltaf í eilífðarfríi? Nú tala þeir (fyrir utan „ekki-náðist-í“-forsætisráðherra) um að þeir komi alveg af fjöllum: „Ha? Erum við á móti innrás Rússa á Krímskagann? Síðan hvenær?“ Bjarni Benediktsson virðist alltaf hrökkva jafnmikið í kút í hvert sinn sem Davíð Oddsson baular í lúðurinn sinn og vill að Íslendingar leggi snarlega niður sína reistu rófu og hlaupi ýlfrandi í skjól. Og þar með gera utanríkisráðherra landsins að ómerkingi, og þjóðina að athlægi fyrir vingulshátt, græðgi og ístöðuleysi. Bjarni Benediktsson leggur beinlínis til að Íslendingar verði ómarktæk þjóð. Allt vegna þess að útgerðarmenn fóru ekki að vinna markaðsstarf sitt um leið og það lá fyrir að markaðir kynnu að lokast í Rússlandi. Hagsmunir útgerðarmanna eiga ekki að stjórna utanríkisstefnu Íslands. Sú forsenda sem útgerðarmenn og málpípur þeirra gefa sér, að hagsmunir útgerðarinnar séu jafnframt þjóðarhagsmunir, er röng. Útgerðarmenn hafa ávaxtað ímyndarpund sitt þannig að stórum hluta þjóðarinnar finnst það ekki koma sér við þó að þeir lendi í vandræðum með markaði. Það kann að vera ósanngjarnt viðhorf, en í því efni þurfa útgerðarmenn að líta í eigin barm og hefjast handa við að reyna að sættast við þjóðina; ekki að fá þjóðina til að sætta sig við forréttindi þeirra heldur leita raunverulegra sátta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Öfundargenið Torfi H. Tulinius Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Veistu þitt skýjaspor? Hólmfríður Rut Einarsdóttir,Þóra Rut Jónsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Um sáttameðferð sýslumanns Elísabet Lorange,Jenný Kristín Valberg Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Þjóðfélagsumræðan á Íslandi er oft meira eins og gjörningaþoka en sólskinsblettur. Maður ráfar þar um og reynir að grilla í einhver kennileiti en heyrir aðallega í þokulúðrunum sem baula hver úr sinni átt.Hefur svo hver nokkuð að baula Til dæmis þetta með makrílinn og utanríkisstefnuna – þar er margt sagt. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur tekið eindregna afstöðu gegn árásarstefnu Rússa og með sjálfsákvörðunarrétti Úkraínumanna um það hvar í sveit þeir vilja skipa sér í Evrópu – og er þó sjálfur í forystu andstæðinga ESB hér á landi og þeirra sem koma í veg fyrir að þjóðin fái að kjósa um áframhald þeirra viðræðna. Hann hefur kosið að nota þetta mál til að sýna að Íslendingar séu mikilvægir í Nató-liðinu en ekki attaníossar ESB eða annarra. Hann hefur í þessu markað sér sjálfstæði gagnvart þeim pólitíska bakhjarli sem hann er einatt talinn hafa, hjá Kaupfélaginu í Skagafirði. Það er lofsvert. Og eins og oft gerist þegar stjórnmálamenn gera eitthvað lofsvert stendur hann einn: samherjar snúast gegn honum en andstæðingar vita ekki alveg hvað þeir eiga að gera við óvæntan bandamann. Og þokulúðrarnir baula. Það er ekki fagnaðarefni að sjá íslensk fyrirtæki missa stóran og mikilvægan markað með þeim afleiðingum að störf og lífsgrundvöllur fólks og fyrirtækja kunna að vera í hættu. Óþarfi að fagna beinlínis hugsanlegum áföllum í sjávarútvegi. En er þetta áfall? Og hversu stórt? Það er erfitt að átta sig á því í öllu þokulúðrabaulinu. Fyrst töluðu felmtri slegnir útgerðarmenn um 37 milljarða skell. Þegar tekið var að athuga þetta nánar var skyndilega farið að nefna 10-15 milljarða úr þessum ranni og hver veit nema talan fari enn lækkandi; Guðmundur í Brimi segist hættur að eiga í viðskiptum við Rússa því að þeir séu skuldseigir og relli um afslátt. Yfirdrifin viðbrögð útgerðarmanna og talsmanna þeirra við framtaki Rússa hafa enn einu sinni orðið til þess að þessi mikilvæga stétt er sjálfri sér verst í ímyndargerð; enn einu sinni hefur þeim tekist að teikna upp mynd af sér sem óbilgjörnum frekjuhundum og ofleikandi grenjuskjóðum í vitund almennings. Kannski er þeim sama.Smáþjóðakænska Þar með er ekki sagt að allt sem frá andstæðingum þeirra kemur sé alveg nákvæmt. Það er til dæmis rangt að það sé einhver sérstök nýjung hjá Morgunblaðinu og Davíð Oddssyni nú, að Íslendingar eigi að haga seglum eftir vindi í utanríkismálum og láta viðskiptahagsmuni ráða för. Það var beinlínis stefna íslenskra stjórnvalda meira og minna alla síðustu öld, eftir að Íslendingar fengu í eigin hendur stjórn utanríkismála, að spila á gagnkvæma tortryggni og óvild stórveldanna og skapa hæfilega óvissu um það hversu traustir bandamenn Íslendingar væru í raun og veru. Og raunar er það fullkomlega eðlilegt að viðskiptahagsmunir fái visst vægi við mótun utanríkisstefnu; erfitt að ímynda sér það þjóðríki sem ekki hafi slík sjónarmið að minnsta kosti til hliðsjónar. Saga viðskipta Íslendinga og Rússa er löng og merkileg. Þegar maður les bækur Vals Ingimundarsonar um stjórnmálasögu síðustu aldar blasir við hvernig íslensk stjórnvöld hagnýttu sér kalda stríðið, gáfu Rússum undir fótinn þegar því var að skipta, til að fá þar góð viðskiptakjör, sem þeir notuðu sér svo í samningum við vesturveldin; og lá þá jafnan í loftinu sú hótun að Íslendingar myndu snúast á sveif með Rússum ef þeir fengju ekki eitthvað fyrir sinn snúð. Óþarfi er að skrúfa sig upp í hástemmda retórík yfir slíkri smáþjóðakænsku. Og óþarfi er að lifa sig um of inn í að stefna Nató í hinum og þessum málefnum jafngildi stóradómi sem Íslendingar hljóti að fylgja. Það táknar þó ekki að við séum ekki marktæk og meinum ekkert með því sem við segjum. Hafi menn viljað fara með löndum í deilum Rússa og Úkraínu þá er tækifærið til þess löngu liðið. Skrýtnasta innleggið í þessari umræðu er áreiðanlega sú umkvörtun útgerðarmanna og talsmanna þeirra, að „þeir hefðu viljað fá að vita þetta fyrr“, þetta hafi allt saman komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, Gunnar Bragi hafi skirrst við að kynna stefnu sína í málefnum Úkraínu og þær afleiðingar sem hún kynni að hafa. Maðurinn gerði sér sérstaka ferð til Úkraínu til að leggja sérstaka áherslu á stuðning Íslendinga við málstað þarlendra gegn Rússum. Tóku samráðherrar hans ekki eftir því? Eru þeir virkilega svona mikið alltaf í eilífðarfríi? Nú tala þeir (fyrir utan „ekki-náðist-í“-forsætisráðherra) um að þeir komi alveg af fjöllum: „Ha? Erum við á móti innrás Rússa á Krímskagann? Síðan hvenær?“ Bjarni Benediktsson virðist alltaf hrökkva jafnmikið í kút í hvert sinn sem Davíð Oddsson baular í lúðurinn sinn og vill að Íslendingar leggi snarlega niður sína reistu rófu og hlaupi ýlfrandi í skjól. Og þar með gera utanríkisráðherra landsins að ómerkingi, og þjóðina að athlægi fyrir vingulshátt, græðgi og ístöðuleysi. Bjarni Benediktsson leggur beinlínis til að Íslendingar verði ómarktæk þjóð. Allt vegna þess að útgerðarmenn fóru ekki að vinna markaðsstarf sitt um leið og það lá fyrir að markaðir kynnu að lokast í Rússlandi. Hagsmunir útgerðarmanna eiga ekki að stjórna utanríkisstefnu Íslands. Sú forsenda sem útgerðarmenn og málpípur þeirra gefa sér, að hagsmunir útgerðarinnar séu jafnframt þjóðarhagsmunir, er röng. Útgerðarmenn hafa ávaxtað ímyndarpund sitt þannig að stórum hluta þjóðarinnar finnst það ekki koma sér við þó að þeir lendi í vandræðum með markaði. Það kann að vera ósanngjarnt viðhorf, en í því efni þurfa útgerðarmenn að líta í eigin barm og hefjast handa við að reyna að sættast við þjóðina; ekki að fá þjóðina til að sætta sig við forréttindi þeirra heldur leita raunverulegra sátta.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun